30.04.1982
Neðri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4457 í B-deild Alþingistíðinda. (4214)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. meiri hl. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 frá 21. júní 1973, um Hæstarétt Íslands. Megintilgangurinn með þessu frv. er að auðvelda Hæstarétti að sinna þeim mikla fjölda mála sem þar hefur hrannast upp á undanförnum árum. til vandræða horfir hve dráttur er orðinn langur á því að Hæstiréttur geti sinnt öllum þessum málafjölda.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir að farnar verði þrjár leiðir að þessu marki. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að fjölga um einn dómara í Hæstarétti þannig að dómarar verði 8 í staðinn fyrir 7. Jafnframt er veitt heimild til þess að ráða til starfa í réttinum um takmarkaðan tíma 2– 3 dómara sem starfi þar um 6 mánaða skeið í hvert sinn, ef það mætti einnig verða til að létta á þeim mikla fjölda mála sem bíður afgreiðslu í réttinum. Gert er ráð fyrir að þessi heimild gildi aðeins árin 1982 og 1983. Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir að veita heimild til þess að ráða einn löglærðan aðstoðarmann til starfa við dóminn og ætti starf hans að greiða fyrir því, að mál fengju hraðari afgreiðslu í dóminum.

Allshn. hefur fengið til viðræðna um þetta mál hæstaréttardómarana Loga Einarsson, sem er forseti Hæstaréttar, og Þór Vilhjálmsson. Enn fremur hefur nefndin fengið til viðræðna Steingrím Gaut Kristjánsson héraðsdómara og Baldur Möller ráðuneytisstjóra í dómsmrn.

Frv. það, sem nokkrum sinnum hefur verið flutt um lögréttu, en aldrei fengið afgreiðslu í þinginu, kom mjög til umræðu í nefndinni, og þess gætti mjög í umræðum í nefndinni að sumir nm. a.m.k. telja frv. til lögréttu mjög vænlegan kost í því efni að létta á Hæstarétti. Engu að síður varð það niðurstaða meiri hl. n. að mæla með samþykkt þessa frv. eins og það liggur fyrir frá Ed.

Að þessu nál. standa auk mín hv. þm. Ingólfur Guðnason, Garðar Sigurðsson, Friðrik Sophusson og Eggert Haukdal. Friðrik Sophusson og Ingólfur Guðnason skrifa undir nál. með fyrirvara.