09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

69. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson;:

Herra forseti. Á þskj. 72 flyt ég frv. til l. um breyt. á lögum nr. 5 13. febr. 1976, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, með síðari breytingum.

Hluti af þessu frv. er kunnur hér í þingsölum. Það hefur verið flutt ár eftir ár. Hér hefur ár eftir ár verið lagt til að fetla niður útflutningsgjald af tunnum og hjálparefni til saltsíldargerðar. Hér er sú breyting hins vegar á gerð, að lagt er til í l. gr. þessa frv. að inn í útflutningslögin verði tekin heimild fyrir sjútvrh. til að fella niður þetta gjald eða m. ö. o. að það þurfi ekki að koma fyrir hið háa Alþingi ár hvert.

Ég veit að hv. alþm. þekkja rökin fyrir niðurfellingu útflutningsgjaldsins af síldarafurðum. Við saltsíldarverkun eru tunnurnar innfluttar fyrst og fremst og ákaflega stór liður í kostnaði við þá vinnslu. Menn hafa verið sammála um að ekki væri eðlilegt að leggja síðan útflutningsgjöld á það verðmæti, þ. e. á tunnurnar, né á hjálparefni sem notuð eru í þessu sambandi. Sérstök rök hafa hvað eftir annað verið færð fram fyrir því að fella niður útflutningsgjald af ediksaltaðri síld. Sú síld hefur verið flutt til Þýskalands, þ. e. Efnahagsbandalagsins. Þar hafa tollar jafnt og þétt hækkað og mönnum verið ljóst að ekki yrði af slíkum útflutningi neina þessari tollahækkun væri mætt með því að fella niður einhver gjöld hér innanlands. Þetta var t. d. samþykki á síðasta Alþingi.

Ég get upplýst, að þrátt fyrir niðurfellingu útflutningsgjalds af ediksaltaðri síld; sem hér er lagt til, eru mjög litlar eða engar líkur til þess, að af útflutningi verði til Vestur-Þýskalands. Það stafar af því, að þar hækka tollar nú enn og allt bendir til að þeir verði orðnir 20% af slíkum innflutningi, hækki úr um 8%, sem þeir voru áður, upp í 20%. Má þá ljóst vera að jafnvel niðurfelling útflutningsgjalds nægir ekki til þess, að af slíkum innflutningi gæti orðið. Engu að síður þykir rétt að halda þessari venju, sem skapast hefur, og leggja til að það gjald verði fellt niður.

Síðan er í frv. þessu ákvæði til bráðabirgða. Þar er fjallað um niðurfellingu að hluta á útflutningsgjaldi af loðnuafurðum. Lagt er til að útflutningsgjaldið verði 3.575% í stað 5.5%. Jafnframt er lagt til í frv. í hvað þetta gjald skuli greiða, felld er niður greiðslan í almenna deild Aflatryggingasjóðs og einnig í verðjöfnunardeild Aflatryggingasjóðs. Almenna deildin stendur mjög vel og verðjöfnunardeildin sæmilega.

Þetta er liður í samkomulagi, sem gert var um loðnuverð, og er flutt með fullu samkomulagi við sjómenn og útgerðarmenn sem gjarnan hafa litið á útflutningsgjaldið sem sitt, enda er því ráðstafað til ýmissa þarfa útgerðarinnar. Mér þykir því rétt í þessu sambandi að rekja hvernig samkomulag náðist um loðnuverðið.

Loðnuverð hafði verið ákveðið til bráðabirgða s. l. haust 450 kr. tonnið. Það gilti til loka september. Menn gerðu sér jafnframt vonir um að loðnumjöl og afurðir mundu hækka með haustinu, eins og venja hefur verið. Svo varð því miður ekki. Loðnumjöl féll enn og hafði þá fallið úr 9 dollurum hver próteineining niður í 7 dollara. Það er 22% verðfall í dollurum. Lýsi hafði sömuleiðis fallið í verði. Þegar loðnuverð var tekið upp aftur í byrjun október varð því ljóst að vinnslan gæti með engu móti greitt þetta verð, 450 kr. á tonnið. Að mati Þjóðhagsstofnunar vantaði þá 246 kr. upp á eða um 35–36% að vinnslukostnaði væri mætt. Samkomulag náðist síðan við sjómenn og með hjásetu vinnslunnar um að þessu yrði mætt þannig að skiptaverð lækkaði í 425 kr., en það er 29 kr. brúttólækkun því gjöld eru lögð á loðnuverðið sem þar dragast einnig frá. Þá varð samkomulag um að fella niður útflutningsgjald, eins og gert er ráð fyrir því frv. sem ég mæli nú fyrir, og nemur það 16 kr. Loks var ákveðið að Verðjöfnunarsjóður tæki lán með ríkisábyrgð samkv. heimild í þeim brbl. sem sett voru 1. sept. s. l. Þetta lán yrði samtals, miðað við það aflamagn sem hefur verið áætlað fram til áramóta, 42 millj. kr. og nemur 105 kr. á hvert tonn. Eftir sem áður stendur þó tap vinnslunnar upp á 96 kr., sem er um 11–12% vinnslukostnaðar.

Þá er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að sjútvrh. verði heimilað að ákveða að ekki skuli innheimt gjald samkv. 2. gr. af allt að 1600 tonnum af þurrkuðum saltfiski af saltfisksframleiðslu ársins 1981. Ráðh. getur og ákveðið að gjaldið verði endurgreitt.

Eins og hv. þm. mun kunnugt var þurrfiskmarkaður mikilvægur fyrir okkur Íslendinga, sérstaklega í Brasilíu á fyrri árum. Því miður höfum við nánast algjörlega fallið út af þeim markaði. Forustumenn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda fóru þess á leit við sjútvrn., að aðstoð yrði veitt í einu formi eða öðru til að vinna mætti nokkurn blautfisk í þurrfisk og gera tilraun til að ná að nýju fótfestu á Brasilíumarkaði. Þeir áætla að vinna 2000–3000 tonn af blautfiski, sem gæti þá orðið að hámarki 1600 tonn af þurrfiski. Þarna er um mjög mikilvægt mál að ræða og tvímælalaust nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að skoða allar leiðir til að ná að nýju eðlilegri hlutdeild í þessum markaði.

Til þess að gera saltfiskframleiðendum þetta kleift er m. a. það frv. flutt, sem hér er, eða það ákvæði, sem ég nú lýsti, um niðurfellingu á 5.5% útflutningsgjaldi. Ef framleidd verða 1600 tonn af þurrfiski nemur það samtals um 1.9 millj. kr., sem er um 1% af heildartekjum af útflutningsgjaldi sjávarafurða.

Þá er að lokum lagt til í ákvæði til bráðabirgða að ráðh. verði heimilt að ákveða að ekki skuli innheimta gjald samkv. 2. gr. af skreið, sem unnin er úr kolmunna sem veiddur er á árunum 1981–1982, og að endurgreiða það gjald sem þegar hefur verið greitt af afurðum unnum úr kolmunna.

Töluverð tilraun hefur verð gerð til að vinna kolmunna til manneldis, gert bæði með flökun og líka með skreiðarverkun, m. a. með því að nýta jarðvarma til þurrkunar á kolmunna. Ég get t. d. nefnt að auk þess að vinna úr þeim kolmunna, sem fengist hefur innanlands, keypti Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum 500 tonn af kolmunna erlendis frá til að gera þessa tilraun með þurrkun. Þetta var nauðsynlegt vegna þess að verksmiðjan gat ekki fengið flakaðan kolmunna þegar hentaði til vinnslunnar og innflutningur því leyfður í tilraunaskyni.

Ýmislegt bendir til þess, að þurrkun á kolmunna með jarðvarma geti orðið arðbær atvinnugrein ef kolmunninn fæst. En hitt er jafnframt ljóst, að tilraunin, sem gerð var í fyrra og í ár, er mjög kostnaðarsöm fyrir framleiðendur. Jafnvel þótt sjútvrn. hafi styrkt þessa tilraun með því fjármagni, sem það hefur til ráðstöfunar í slíka aðstoð, fer því víðs fjarri að þessir aðilar hafi fengið greiddan sinn kostnað. Þess vegna þykir rétt að fara fram á slíka heimild fyrir framleiðsluárin 1981–1982, enda vafasamt að leggja eigi útflutningsgjald á tilraun sem hér er um að ræða. Hér er um mjög litla upphæð að ræða.

Um kolmunnann almennt vil ég nefna það, að sjútvrn. ráðstafaði því, sem það hafði í slíku skyni á s. l. ári, til þurrkunar á kolmunna og reyndar þurrkunar með jarðvarma á fiski. Í ár var hins vegar því fjármagni öllu, sem ráðuneytið hafði til slíkrar tilraunastarfsemi, ráðstafað til veiðanna. Ég er ekki búinn að fá endanlegar niðurstöður af þeirri tilraun, en þó bendir því miður allt til þess að þær hafi ekki orðið arðbærar. Kolmunnaveiðar gengu illa, sérstaklega eftir að kolmunninn kom inn fyrir íslenska fiskveiðilögsögu. Ég fæ ekki séð að eftir þessa tilraun séum við miklu nær en áður því nauðsynlega markmiði að nýta kolmunnann. Kolmunninn er eina fisktegundin sem ekki er fullnýtt, og mjög er langt frá því, að við höfum náð að nýta kolmunnann að því magni sem menn telja eðlilegt fyrir okkur. Við höfum aflað 10–20, í mesta lagi 30 þús. lesta af kolmunna, en eðlilegur afli væri í kringum 200 þús. lestir. Um það skal ég ekki ræða frekar en vil að lokinni þessari framsögu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.