04.05.1982
Neðri deild: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4645 í B-deild Alþingistíðinda. (4450)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í niðurlagsorðum ræðu sinnar komst hæstv. iðnrh. svo að orði, að það þyrfti að dreifa orkufrekum iðnfyrirtækjum á ýmis landssvæði, og sagði síðan orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „og þá ekki síst landshluta sem búa yfir mikilli orku.“ Þessi ummæli hæstv. iðnrh. komu mér ekki á óvart vegna þess að það sést af þeim plöggum, sem hann hefur lagt fyrir Alþingi, að hann hefur nú þegar markað þá stefnu, að stóriðjufyrirtæki skuli ekki rísa við Eyjafjörð í náinni framtíð, eins og ég skal nú gera grein fyrir. Allt annað á að sitja fyrir þessu sérstaka byggðarlagi. Þó liggur fyrir að atvinnuástand á þessum stað stendur nú mjög hallandi fæti, fyrst og fremst fyrir þá sök, að þannig hefur verið búið að iðnaðinum í landinu og þá fyrst og fremst útflutningsiðnaðinum, að hann á nú mjög í vök að verjast og getur ekki tekið á móti nýju fólki og er rekinn með bullandi hallarekstri frá ári til árs.

Ég vil taka það fram strax í upphafi máls míns, að ég er ekki trúaður á það, þótt hæstv. iðnrh. sé duglegur að senda frá sér bækur, að hann hafi dugnað í sér til að reisa nýjar verksmiðjur í stað allra þeirra glötuðu atvinnutækifæra sem týnast á hverju misseri nú vegna þess að iðnrekstrinum í landinu, þeim fyrirtækjum sem fyrir eru í landinu, eru ekki búin lífvænleg skilyrði. Ég veit satt að segja ekki hvar á að byrja, það er af svo mörgu að taka.

Það er í rauninni erfitt fyrir þm. af Norðurlandi að sitja nú hér á Alþingi. Á sama tíma og Blönduvirkjun er að komast í gegn og verða að veruleika verðum við Norðlendingar að horfa á það, að engar hugmyndir eru uppi um það í náinni framtíð að orkufrekur iðnaður rísi á því svæði sem mest hefur verið talað um undanfarin 20–30 ár. Af hverju? Vegna þess að hæstv. iðnrh. sér ekki út fyrir túngarðinn hjá sér. Vegna þess að hann af staðbundnum pólitískum ástæðum horfir einungis til Reyðarfjarðar og þess svæðis í kringum sig sem þar er.

Ég er hér með tvær skýrslur í höndunum sem báðar fjalla um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Í fyrri skýrslunni er talað um að það sé vel athugandi að kísilmálmverksmiðja rísi annars staðar en í Reyðarfirði. Ég vil lesa þar orðrétt kafla, með leyfi hæstv. forseta:

„Staðarvalsnefnd hefur fjallað um samtals 10 svæði eða staði á landinu með hliðsjón af fyrrgreindum atriðum. Þessi svæði eru Reykjavíkursvæði, Akranessvæði, Ísafjarðarsvæði, Húnaþing, Skagafjörður, Eyjafjörður, Húsavíkursvæði, Reyðarfjörður, Þorlákshöfn og Suðurnes. Af ýmsum ástæðum hefur nefndin að svo stöddu einkum staðnæmst við þrjú svæði, þ. e. Reykjavíkursvæðið, Eyjafjörð og Reyðarfjörð, sem koma að mati nefndarinnar öll vel til álita í þessu samhengi. Kemur sú niðurstaða heim við ályktanir flestra þeirra sem hafa áður fjallað um þessi mál.“

Ég hef farið fram á það bæði við hæstv. ráðh. og eins við starfsmenn hans í iðnrn., að ég fengi skýrslur og plögg um það, hvernig staðið hefur verið að stóriðjuhugmyndum við Eyjafjörð. Ég hef óskað eftir að fá um það upplýsingar, hvað staðarvalsnefnd hefur sett á blað um þau efni. Ég hef óskað eftir að fá staðfestingu á því að Eyjafjarðarsvæðið hafi ekki gleymst, staðfestingu á því, að við Norðurlandsþm. verðum ekki látnir gjalda þess þó við horfum ekki öfundaraugum til Austfjarða þótt þeir fái líka einhverja úrlausn sinna mála.

Ég er ekki þannig skapi farinn að ég hafi geð í mér til þess að reyna að spilla fyrir uppbyggingu atvinnulífs annars staðar á landinu en á Norðurlandi. Ég lít engum öfundaraugum til þess að landið allt geti byggst samtímis. Ég tel það sjálfsagt og rétt, af því að ég lít þannig á byggðastefnu að hún geti ekki staðist og geti ekki risið undir nafni nema því aðeins að við leitum allra fanga í okkar fátæka landi til þess að byggja upp ný atvinnutækifæri. Ég vil taka undir orð þess manns sem vitrastur hefur á þingi setið fyrir Framsfl., Gísla heitins Guðmundssonar, þegar hann sagði að við værum vel menn til þess að byggja upp okkar land í samvinnu við útlendinga og með erlendum áhættufjármagni. Þau orð standa enn í fullu gildi.

Ég tek eftir því, að þeir þm., sem styðja ríkisstj. og eru að norðan, hafa verið næsta fáorðir um þessa hlið málsins. En ég vænti þess, að hæstv. iðnrh. geri grein fyrir því annaðhvort nú í kvöld eða nótt, — hæstv. forsrh. er sennilega farinn, ég sá að taskan hvarf um hálfeitt, — annaðhvort nú í nótt eða þá í morgun við 3. umr. málsins, áður en þingi lýkur, hvaða iðnaðarkostir séu í huga hans fyrir Eyjafjörð. Ég er að reyna að fletta þessum plöggum en fæ satt að segja ekki mikið út úr því.

Ég sé þó ástæðu til að vitna hér til annarrar setningar í þessu plaggi sem heitir Kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði, áfangaskýrsla I, útgefin í maí 1981, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkufrekur iðnaður hefur óumdeilanlega áhrif á atvinnulíf og efnahag þar sem honum er valinn staður. Staðarval hefur því byggðapólitískar afleiðingar. Til að mynda getur orkufrekur iðnaður orðið til að dreifa atvinnutækifærum um landið. Ef þessir möguleikar eiga að nýtast sem best verða menn að gefa gaum að því, hvað henti best á hverjum stað og hvaða aðrir iðnaðarkostir komi þar til álita. Kísilmálmbræðsla er ein af smærri iðjuverum sem nú eru til umræðu. Orkunotkun hennar er tiltölulega mikil miðað við starfsmannafjölda, ekki síst ef eldsneytisverksmiðja bætist við. Því er að öðru jöfnu eðlilegt að slíkri verksmiðju sé valinn staður á svæði þar sem mikla raforku er að finna, en fólksfjöldi er ekki að sama skapi mikill. Þessi einkenni á kísilmálmframleiðslu mæla því með staðarvali á Reyðarfirði frekar en á Reykjavíkursvæðinu eða við Eyjafjörð. Hér ber þó að geta þess, að fólksfjöldi á Reyðarfjarðarsvæðinu er við neðri mörk þess sem nefndin telur æskilegt fyrir verksmiðju af þessari stærð.“

Ég sé satt að segja ekki ástæðu til þess að vera að eyða orðum að hæstv. iðnrh. ef hann er víðs fjarri. Ef menn ætlast til þess að menn standi hér í ræðustól fram eftir allri nóttu, þá geta hæstv. ráðherrar vel setið í sætum sínum. Síðan kemur — og ég vil undirstrika þessi orð í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Flestum kemur nú saman um að álver verði ekki reist með góðu móti nema í nágrenni Reykjavíkur og e. t. v. við Eyjafjörð, og skal það látið liggja á milli hluta, hvort menn gera ráð fyrir að álverum fjölgi í landinu á næstunni.“

Þetta er dúsan, en ekki nema dúsa. Dúsa er notuð handa börnum til þess að blekkja þau og hefur enga næringu. Og það eiga Eyfirðingar að fá. Þeir eiga að fá dúsu. Það er sagt við þá: Þið fáið kannske álver einhvern tíma. En hvenær? Við því er ekkert svar. Það er meira að segja svo langt gengið, að í þeim plöggum, sem komið hafa frá hæstv. iðnrh. síðan, er Eyjafirði algerlega sleppt þegar talað er um álver, ekki minnst á hann einu einasta orði, hvergi. Till. til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Hvar er minnst á Eyjafjarðarsvæðið þar? Hvergi. Í þessu nýja plaggi um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, hvar er þar rökstuðningur fyrir því, að kísilmálmverksmiðja skyldi frekar rísa við Reyðarfjörð en við Eyjafjörð? Enginn rökstuðningur fyrir því. Það er pólitísk ákvörðun sem ég skal ekki gagnrýna. Við höfum ekki, Norðlendingar, staðið gegn því, að orkufrekur iðnaður rísi á Austfjörðum, síður en svo. En við viljum líka fá eitthvað handa okkur. Akureyri er að verða láglaunasvæði. Iðnaðarmenn á Akureyri eru farnir að leita til annarra landshluta. Á hverju byggist orðið líf manna á þessu svæði sem hefur verið eina mótvægið við Reykjavíkursvæðið allan þennan tíma? Afkoman þar byggist á því, að við Eyjafjörð eru milli 15 og 20 skuttogarar. Á því höngum við meðan þorskurinn er í sjónum. En þetta er þó ekki meiri togarafloti en svo, að öðru eins hefur verið bætt við þennan flota á s. l. tveimur árum með ýmsum hætti, og hafa ýmsir verið gabbaðir og ýmsir plataðir og ýmsir kvartað sáran yfir því og skal ég ekki út í það fara. En okkur þykir þetta heldur einhæft.

Við gerðum okkur á sínum tíma miklar vonir um það, að okkur tækist að byggja upp fyrir norðan og bæta við þann vísi að útflutningsiðnaði sem þar var. Það hafði tekist að vinna markaði erlendis, nýja markaði, bæði í ullar- og skinnaiðnaði, um það leyti sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar fór frá. Hvernig hefur unnist úr þessu síðan? Hvað hefur gerst í skinnaiðnaðinum? Hvernig er skinnaverksmiðjan á Dalvík? Er hún rekin með fullum afköstum nú eins og hún var þá? Við löfum í því í sambandi við útflutning á ullarvörum, að við eigum nú góða hönnuði og okkur hefur tekist að komast inn á markað í Vestur-Evrópu og erum að byrja að losna undan markaðinum í Rússlandi til guðs lukku. En hvað kemur þá? Kolvitlaus pólitík í gjaldeyrismálum. Afleiðingin er sú, að sá vaxtarbroddur, sem ullariðnaðurinn hefði getað verið fyrir þetta svæði, er að engu orðinn. Það hlaðast upp vanskilalán, það hlaðast upp hallalán, það er taprekstur. Þessi taprekstur er svo mikill að forstöðumenn þessara verksmiðja hafa í hyggju að kynna þm. hvernig rekstrarstaðan er nú þegar hún liggur fyrir eftir fyrstu þrjá mánuðina. Hvernig var það í sept.? Þá var haldinn fjölmennur fundur með öllu starfsfólki SÍS-verksmiðjanna til þess að færa ráðherrum, bankastjórum, fulltrúum stjórnarráðs og þingmönnum heim sanninn um að það væri ekki hægt að reka þessi fyrirtæki við þau skilyrði sem boðið var upp á — ekki hægt. Og hvað á að koma í staðinn? Á hverju eigum við að byggja upp framtíð staðarins, stækka hann og bæta? Hvernig er ástandið í landbúnaðinum? Nýja mjólkursamlagið, ætli það mali gull? Ég man ekki betur en fyrir handvömm núv. hæstv. sjútvrh. hafi ostamarkaður þess fyrirtækis í Bandaríkjunum glatast og ekkert fengist í staðinn. Nú er enginn Óðalsostur framleiddur þar lengur til útflutnings svo langt ég veit. Ef maður flettir blöðum þessarar hæstv. ríkisstj., þá er þarna eyða. Það vantar ekki fögur orð inn á milli, en það er ekkert gert, ekki nokkur skapaður hlutur.

Það er svo til marks um annað, að þó við, ég og hv. 2. þm. Norðurl. e., flytjum um það till. á þinginu ár eftir ár að Alþingi feli ríkisstj. að kanna sérstaklega nauðsyn eflingar atvinnulífs á Norðurlandi eystra og kosti þess að velja þar stóriðju stað, t. d. í grennd Akureyrar eða Húsavíkur, þá fæst slík till. ekki samþykkt, hún fæst ekki út úr nefnd, hún er svæfð í nefnd þó að hún sé þingmál nr. 11. Þó að hún sé lögð fram á öðrum degi þingsins, þá dugir allt þinghaldið ekki til þess, að slíkt mál komist úr nefnd, þó að það sé endurflutt og síflutt og þó að það sé stutt með ótal ályktunum af þingum Norðlendinga og ótal ályktunum bæjarstjórnar Akureyrar, margháttuðum eftirrekstri af þm. kjördæmisins, ótal upphrópunum og ítarlegum rökstuðningi, þá fæst það ekki út úr nefnd. Það er að vísu rétt, að það er í athugun í sambandi við trjákvoðuverksmiðju á Húsavík, hvort það kunni að reynast góður kostur. Þm. kjördæmisins voru kallaðir til af Húsvíkingum sérstaklega til að fylgjast með því máli og reka á eftir því. Hvernig hefur iðnrn. brugðist við? Hvernig hefur hæstv. iðnrh. hagað sér í þeim efnum? Seint og um síðir, tveim, þrem, fjórum mánuðum eftir að síðasta skýrsla kom, sem ég veit um, tókst okkur að fá hana í hendur, löngu eftir að Húsvíkingar höfðu fengið hana í hendur. Hvað höfum við fengið að frétta síðan? Ekkert. Hvernig standa málin nú? Um það vitum við ekki neitt. Hvernig hagaði ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar sér þegar unnið var að járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga? Ég man ekki betur en við hliðina á þeirri undirbúningsnefnd hefði starfað nefnd með fulltrúum allra þingflokkanna til að fylgjast með málinu. Nú dugir ekki til að sveitarfélagið, Húsvíkingar sjálfir, óski sérstaklega eftir að við fáum að fylgjast með, því er ekki ansað. Þó var það fyrir okkar milligöngu að haft var samband við iðnrn.

Það er raunar dapurlegt að hugsa til þess, að það skuli vera autt sæti þess manns í ríkisstj. sem þó ætti að hafa allan hug til þess, að hans gömlu félagar í Sjálfstfl. fengju að fylgjast með slíkum málum, ef hann vill veg flokksins mikinn um allt land, en ekki bara í kringum sjálfan sig. Þar fengum við ekki að fylgjast með.

Hvernig tekur Alþingi þessu viðhorfi hæstv. iðnrh., ef við lítum til þess? Við sjáum það á afgreiðslunni á kísilmálmverksmiðjunni nú. Menn vilja fá þingkjörna stjórn. Þingið vill fá að fylgjast með. Menn vilja ekki fá frumvörpin inn á borðin til sín í þinglok og afgreiða þau svo á færibandi. Menn vilja fá að fylgjast með gangi mála frá stigi til stigs til þess að geta sannfærst um að ítarleg könnun, nauðsynleg athugun, heiðarleg úttekt sé gerð á málunum, en á því vill verða mikill misbrestur, því miður. Í endaðan mars samþykkti bæjarráð Akureyrar svohljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta: „Bæjarráð Akureyrar lýsir stuðningi við virkjun Blöndu. Jafnframt vill bæjarráð vekja athygli stjórnvalda á að mikil nauðsyn er nýs átaks í iðnaðaruppbyggingu á Eyjafjarðarsvæðinu, og hvetur stjórnvöld til að vera vakandi yfir nýjum iðnaðarmöguleikum sem henta Eyjafjarðarsvæðinu.“

Síðan segir áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samtali við Sigurð J. Sigurðsson, bæjarráðsmann Sjálfstfl., sagði Sigurður að þessi samþykkt kæmi nú til vegna þess að svo virtist sem Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið kæmu ekki inn í myndina þegar rætt væri um næstu átök í uppbyggingu iðnaðar sem ríkisvaldið beitti sér fyrir. Það væri kunnara en frá þyrfti að segja, að ef ekki kæmu til ný atvinnutækifæri á Eyjafjarðarsvæðinu yrði ekki hægt að veita því fólki atvinnu sem kæmi inn á vinnumarkaðinn á næstu árum. Kæmi slík kyrrstaða upp í atvinnumálum á þessu svæði hefði hún mjög alvarlega byggðaröskun í för með sér. Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið væru eina landssvæðið sem gæti raunverulega eflst sem mótvægi við Reykjavíkursvæðið.

Sigurður sagði enn fremur að bæjarstjórn Akureyrar hefði gert ítrekaðar samþykktir í þessa sömu átt, en fátt hefði verið um undirtektir stjórnvalda. Í þessu sambandi væri vert að minnast samþykktar bæjarstjórnar Akureyrar frá 25. nóv. og 2. des. 1980, svars bæjarstjórnar Akureyrar til staðarvalsnefndar frá 3. febr. 1981, bókunar bæjarráðs frá 9. júní og fundar bæjarráðs Akureyrar með staðarvalsnefnd 15. júní á s. l. ári. Þá hefði verið framkvæmd atvinnumálakönnun á Akureyri að tilhlutan bæjarfulltrúa Sjálfstfl., sem staðfestir þá sömu staðreynd, að hér yrði um að ræða verulegan skort á atvinnu á allra næstu árum ef ekki kæmu til ný atvinnufyrirtæki. Bæjarstjórn Akureyrar hefur í tillögum sínum talið að næsta átak, sem ríkisvaldið beitir sér fyrir í uppbyggingu nýiðnaðar, ætti að vera á Eyjafjarðarsvæðinu.“

Síðan minnir bæjarfulltrúinn á Blönduvirkjun og ítrekar þann gamla draum Norðlendinga, að sú stórvirkjun mætti verða til langvarandi atvinnuuppbyggingar, að Norðlendingar stæðu ekki að lokinni byggingu þeirrar virkjunar uppi, eins og Sunnlendingar nú, með orkuver en engan iðnað, ekkert slíkt fyrirtæki.

Í till. til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu er talað um að hraða hagkvæmniathugunum. Nú er ég að tala um till. ríkisstj. Þar er talað um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, áliðju án staðsetningar, stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, að vísu trjákvoðuverksmiðju, það skal viðurkennt, og sjóefnaiðnað, svo sem natríumklóratvinnslu og magnesíumframleiðslu. Þetta hvort tveggja er bundið við Suðurnes.

Í grg. er síðan ítrekað hverjir iðnaðarkostirnir eru. Þar er talað um það sama á bls. 5 nema í sambandi við álver er talað um að á tímabilinu fram til 1987 væri einnig tæknilega unnt að auka álvinnslu við Straumsvík t. d. um 40 þús. tonn. Enn er talað um að halda áfram uppbyggingu stóriðju hér á þessu svæði í þessu samhengi, Eyjafjarðarsvæðinu sleppt. Á bls. 7 er talað um hagkvæmniathuganir á einstökum iðnaðarkostum, en þar er athugun komin lengst varðandi kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, auk athugana sem fram hafa farið vegna hugsanlegrar stækkunar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Enn er það ítrekað þarna, að Eyjafjarðarsvæðið hefur gleymst.

Á bls. 20 er plagg frá orkustefnunefnd. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Iðnaðarkostir sem gætu komið í gagnið fyrir 1987.“ Þar er um að ræða möguleika á kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, trjákvoðuverksmiðju, natríumklóratverksmiðju á Reykjanesi, auk möguleika á stækkun núverandi orkufreks iðnaðar. Þar er möguleikinn bundinn áfram við Grundartanga og álverið í Straumsvík, ekki eitt einasta orð enn um Norðurland nema í sambandi við trjákvoðuverksmiðju.

Þegar ræddir eru iðnaðarkostir orkustefnunefndar eru sérstakir kaflar um innlenda eldsneytisframleiðslu — ekki kemur hún á Norðurlandi — kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, um þriðja ofn járnblendiverksmiðju á Grundartanga er sérstakur kafli. Að vísu er nefnd trjákvoðuverksmiðja, hún er á Húsavík. Síðan er talað um natríumklóratverksmiðju, hún er á Reykjanesi. Síðan er talað um íslenska áliðju og til þess að ekkert fari milli mála væri kannske rétt að lesa þann kafla allan upp. Ég skal þó ekki gera það, en aðeins minna á að á bls. 36 er enn talað um stækkun álverksmiðjunnar. Og nú dugir ekki að tala um að hún stækki einu sinni, heldur er talað um að hún stækki tvisvar. Síðan er langt fimbulfamb um álver á öðrum stöðum, talað um að slík framkvæmd geti ekki orðið fyrr en á árinu 1990, en þess gætt vendilega að nefna engan stað, ræða ekki hugsanlegt álver í Eyjafirði, sem þó var sú dúsa sem stungið var upp í okkur Norðlendinga þegar áfangaskýrslan um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði var lögð fyrir okkur í maí 1981. Ekki einu einasta orði er eytt í Norðurland enn í þessu sambandi. Talað er um magnesíumverksmiðju á Reykjanesi. Síðan er talað um aðra kosti. Má þar nefna hugsanlega fjórða ofn járnblendiverksmiðju á Grundartanga, þriðja ofn kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði o. s. frv. Hvar er Eyjafjörður? Ekki orð. (Gripið fram í.) Ég veit allt um það. Þannig stendur þetta mál. Svo einfalt er það. Þetta á allt fram hjá okkur að fara, bæði öllu Norðvesturlandi eins og það leggur sig og Eyjafjarðarsvæðinu. Og þm. kjördæmisins fá ekki einu sinni að fylgjast með því sem er að gerast í sambandi við trjákvoðuverksmiðjuna á Húsavík. Þó að þar kynnu einhverjir iðnaðarkostir að vera fyrir hendi mundum við frétta um það seint og síðar meir eða kannske aldrei.

Það er eftirtektarvert í sambandi við þetta plagg, að þar er talað um að iðnrh. hafi skipað menn til að vera iðnrn. og ríkisstj. til ráðuneytis um mótun samræmdrar orkustefnu til langs tíma. Það vekur athygli auðvitað, að þar eru einungis fulltrúar frá þeim flokkum sem skipa núv. ríkisstj. — og svo frá horninu sem við misstum fyrir vangá út úr okkar flokki, en sumir a. m. k. vilja nú koma aftur. Síðan kemur hæstv. iðnrh. hér upp í stól og segir: Ég skal nú að lokum segja nokkur falleg orð. — Og síðan fer hann að tala um hvað hann sé afskaplega glaður yfir því, að alþm. skuli vinna saman að því að reyna að bæta hans frv. Hann virðist afskaplega undrandi og hissa á því, að venjulegir þm. í þessu húsi skuli yfirleitt fást til að tala efnislega um mál, sem miklu skipta, og skuli geta unnið saman. Þetta er í annað skipti nú í dag, held ég, sem hann flytur þessa undarlegu tölu. En honum dettur ekki í hug að draga af góðum vinnubrögðum Alþingis þann lærdóm að skilja það, að málin mundu vinnast miklu betur hér, árangur verða meiri og sannfæringin fyrir málalyktum sérstaklega meiri ef ekki væri reynt að feta og draga undan staðreyndir. Svo var t. d. gert í því máli sem andartak kom á dagskrá áðan í sambandi við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Í grg. með því frv. telur hæstv. iðnrh. tvö atriði sem hann segir að mestu valdi um það hversu mikill halli var á járnblendiverksmiðjunni á s. l. ári, en telur ekki það atriði sem Þjóðhagsstofnun leggur mest upp úr, sem var orkuskorturinn, að verksmiðjan gat ekki starfað við fulla framleiðslu vegna orkuskorts. Því sleppti hæstv. iðnrh. þar og skal ég ekki gera það að miklu máli nú. En ég ítreka það sem ég sagði áðan og þykist hafa fært full rök fyrir, að ekkert hefur komið upp úr pokanum um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hvernig hæstv. iðnrh. hyggst vinna að uppbyggingu nýiðnaðar um allt land.

Ég veit ekki hvort rétt er að rifja upp þær kenningar sem Valdimar Kristinsson hagfræðingur setti á sínum tíma fram um það, að hér yrði ekki heilbrigð byggðaþróun, jafnvægi gæti ekki haldist í byggðinni nema því aðeins að okkur tækist að koma upp byggðakjörnum víðs vegar um landið. Þessar umræður vöktu þó á sínum tíma svo mikla athygli að Valdimar var beðinn m. a. um að halda fyrirlestur um þessar hugmyndir á Austurlandi þar sem hann gerði skýra grein fyrir því, hvaða leiðir væru vænlegastar til að byggð þar gæti eflst. Ég held að ég muni það rétt, að hugmyndir hans hafi reynst svo lífvænlegar, að þær séu nú í stórum dráttum að komast í framkvæmd, bæði með eflingu Egilsstaðarkaupstaðar og einnig með því að stóriðjuver rísi við Reyðarfjörð.

En nú skulum við aðeins íhuga hvernig á því stendur, að við Norðlendingar leggjum svo mjög upp úr því, að einmitt Eyjafjarðarsvæðið verði fyrir valinu þegar nýjum orkufrekum iðnaði verður valinn staður. Skal ég í því sambandi vitna til grg. með þáttill. okkar hv. 2. þm. Norðurl. e., sem við höfum hamrað á ár eftir ár hér í þinginu, en góð vísa er sjaldan of oft kveðin. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Afar þýðingarmikil rök fyrir því að velja stórfyrirtækjum stað í grennd við öfluga þéttbýtisstaði felast í þeirri staðreynd, að einmitt þar hefur ný atvinnustarfsemi mest áhrif til eflingar annarra iðn- og þjónustugreina. Slíkt staðarval hefur því mest áhrif á byggðaþróun í landinu sem unnt er að ná með einni ákvörðun. Akureyri er sem kunnugt er stærsti þéttbýlisstaður utan höfuðborgarsvæðisins og þar er fyrir öflugastur iðnaður og þjónustugreinar á landsbyggðinni.

Áætla má að fyrirtæki, sem veitir 400 manns atvinnu, muni örva aðra atvinnustarfsemi í Eyjafirði þannig að um 600 ný atvinnutækifæri hlytust af staðarvali slíks stórfyrirtækisins til viðbótar. Þannig yrði fjöldi nýrra atvinnutækifæra 1000 og íbúafjölgun a. m. k. 3000 manns vegna staðarvalsins. Á hinn bóginn yrði íbúafjölgun minni og færri ný atvinnutækifæri sem hlytust af staðarvali slíks fyrirtækis í 1000 manna héraði, en félagslegar aðstæður allar gerbreytast þar sem hefðbundnar atvinnugreinar væru væntanlega einar til staðar í slíku byggðarlagi. Um framangreindar niðurstöður af þeim áhrifum, sem staðarval stórfyrirtækja hefur á atvinnu- og byggðaþróun, liggja fyrir reynsluathuganir, m. a. í Noregi.“

Þetta er kjarninn í okkar skoðunum, kjarninn í okkar byggðastefnu sem fluttum þessa þáltill. Við bendum á að með því að slíkt stórfyrirtæki risi á Akureyri mundi það vinda upp á sig, mundi skapa öðru fólki atvinnu heldur en alls staðar annars staðar utan þéttbýlissvæðisins hér í kringum Reykjavík. Við slægjum þess vegna tvær flugur í einu höggi. Ef hæstv. iðnrh. hefur aðra skoðun á þessu atriði, þá skora ég á hann hér og nú að gera grein fyrir þeim skoðunum sínum. Eftir því sem ég hef kynnt mér þessi mál hefur það ævinlega verið reynslan, að slík stórfyrirtæki njóta sín best þar sem þétt byggð er fyrir og þar sem öflugur þjónustuiðnaður er fyrir.

Ég veit satt að segja ekki hvort ástæða er til nú við 2. umr. að ræða þetta frekar. Ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. er reiðubúinn til þess hér og nú að gefa mér upplýsingar um það, hvernig unnist hefur og hvort nokkuð hafi yfirleitt verið gert í sambandi við þau áhugamál mín sem ég hef hér lýst. En hitt ætla ég að sé lágmarkskrafa þingmanns í stjórnarandstöðu þegar um er að ræða fyrirtæki sem ein geta skipt sköpum í því kjördæmi sem hann er fyrir, að honum gefist kostur á því að fylgjast stöðugt með þeim rannsóknum og athugunum sem fram fara á uppbyggingu slíks fyrirtækis. Þegar við hittumst þm. Norðurlands í sambandi við Blönduvirkjun fyrr á stjórnarferli þessarar ríkisstj. var það samdóma álit allra þeirra þm. Norðurlands sem að því viku, hvaða þýðingu Blanda gæti haft fyrir byggðaþróun á Norðurlandi, að það yrði ekki nema hálfur sigur unninn nema því yrði fylgt eftir í iðnþróun á Norðurlandi. Sumir gengu jafnvel svo langt að segja að betra væri að láta Blöndu bíða ef ekkert ætti að fylgja á eftir.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það hefur þýðingu, eins og á stendur og meðan sá maður skipar sæti hæstv. iðnrh. sem nú gerir það, að vera að hvetja til þess, að sú atvinnuuppbygging, sem ég hef hér aðallega gert að umræðuefni á Eyjafjarðarsvæðinu, geti orðið. Það var yfirlýst stefna Alþb. fyrir næstsíðustu kosningar og fyrir margar síðustu kosningar að engin stóriðja skyldi rísa við Eyjafjörð, enginn orkufrekur iðnaður skyldi rísa í þessu kjördæmi. Kjósendum var heitið þessu um allt kjördæmið. Ég get vel skilið það að hæstv. iðnrh. fari í þessu að vilja sinna flokksbræðra. En mér þætti þá hreinskilni ef það væri sagt umbúðalaust svo að það liggi fyrir. Þá vissum við það, þá hefðum við ekki neins að vænta og gætum hafið baráttu fyrir okkar lífshagsmunamálum á þeim grundvelli.

Það erum ekki bara við fyrir norðan, það eru þm. úr öllum kjördæmum hringinn í kringum landið sem vita að það er ömurlegt hlutskipti að vera þm. á því svæði þar sem lífskjörum hrakar meira en annars staðar á landinu, þar sem fyrirtækin eru að deyja, þar sem fólkið er að flytjast burt og þar sem unga fólkið sér enga framtíð. Það er ekki öfundsvert að vera þm. á slíkum stöðum, síður en svo. Það er m. a. þess vegna sem við Norðlendingar unnum Austfirðingum vel að þeir fái sterkt fyrirtæki sem getur hresst þá við. Og það er líka svo, að á milli Austfjarða og sérstaklega Norðurlands eystra hefur löngum verið góð samvinna á mörgum sviðum, á sviði verslunar, í menningarmálum, í samgöngumálum og í atvinnumálum yfirleitt. Það stendur því síst á okkur að reyna að bregða fæti fyrir að Austfirðingar hressist. En að hinu leytinu á ég kannske af þessum sökum erfiðara með að sætta mig við að þessi tillitssemi skuli ekki vera gagnkvæm. Ef maður rifjaði t. d. upp, hvað skyldu margir menn hafa unnið við húsgagnasmíði í verksmiðjunni Valbjörk fyrir 20 árum? 60–80 manns? Hvað skyldu margir menn á Akureyri vinna í dag við smíði húsgagna? Þá væru það bara í þessari einu verksmiðju 6–8. Það sagði við mig gamalreyndur húsgagnasmiður þar, sem sprakk á limminu, að nú væri svo komið á Akureyri að það væru einungis gamlir skarfar eins og hann sem kynnu til verka í húsgagnasmíði. Þessi iðnaður, sem vakti landsathygli, vörur þaðan voru svo eftirsóttar að Reykvíkingar fóru jafnvel norður til að kaupa sér húsgögn, — þessi iðnaður hefur algerlega gufað upp. Af hverju? Vegna þess að honum hafa verið búin þau skilyrði að hann stenst ekki samkeppni við innflutt húsgögn. Það var merkileg lífsreynsla að koma í nýja verslun Kaupfélags Langnesinga. Þeir voru búnir að fá fyrstu húsgagnasendinguna. Þar var ekki einn einasti stóll, ekki eitt einasta borð smíðað á Íslandi, hjá kaupfélaginu sjálfu, sem þó var til þess stofnað að fá atvinnuna, verslunina og iðnaðinn inn í landið og hefur notið margra skattfríðinda einmitt vegna þessarar hugsjónar sinnar.

Hvernig standa byggingarfyrirtækin? Maður er að rekast á iðnaðarmenn að norðan úr byggingariðnaðinum, sem hafa fengið vinnu á Reykjanesi eða Snæfellsnesi. Öðrum iðngreinum hefur hrakað með svipuðum hætti. Þó er það ekki vegna þess að þeir menn, sem við þessi fyrirtæki vinna, hafi ekki unnið jafnvel og lagt sig jafnmikið fram. Sú er ekki ástæðan. Þessir menn vinna nákvæmlega jafnvel og þykir nákvæmlega jafnvænt um sín fyrirtæki og áður. Þeir leggja sig alla fram. En fyrirtækin skila ekki arði. Það er mergurinn málsins. Þeir tapa og menn hafa ekki lengur efni á því að endurnýja sín framleiðslutæki, — þetta er sú sorgarsaga, hvað þá að nokkrum ungum manni detti í hug að hann hafi bolmagn til að ráðast í að stofna nýtt fyrirtæki. Við því er ekki að búast. Þannig er sú saga. Meira að segja eru uppi áætlanir um það í heilbrmrn. að standa ekki við þau loforð og við þær áætlanir sem gerðar voru þó um áframhaldandi uppbyggingu Fjórðungssjúkrahússins þar. Ég veit ekki betur en myndarlega hafi verið skorið af þeirri litlu sneið sem átti þó að fara til verkmenntaskólans. Hvað líður raðsmíði fiskiskipa? Hvernig er búið að skipaiðnaðinum? Skipaiðnaðurinn hefur þó verið það fyrirtæki fyrir norðan sem á móti flestu nýju fólki hefur tekið, myndarlegt stórt fyrirtæki. Hvernig er aðstaðan þar? Það er nú svo, að mönnum vefst kannske tunga um tönn þegar spurt er um raðsmíðina sem fyrir löngu átti að vera komin á, en í staðinn fyrir það eru fluttir inn fúnir ryðkláfar eins og Einar Benediktsson. Og það var þá smekkur með nafnið, að velja þessum ryðkláfi nafn þess manns sem hefur sýnt mestan stórhug og djörfung í sambandi við íslenskan iðnað, íslenska framleiðslu og allt sem íslenskt var.

Ég ítreka, herra forseti, að ég óska eftir því, að 3. umr. málsins geti ekki orðið fyrr en ég hef fengið nauðsynlegar upplýsingar um hverjar voru álitsgerðir staðarvalsnefndar í sambandi við það, að kísilmálmverksmiðju var valinn staður á Reyðarfirði, en ekki t. d. á Akureyri. Ég ítreka enn fremur: Þetta er ekki vegna þess að ég ætti að bregða fæti fyrir málið. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir til þess að við getum notað þær sem rök fyrir okkar máli þegar við viljum fá nýiðnað einnig hjá okkur. (Gripið fram í: Er þetta ekki í skýrslunni?) Það er ekki í skýrslunni, nei. (Forseti: 3. umr. fer fram á morgun.) Ég vænti þess, að forsetinn geti kannske greitt fyrir því, að málefnaleg umræða megi takast um mál hér í deildinni. Og í öðru lagi óska ég eftir því við hæstv. iðnrh., að hann láti mér í té þau gögn sem fyrir liggja hjá staðarvalsnefnd, greinargerð um þær athuganir sem þar hafa farið fram um stóriðjuna við Eyjafjörð. Og vænt þætti mér um ef hann léti þess jafnframt getið, t. d. hér í ræðustól, hvernig á því stendur að nafnið Eyjafjörður eða Akureyri hefur gersamlega dottið út úr hans pappírum á s. l. ári.