05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4714 í B-deild Alþingistíðinda. (4543)

145. mál, málefni fatlaðra

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Eins og auðvitað er er það mjög umhendis, eins og högum hv. deildar er komið, að taka upp umr. utan dagskrár, enda miklu heppilegra eins og hv. 1. þm. Reykv. gat um, ef á annað borð standa til umr. um sama efni í hv. Ed., að hafa þá fund um þetta í Sþ. Ég skal fyrir mitt leyti hafa samráð við hæstv. forseta Sþ. og Ed. og beita mér fyrir því, að slíkur fundur komist á. En mundi ég þá ekki mega biðja hv. 1. þm. Reykv., formann Sjálfstfl., að ræða það við formann Alþfl., hv. 2. þm. Reykn., að hann ræddi það þá við forseta Ed. að hann félli frá beiðni um utandagskrárumr. þar, ef líkur eru á að þetta á annað borð kæmist fram? Ég mundi þá fyrir mitt leyti óska eftir að menn sýndu mér tillit líka og greiddu fyrir málum sem er sem mest að vinna við hér.