05.05.1982
Neðri deild: 85. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4673 í B-deild Alþingistíðinda. (4501)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þar sem hér er nú hafin nokkur umr. þm. úr Norðurl. e. vegna kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði held ég að ég verði að leggja nokkur orð í belg.

Ég vil segja það, að ég tek undir með hv. þm. Halldóri Blöndal um að ég óttast mjög það atvinnuástand sem nú er að skapast í Norðurl. e. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni Norðurl. v. vegna þess að þar hefur atvinnuástand jafnvel verið lakara en í eystra kjördæminu og mikil þörf á að bæta þar úr.

Það er líka önnur staðreynd, sem menn skyldu gera sér fyllilega grein fyrir, að Norðurl. e. hefur samkvæmt skattskýrslum verið með launalægstu svæðum á Íslandi um nokkurra ára skeið. Sjálfur hef ég orðað það svo, að t. d. Akureyri væri eiginlegt láglaunasvæði vegna samsetningar á vinnuaflinu þar, þ. e. hversu margir vinna þar að iðnaði, eins og t. d. í SÍS-verksmiðjunum, og við önnur störf sem eru heldur lágt launuð á almennan mælikvarða. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu í þessum umr. og þessu fári, sem hefur gengið yfir þingið síðustu daga í sambandi við stóriðju, þar sem Alþb. hefur nú mér til nokkurrar undrunar gengið flokka harðast fram í stóriðjumálum, að benda á aðstöðu Norðurl. e. í öllu því stríði sem er háð. Það er ekki á borðinu, það er ekki borðleggjandi að í þessu kjördæmi verði gert neitt umtalsvert átak í iðnaðarmálum. Að vísu er verið að undirbúa pappírsverksmiðju á Húsavík. — Undirbúa, segi ég. Það er verið að gera frumathuganir á hagkvæmni hennar.

Ég vil líka í þessu sambandi benda hv. þm. og ekki hvað síst hæstv. iðnrh. á athugun sem Framkvæmdastofnun hefur látið gera á ástandi þessara mála á Norðurlandi. Þar er fyrirsjáanlegt að fólki mun á næstu árum fækka til muna í landbúnaði. Landbúnaður hefur verið ein undirstöðuatvinnugreinin í þessu kjördæmi og talið er samkv. endurskoðaðri mannaflaspá orkuspárnefndar um mannafla í íslenskum atvinnuvegum að á öllu landinu muni fækka í þeirri grein á árabilinu 1980–2000 úr 7800 í 5500. Þetta er sérstaklega alvarlegt mál fyrir kjördæmi eins og Norðurl. e. Það er líka gert ráð fyrir að engin mannaflaaukning verði í fiskveiðum á þessu árabili, fremur fækkun úr 5100 1980 í 5000 árið 2000. Í fiskiðnaðinum er ekki heldur gert ráð fyrir mannaflaaukningu. Þar kemur vinnuaflshópurinn til með að standa gersamlega í stað. Þá er gert ráð fyrir nokkurri aukningu í byggingarstarfsemi, en mikilli aukningu í iðnaði að vísu. Þetta er sá vaxtarbroddur sem menn ræða gjarnan um í skálaræðum að þeir vilji gera mikið fyrir og efla iðnaðinn. Ég er ekki frá því, að okkur þm. Norðurl. e. þyki við vera nokkuð aftarlega á merinni í þeirri iðnaðarumræðu eða því stóriðnaðarfári sem nú gengur yfir hið háa Alþingi.

Það er kannske rétt, með leyfi forseta, að ég fái að lesa nokkur orð úr skýrslu Framkvæmdastofnunar, sem er hin merkasta, um þetta mál, en þar segir m. a.:

„Fyrirsjáanleg er fækkun starfandi fólks í landbúnaði á allra næstu árum. Þá er ekki raunhæft vegna slæms ástands fiskstofna og líklegrar framleiðniaukningar í fiskiðnaði að gera ráð fyrir að nema lítill hluti nýliða á vinnumarkaði fái atvinnu í sjávarútvegi. Samtals er því vart hægt að gera ráð fyrir nýjum störfum sem neinu nemur í þessum tveimur atvinnugreinum, landbúnaði og sjávarútvegi. Á þetta ber að líta sem alvarlegt vandamál í uppbyggingu atvinnulífs á Norðurlandi á næstu árum, því að árið 1977 voru 38.3% vinnuafls þar í landbúnaði og sjávarútvegi.

Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gert mannaflaspá fyrir árið 1983 og skal hér gerð grein fyrir spánni hvað. Norðurland snertir. Spáin er byggð á eftirtöldum forsendum um þróun einstakra atvinnugreina:

1. Landbúnaður. Sama þróun verður áfram og var á Norðurlandi 1972–1977.

2. Fiskveiðar standa í stað á Norðurlandi frá 1977.

3. Fiskvinnsla. 1000 ný störf myndast á öllu landinu frá 1977–1983. Þau skiptast hlutfallslega jafnt á alla landshluta eftir mannafla í fiskvinnslu í hverjum landshluta.

4. Byggingarstarfsemi. 1000 ný störf myndast frá 1977–1983. Þau skiptast hlutfallslega jafnt á alla landshluta eftir mannafla í byggingarstarfsemi í hverjum landshluta.

5. Þjónustugreinar. Í spánni er reiknað með því að þjónustugreinar taki til sín sama hlutfall mannafla og þær gerðu á Norðurlandi frá 1972–1977 eða 43.1%. Það gæti hins vegar verið markmið Norðlendinga að þjónustugreinar taki til sín áfram það hlutfall af nýjum störfum sem þær gerðu að meðaltali fyrir allt landið frá 1972–1977 eða 66.6%.

6. Spá um mannfjölda á starfsaldrinum 15–74 ára árið 1983 gerir ráð fyrir því, að sama munstur flutninga innanlands og gagnvart útlöndum verði áfram eins og verið hefur undanfarin ár. Reiknað er með að atvinnuþátttaka fólks á starfsaldri 15–74 ára verði orðin 67% árið 1983, en hún var 65% á Norðurlandi vestra árið 1977 og 65.7% á Norðurlandi eystra árið 1977.“

Síðan er þetta mál rakið mjög ítarlega í þessari skýrslu og niðurstöðurnar eru einkum þessar, með leyfi forseta: „Ef ekki kemur til sérstakt átak til eflingar iðnþróun mun iðnaður ekki geta orðið sá vaxtarbroddur framleiðsluatvinnuvega sem þarf til þess að öllum nýliðum á vinnumarkaði svæðisins, þ. e. Norðurlandi, gefist kostur á atvinnu heima fyrir. Margar aðrar ástæður benda til þess, að sérstakt átak þurfi til eflingar iðnþróun á Norðurlandi“ — og lýkur þar með þessu áliti.

Það væri nú kannske vert að beina nokkrum spurningum til hæstv, iðnrh. í sambandi við það, hvers Norðlendingar mega vænta á allra næstu árum og hvort þeir megi eiga von á því að fá einhverja sneið af þeirri köku sem menn hafa verið að skipta hér á hinu háa Alþingi síðustu daga, kannske meira af kappi en forsjá. Ég tel að áminning og ábending hv. þm. Halldórs Blöndals eigi fullkominn rétt á sér, sérstaklega vegna þess að það svæði, sem hér um ræðir, hefur orðið fyrir mjög alvarlegum áföllum í atvinnulegu tilliti á undanförnum árum og hvergi nærri fengið í sinn hlut það sem hrotið hefur af borði þeirra yfirvalda sem með þessi mál fara. Það er líka annar þáttur þessa máls, sem ég hef mjög umtalsverðar áhyggjur af, og það er það vonleysi sem ég verð var við að er farið að grípa um sig meðal ungs fólks í þessu kjördæmi. Ég óttast það mjög alvarlega, að ef ekki fer a. m. k. að leiftra fyrir einhverjum nýjum áformum í sambandi við iðnþróun í Norðurl. e. innan tíðar megum við búast við því, að það komi mikið rót á ungt fólk sem þarna er nú að alast upp til þess að fara út á vinnumarkað, stofna heimili og koma sér fyrir í þessum landshluta. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, að menn hafi um allt of langan tíma smíðað eins konar pótemkintjöld í atvinnulegu tilliti fyrir Norðurl. e. Ég held — og ég held ekki, ég veit að menn hafa lagt allt of mikið upp úr því og talið það öryggi, sem ég segi að hafi verið falskt öryggi, sem hefur falist í framkvæmdum t. d. SÍS-verksmiðjanna á Akureyri, sem nú standa mjög höllum fæti, bæði vegna verðlagsþróunar og annarra þátta. Það er alveg fyrirsjáanlegt, ef ekki verður gripið í taumana mjög fljótlega, að það getur orðið þarna mjög alvarleg atvinnuþróun eða neikvæð atvinnuþróun, sem ég kalla svo, og að það unga fólk, sem nú er að vaxa upp, sjái í raun og veru sáralitla framtíð í því að búa áfram í þessu kjördæmi. Þetta og sú staðreynd, að t. d. Akureyri er láglaunasvæði, eins og ég hef tekið hér fram, veldur því, að áhyggjur mínar vaxa til muna og kannske einkum og sér í lagi með tilliti til þess, að ég hef ekki heyrt hreyft neinum hugmyndum eða tillögum, nema í formi lausafrétta af hugsanlegri álverksmiðju við Eyjafjörð, um hvað gera skuli í þessu kjördæmi í iðnaðarlegu tilliti. Ég skal að vísu játa að það hefur verið unnið vel í sambandi við væntanlega pappírsverksmiðju á Húsavík, en hún dugar ekki þéttbýlissvæðinu við Eyjafjörð. Mér býður í grun að ef við höfum ekki manndóm til að reyna að efla atvinnulíf í þessu kjördæmi geti verið fram undan mjög erfiður tími og erfitt tímabil sem muni hafa alvarlegri áhrif á hagi þessa kjördæmis en menn geta látið sér detta í hug á þessari stundu.

Herra forseti. Ég skal nú ekki halda uppi neinu málþófi, enda var það ekki ætlun mín. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt að þessi sjónarmið mín kæmu hér fram vegna ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, sem var alveg hárrétt og fyllilega tímabær, og læt þessu lokið.