04.05.1982
Neðri deild: 79. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4604 í B-deild Alþingistíðinda. (4378)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Frv. gengur út á það, að bætt verði við 4. gr. laganna, er fjallar um skattfrelsi, orðunum „félagsheimili, byggð samkv. 1. gr. laga nr. 54/1979, um félagsheimili,“ en í þeim lögum er enginn einstakur aðili beinlínis skilgreindur, heldur kemur fram í greininni að stikir aðilar séu skattfrjálsir ef þeir fullnægi ákveðnum skilyrðum.

Ríkisskattstjóri kom fyrir nefndina og lagði fram ýmis gögn og veitti ýmsar upplýsingar og lagði nefndin verulega vinnu í þetta mál. Mun ég láta nægja varðandi mál þetta að mestu að lesa hér upp úr nál.:

„Í lögum nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, voru ákvæði þess efnis, að félög, sem ekki ráku atvinnu, voru undanþegin skattskyldu samkv. þeim lögum. Á undanþáguákvæðið hefur reynt m, a. í málum sem til úrlausnar hafa komið hjá ríkisskattanefnd og dómstólum. Á grundvelli þessara ákvæða felldi ríkisskattanefnd úrskurð um skattskyldu tiltekins félagsheimilis gjaldárið 1979 vegna rekstrar þess á árinu 1978.“ — Ég vil taka það fram, að þessi úrskurður byggðist á eldri lögum um tekjuskatt og eignarskatt. — „Aðgerðir skattyfirvalda, sem m. a. eru byggðar á úrskurðinum, eru tilefni frv. sem hér er til meðferðar. Ljóst er að áðurnefnd undanþága frá skattskyldu, sbr. lög nr. 68/1971,“ — það eru eldri lög, — „er skilyrðisbundin. Ríkisskattanefnd komst að þeirri niðurstöðu, að á árinu 1978 hefði nefnt félagsheimili haft með höndum þá starfsemi sem leiddi til skattskyldu það tiltekna ár. Ekki var verið í því máli að taka afstöðu til þess, hvort félagsheimili, sem byggð hafa verið samkv. lögum um félagsheimili, væru almennt séð skattskyldir aðilar samkv. lögum nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Fyrir nefndinni liggja upplýsingar um álagningu tekjuskatts og eignarskatts framkvæmda af skattstjórum gjaldárin 1980 og 1981“— þ. e. eftir að ný lög um tekju- og eignarskatt tóku gildi. „Í flestum þeim tilvikum, sem slík álagning hefur farið fram, hefur hún byggst á áætluðum skattstofnum. Svo virðist sem álagning þessara skatta gjaldárið 1981 hafi byggst á fyrrnefndum úrskurði ríkisskattanefndar og ég endurtek: sem gekk út á eldri lög um tekjuskatt og eignarskatt, — m. a. kemur það beinlínis fram hjá tveimur skattstjórum. Hjá einum skattstjóranum kemur fram, að hann hafi ekki byggt álagningu sína á því, að félagsheimilin væru skattskyldir aðilar, heldur í þeim eina tilgangi að knýja á um skil á skattframtölum. Hafa áætlanir þessar ekki byggst á hlutlægu mati, heldur fjárhæðir ákvarðaðar með hliðsjón af ætluðum áhrifum á framtalsskil aðilanna. Slík framkvæmd á ekki stoð í lögum.

Í nýju lögunum um tekjuskatt og eignarskatt eru undanþáguákvæði frá skattskyldu lögaðila rýmkuð frá því sem var í eldri lögum, þannig að nú skiptir það máli hvernig félagsheimili, sem kunna að reka atvinnu í skilningi tekju- og eignarskattslaganna, verji hagnaði sínum, sbr. 5. og 6. tölul. 4. gr. laganna “— sem ekki var í áðurgreindum fyrri lögum.

„Af því, sem greinir hér að framan, er augljóst að við álagningu skattanna gjaldárið 1981 hafi skattstjórar gert þau mistök að leggja til grundvallar úrskurð ríkisskattanefndar, sem byggist á eldri lagaákvæðum og þar sem leyst var úr skattskyldu tiltekins félagsheimilis tiltekið ár, en það naut skilyrðisbundins skattfrelsis. Þessi mistök skattstjóra hefur ríkisskattstjóri í raun staðfest með því að draga til baka og gera nýjar kröfugerðir í málum tveggja félagsheimila sem nú eru til úrlausnar hjá ríkisskattanefnd og varða gjaldárið 1980, en í þeim málum reynir á undanþáguákvæði nýju tekju- og eignarskattslaganna. Ríkisskattanefnd hefur ekki lokið við að kveða upp úrskurði í málum þessum“ — og því hefur að fullu ekki reynt á lagaákvæði þessi.

„Ekki liggur fyrir fullnaðarafgreiðsla skattyfirvalda um skattskyldu félagsheimila samkv. lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Nefndin telur því ekki ráðlegt að mæla með því, að frv. verði nú samþykkt. Nefndin telur rétt að fresta innheimtu á álögðum sköttum á félagsheimili þar til fullnaðarafgreiðsla skattyfirvalda og nefndir úrskurðir ríkisskattanefndar liggja fyrir.

Í framhaldi af því verði gerð nánari athugun á stöðu félagsheimila gagnvart skattalögum almennt séð og hvort breyta þurfi skattalögum vegna starfsemi þeirra.

Með tilvísun til ofanritaðs leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Herra forseti. Allir nm. fjh.- og viðskn. standa að þessu nál.

Ég vil í þessu sambandi taka það fram, að frv. þetta hefur orðið tilefni til þess, að nefndin hefur lagt verulega vinnu í þetta mál. Vegna þess að hér var rætt allverulega um starfshætti Alþingis í gær má spyrja þeirrar spurningar, hvort ekki væri rétt að opna þann möguleika að nefndir gætu tekið mál til athugunar og tækju mál til athugunar og umræðu og jafnvel afgreiðslu án þess að sérstakt frv. sé flutt. Það má segja að okkur virðist að ekki sé nauðsynlegt að breyta lögum í þessu sambandi. Hins vegar hefur verið nauðsynlegt að taka mál þetta til athugunar í nefndinni. Þess vegna hljóta að vakna þær spurningar varðandi mál sem þetta, hvort ekki sé nauðsynlegt að nefndir geti að beiðni ákveðinna þm. eða ákveðinna aðila tekið fyrir mál til umræðu og umfjöllunar án þess að beinlínis liggi fyrir tillöguflutningur hér á Alþingi.