10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. stóð að lagabreytingu 1978 þegar samþykkt voru lög á Alþingi um frjálsa verðlagningu, þar sem frjálst verðlag var aðalatriði laganna, annað undantekningar. Framkvæmd var frestað haustið 1978 af þáv. viðskrh. Svavari Gestssyni. Árið 1979 voru sett lög, svokölluð Ólafslög, sem staðfestu þessa frestun. Í stjórnarsáttmála hæstv. núv. ríkisstj. er greint frá því, að verðbólga hér á landi eigi að vera jafnmikil á næsta ári og í helstu nágranna- og viðskiptalöndum þar sem verðlag er frjálst til þess að halda niðri verðlagi. Ráðh. hefur jafnframt sagt hér í ræðu á hv. Alþingi, við 1. umr. fjárl., að niðurtalningin eigi að halda áfram. Þetta er ekki brandari, heldur kom fram í ræðu hæstv. ráðh. Nú spyr ég hæstv. ráðh.: Hvenær má búast við að þau lög, sem hann stóð að því að samþykkja á hv. Alþingi, lög nr. 56 frá 1978; komist í fullt gildi? Hvenær má búast við að niðurtalningin verði búin að skila þeim árangri að hæstv. ráðh. telji að hægt sé að nota eðlileg verðlagslög og aðhald almennings til þess að halda verðlagi niðri, í stað þess að setja allt sitt traust á stofnanir sem með engum hætti geta komið í veg fyrir verðhækkanir, því að allir vita að á Íslandi er verðstöðvun og stöðugar verðhækkanir eitt og hið sama.