04.05.1982
Neðri deild: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4626 í B-deild Alþingistíðinda. (4445)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Frsm. minni hl. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Formaður iðnn. sagði að varla væri hægt að segja að um gagnrýni hafi verið að ræða á störf verkefnisstjórnar. Það er í meira lagi vafasöm fullyrðing hjá hv. farmanni iðnn.

Ég undirritaður tel að leggja beri mikla áherslu á uppbyggingu orkufreks iðnaðar til að auka atvinnu og treysta undirstöður þjóðarbúsins. Slíkar stóriðjuframkvæmdir verður að undirbúa af kostgæfni svo að þær nýtist sem allra best. Einungis á grundvelli vandaðs undirbúnings er rétt að ganga frá eiginlegum efnisþáttum.

Eins og fram kemur í margvíslegum umsögnum um fyrirliggjandi frv. er efnisundirbúningi mjög áfatt. Ég legg því til að undirbúningi verði haldið áfram af fullum krafti og hann falinn sérstakri undirbúningsstjórn. Er það reyndar í samræmi við hugmyndir sem fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. auk mín létu í ljós áhuga á þegar þessi mál voru til umfjöllunar í iðnn. í gær.

Á hinn bóginn er fráleitt að taka afstöðu til ýmissa efnisatriða, eins og till. meiri hl. n. gera nú ráð fyrir, fyrr en fyrir liggur niðurstaða af undirbúningsathugunum þeim sem allir virðast sammála um að nauðsynlegar séu. Þær athuganir eiga auðvitað að ráða úrslitum um hvernig haldið verður á efnisþáttum. Verður að teljast veruleg þversögn í því að ætla að afgreiða hin margbreytilegustu efnisatriði um framhald málsins meðan undirbúningur stendur enn yfir.

Herra forseti. Á þskj. 917 flyt ég brtt. við brtt. meiri hl. n. og gera brtt. mínar ráð fyrir kosningu sérstakrar undirbúningsstjórnar og að undirbúningi verði haldið áfram af fullum krafti. Jafnframt geri ég ráð fyrir að samið verði nýtt frv. um kísilmálmverksmiðju á grundveili starfa undirbúningsstjórnarinnar. Ég legg áherslu á eftirfarandi:

1. Að auka orkufrekan iðnað í landinu.

2. Undirbúning slíkra verkefna verður að vanda, en mikið skortir á það í þessu tilviki.

3. Af þessum sökum verður að vinna áfram að undirbúningi verksins.

4. Afstaða til einstakra efnisþátta verður að grundvallast á undirbúningsvinnu þeirri sem fram undan er.

5. Þess vegna er rétt að bíða niðurstöðu úr starfi undirbúningsstjórnar áður en gengið er frá lagafrv. um sjálfa starfrækslu verksmiðjunnar.