04.05.1982
Neðri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4607 í B-deild Alþingistíðinda. (4389)

259. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. 259. mál þingsins er frv. um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð. Frv. kom frá Ed. og var afgreitt úr þeirri hv. deild óbreytt eins og það var lagt þar fram. Frv. er flutt að beiðni Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna og felur í sér að iðnlánasjóðsgjald, sem iðnfyrirtæki hafa greitt til sjóðsins verði lækkað verulega svo og að lánstími verði lengdur og lánahlutfall miðað við kostnað framkvæmda bætt. Þá er lagt til að ákvæði um sérstaka veiðarfæradeild verði fellt úr lögunum.

Iðnn. hefur rætt frv. og fengið á sinn fund forsvarsmenn Iðnlánasjóðs. Allir nm. mæla með að frv. verði samþykkt.