30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4453 í B-deild Alþingistíðinda. (4195)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr- og trn. hefur fjallað um efni þessa frv. og orðið sammála um að mæla með að það verði samþykkt með þeirri breytingu sem nefndin flytur á þskj. 794. og er við 1. gr. frv., að orðin „sem í þeim er geymt” falli niður þannig að upphaf 1. gr. hljóði: „Allar húseignir og lausafé, þar með taldar vörubirgðir, vélar og tæki“ o.s.frv.

Þetta frv. er undirbúið af nefnd, sem heilbr.- og trmrh. skipaði, og er byggt á niðurstöðum þess nál. Það felur í sér víðtækar breytingar frá gildandi lögum, en login um Viðlagatryggingu Íslands voru samþykkt á árinu 1975 og voru nýmæli í tryggingarstarfsemi. Þau lög náðu til allra vátryggingaskyldra húseigna og lausafjár, þar með taldar vörubirgðir, vélar og tæki sem brunatryggðar eru hjá vátryggingarfélagi er starfsleyfi hefur hér á landi. Tryggingarskyldan náði þá einnig til lausafjár sem tryggt er það sem kallað er samsettri tryggingu er innifelur brunatryggingu, enda átti slík trygging að flokkast undir eignartryggingar.

Þegar lögin um viðlagatryggingu voru sett voru starfandi í landinu tveir sjóðir sem höfðu það hlutverk að veita aðstoð vegna tjóna af völdum náttúruhamfara. Viðlagasjóður, sem starfaði samkv. lögum frá 27. mars 1973 og 28. febr, 1975, hafði það hlutverk að bæta tjón af völdum eldgossins í Vestmannaeyjum og snjóflóðanna í Neskaupsstað. Þegar þessum verkefnum var lokið mátti gera ráð fyrir að yrði í árslok 1976, sem varð, þá var gert ráð fyrir að starfsemi Viðlagasjóðs yrði lögð niður og eignir og skuldir, eins og þær þá voru, áttu að renna til Viðlagatryggingarinnar. Hinn sjóðurinn, sem fjallaði um lík efni, var Bjargráðasjóður sem starfað hefur mjög lengi og starfar enn, en Bjargráðasjóði er skipt í tvær deildir, almenna deild og svokallaða búnaðardeild.

Fjárhagsaðstoð beggja þessara deilda er ýmist fólgin í styrkveitingu eða veitingu vaxtalausra lána. Lögin um Viðlagatryggingu gerðu ráð fyrir að eingöngu yrði um einkatryggingu að ræða sem á að bæta tjón af völdum tiltekinna náttúruhamfara, og því hefur starfsemi Viðlagatryggingar ekki gripið inn á svið Bjargráðasjóðsins. Þó liggur skýrt fyrir að tryggingin hefur létt mjög á almennri deild Bjargráðasjóðs þar sem Bjargráðasjóður hefur yfirleitt ekki veitt lán eða styrki þegar vátrygging er fyrir hendi.

Tilgangurinn með lagasetningunni um Viðlagatryggingu Íslands var að vera fyrir fram viðbúinn með fjármagn og reglur um, hvernig eigi að bæta ef mann verða fyrir eignatjóni af völdum náttúruhamfara, og um leið að tryggja að allir sitji við sama borð í þessu efni. Tjón, sem einstaklingur bíður af völdum náttúruhamfara, er jafntilfinnanlegt fyrir hann, hvort heldur hann verður einn fyrir því eða fleiri samtímis.

Ég hygg að óhætt sé að fullyrða að lögin um Viðlagatryggingu hafi reynst vel. Það var hins vegar sjálfsagt að fara gætilega af stað með þá tryggingu á símum tíma. Þá er það núna jafnsjálfsagt, þegar skapast hefur reynsla og þessi trygging er nokkuð sterk að auka tryggingasviðið, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv.

Ég vil benda á tiltekin atriði sem mér þykir rétt að vekja athygli á í sambandi við væntanlega setningu reglugerðar um Viðlagatrygginguna. Það er í sambandi við og það bætist við þær eignir, sem skylt er að tryggja, og jafnframt er heimildarákvæði um frjálsa tryggingu á öðrum eignum. Þau mannvirki sem bætast við í skyldutryggingu eru hvergi skráð á einum stað og ekkert opinbert mat er til á verðmæti þeirra eða endurbyggingarverði. Hins vegar er um að ræða tiltölulega vel skilgreindan flokk mannvirkja sem ætla má að sé nokkuð auðvelt að ná til skráningar. Á hinn bóginn er að öllum líkindum erfiðara að fá upplýsingar um endurbyggingarverð, en það en það skal vera vátryggingarverð þessara mannvirkja. Spurning er hvort orki ekki tvímælis að nota hér endurbyggingarverðið sem vátryggingarverð þar sem mannvirkin, sem hér um ræðir, ganga úr sér og þurfa endurnýjunar við á vissu árabili.

Í sambandi við að fjölgað hefur tryggðum eignum, vaknar einnig spurningin um skilgreiningu á eigin áhættu vátryggðs. Það er ljóst, að ýmis sveitarfélög munu tryggja hitaveitur, vatnsveitur, skolpveitur, rafveitur og fleiri mannvirki. Eigin áhætta vátryggðs er að lágmarki 50 þús kr. eða samtals 50 þús. kr. fyrir hvert einstakt mannvirki. Sama gildir um raforkuvirki og símavirki þá er spurningin: Á að líta á allt símakerfið og dreifikerfi sjónvarps og hljóðvarps sem eina heild eða á að brjóta þau niður í smærri einingar með eigin áhættu? þetta tel ég æskilegt að sé skilgreint nánar í reglugerð þannig að tvírætt verði í framkvæmdinni.

Í lögum, eins og þau eru núna, er gert ráð fyrir lögveðsrétti vegni iðgjalda af tryggingum húseignar í hinni tryggðu húseign ásamt lóð eða landi sem hún stendur á, en tryggingin samkv. því frv. sem hér liggur fyrir, tekur einnig til lóða og landa og því eðlilegt að iðgjöld af þeim tryggingum njóti einnig lögveðsréttar.

Mér fannst rétt í framsöguræðu að koma þessum ábendingum á framfæri varðandi samningu reglugerðar, en endurtek að heilbr.- og trn. varð sammála um að mæla með því, að þetta frv. yrði samþykkt eins og það liggur fyrir, að meðtalinni þeirri brtt. sem ég lýsti áðan.