10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta fyrra svar mitt eða undirstrika örfá atriði. Það er þá í fyrsta lagi þetta, að Verðlagsstofnunin sem er að vísu allstór stofnun, en hefur mörgum verkefnum að sinna — ég hygg að það sé rétt hjá verðlagsstjóra, sem kom fram í svari mínu hér áður, að stofnunin hafi ekki svo miklu starfsliði á að skipa að hún geti annað eftirliti eins og æskilegast væri og verði þess vegna að velja nokkuð úr. Og þá er auðvitað eðlilegt að stofnunin velji úr að fylgjast með þeim vörum sem varða mestu um framfærslu heimilanna, eins og það var orðað í svari verðlagsstjóra.

Ég tek undir það sem hefur komið fram hér í ræðum manna, að það má áreiðanlega nefna dæmi um misnotkun í þessum efnum. Verðlagsstjóra var kunnugt um það, enda segir hann í sínu svari, að Verðlagsstofnun hafi gripið inn í þetta að vissu marki, og segir í framhaldi af því: „Verðlagsyfirvöld hafa ekki til þessa talið ástæðu til að grípa að marki inn í verðmyndun þessara vara, en munu fylgjast náið með þróun mála og gera viðeigandi ráðstafanir verði vandamálið stærra en það er nú.“

Það er alveg sýnilegt, að Verðlagsstofnun telur vandamálið ekki vera eins stórt og ýmsir aðrir vilja vera láta. Skal ég ekki leggja neinn fullnaðardóm á það. En það er áreiðanlegt, að þetta hefur verið til, enda er það löngum svo að menn teygja sig í þessum efnum sumir hverjir eins langt og þeir frekast geta og sumir lengra. Þarf ekki að hafa um það langt mál.

En varðandi myntbreytinguna sem slíka, þá man ég ekki betur en Alþfl. stæði að samþykkt um myntbreytinguna þegar við vorum saman í ríkisstj. Mig minnir það vera. Hitt er annað mál, að Alþfl. var ekki í ríkisstj., þegar myntbreytingin var framkvæmd, og hefði e. t. v. viljað haga málum á annan veg en gert var. Það er annað mál.

Varðandi almenna stefnu í verðlagsmálum hef ég margsinnis látið koma fram þá skoðun, að heilbrigð samkeppni milli samvinnuverslunar og einkaverslunar og innbyrðis milli þessara aðila sé langlíklegasta leiðin til að stuðla að lágu vöruverði. En ég álít að til viðbótar þurfi að koma virkt verðtagseftirlit öflugt verðlagseftirlit og virk neytendasamtök. Ég játa að í verðbólgu, sem er 40% og þaðan af hærri, nýtur samkeppni sín náttúrlega engan veginn eins og hún mundi gera ef verðlag væri stöðugra. Og ég verð að segja það, að með tilliti til þess dreg ég mjög í efa að hyggilegt væri að setja á fullt frelsi í þessum málum fyrr en tekist hefur að berja verðbólguna talsvert verulega niður frá því sem nú er. Það kann að virðast í þessu viss mótsögn, en þó ekki, vegna þess að ég hef í raun og veru ekki heyrt menn halda fram þeirri skoðun, að samkeppni á þessum vettvangi njóti sín til fulls ef mikil verðbólga er í landinu, að ég ekki tali um eins og hefur verið hjá okkur á undanförnum árum, 40–60%.