03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4483 í B-deild Alþingistíðinda. (4235)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns og fagna því, að þetta frv. skuli vera fram komið. Ég hef raunar áður lýst yfir þeirri skoðun minni í þessari hv. deild, að við Íslendingar ættum að athuga þann möguleika mjög rækilega að gerast aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég held að ég megi fullyrða að það sé yfirleitt skoðun okkar sjálfstæðismanna.

Þetta mál hefur oft borið á góma á undanförnum árum. Ég vel vekja athygli hv. deildar á því, að í skýrslu sinni til ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar í sept. 1979 gerði fimm manna olíuviðskiptanefnd, sem dr. Jóhannes Nordal bankastjóri Seðlabankans var formaður í, almenna grein fyrir Alþjóðaorkustofnuninni, skipulagi hennar og starfi og aðildarskilmálum. Þessi nefnd mælti með því, að Ísland óskaði eftir aðild að stofnuninni, nema einn nm. hafði fyrirvara um þá afstöðu. Þetta mál hefur því verið á döfinni allar götur síðan 1979. Og það er engin tilviljun að svo hefur verið, vegna þess að 1979 skali síðari olíukreppan yfir heiminn, eins og menn vita, og menn fóru þá að hugsa meira um þann vanda sem viðkomandi þjóðir gætu komist í ef ekki væri gætt öryggis í því að hafa tiltækar nægar olíubirgðir m.a. Þetta samstarf er að vísu, eins og hæstv, ráðh. réttilega benti á, allmiklu víðtækara en einungis um olíuöryggismál. Þarna er fjallað um mörg önnur atriði sem varða orkumál og samstarf og samskipti þjóða á þeim sviðum.

Það er vitað mál, sem ég held að hafi ekki farið fram hjá neinum, að það á víðtækan hljómgrunn hér á hinu háa Alþingi að vinna að og ræða þessa hlið öryggismála landsins. En ég held að hv. þm. sé jafnljóst að það hefur fyrst og fremst strandað á afstöðu eins stjórnarflokkanna sem virðist hafa stöðvunarvald í þessum efnum.

Ég tek undir það, að þetta frv. er allseint fram komið. Þó vil ég fagna því og taka undir orð síðasta ræðumanns um það, að ef ekki gefst kostur á að athuga það á þessu þingi, sem nánast er tæknilega útilokað að verði, þá verði það tekið til gagngerðrar athugunar á haustmánuðum. Ég fagna þessu frv. og get tekið undir flest eða allt það sem hæstv. ráðh. sagði í framsöguræðu sinni.