11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að því miður gerði hæstv. fjmrh. sig sekan um að tala hér eins og ólesinn skólastrákur um eigið mál, eins og ég sagði úr sæti mínu áðan. Hæstv. viðskrh. svaraði raunar þessum makalausa málflutningi hæstv. fjmrh., því að hann sagði að það væri alvarlegt mál að erlendar lántökur ykjust á sama tíma sem gert væri ráð fyrir minni fjárfestingu en í fyrra. Það var kjarni minnar gagnrýni. Ég sagði það, það má lesa það, og ég vil biðja hæstv. fjmrh. að lesa töflu á bls. 22 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Þar kemur fram að hitaveituframkvæmdir dragast saman um 31% að magni til og orkuframkvæmdir og stóriðjuframkvæmdir um 43.5%. Þetta er skýringin á því, að gert er ráð fyrir minni fjárfestingu samkv. þessari áætlun á árinu 1982 heldur en í ár. Samt sem áður er um verulega auknar erlendar lántökur að ræða, og þetta sagði hæstv. viðskrh. að væri alvarlegt mál. Ég er honum sammála. Þetta var kjarni minnar gagnrýni.

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að það er ekki meginskýringin á því, að heildarskuldabyrði erlendra lána verður hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu á árinu 1982 en áður, að greiðslubyrði af erlendum lánum verður meiri, — hún var 13% 1968, ef ég man rétt, eða eitthvað í kringum það, en verður 17–18%, — það er ekki meginskýringin að vextir hafi hækkað svo mjög eins og hann sagði. Meginskýringin er sú, að erlendar lántökur hafa verið gífurlegar á undanförnum árum, og nú skal ég lesa upp hvernig þetta hefur gengið fyrir sig í A- og B-hluta fjárlaga síðan hæstv. ráðh. tók við ráðherradómi.

Árið 1978 voru erlendar lántökur til A- og B-hluta 48.6 millj. nýkr., árið 1979 56, árið 1980 213 millj. nýkr., árið 1981 283 og samkv. þessari áætlun, sem hér liggur fyrir, verða þær 695 millj. nýkr. í ár.

Ef við drögum frá þá tölu sem hæstv. ráðh. vill endilega draga frá í ár, þ. e. lántöku til nýrrar stórvirkjunar, er samt um að ræða 635 millj. nýkr. sem ætlunin er að taka af erlendum lánum til A- og B-hluta ríkissjóðs. Þetta er tíföldun í krónum talið síðan hæstv. ráðh. tók við ráðherradómi. Svo talar hæstv. ráðh. hér digurbarkalega og segir, að ríkissjóður taki ekki nein erlend lán. (Fjmrh: Ekki ríkissjóður í A-hluta.) Þetta eru tölur sem hæstv. ráðh. getur flett upp í fjárl. frá því 1978 og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Lántökur voru þessar: 1978 48 millj. nýkr., eru núna 695. Ef við drögum 60 frá því kemur 635 út. Það er 125% hækkun frá því í fyrra, en tíföldun frá því að hæstv. ráðh. tók við ráðherradómi. Svo illa hefur okkar efnahagsmálum ekki verið stjórnað að verðlag hafi tífaldast á aðeins þremur árum.

Ég vil taka undir það með hæstv. viðskrh., að hér er um stóralvarlega hluti að ræða, og það var það sem var kjarni minnar gagnrýni. Og ég vil benda hæstv. viðskrh. á það, að meginskýtingin á því, að gert er ráð fyrir minni fjárfestingu á næsta ári heldur en á árinu í ár, er sú, að orku- og hitaveituframkvæmdir og stóriðjuframkvæmdir dragast eins hrikalega saman og ég nefndi áður. En á sama tíma heldur þessi þróun áfram í erlendum lántökum. Hæstv. fjmrh. las hér upp sjálfur að minni ósk, að áætlað er að löng erlend lán muni í árslok 1981 neina 7 milljörðum 285 millj. kr. á meðalgengi ársins eða nálægt 36% af vergri þjóðarframleiðslu ársins. Að meðtalinni aukningu á árinu 1982 er áætlað að hlutfallið verði rúmlega 37%. Meginskýringin á þessu, hæstv. ráðh., er ekki sú, að vextir séu hærri, enda sé ég ekki muninn á því, hvort um það er að ræða eða ekki, vegna þess að það er einmitt hætta af þeim sökum að vextir hækki gífurlega eða áð afli bresti eða einhver slík áföll hendi. Það er meginvandinn vegna greiðslubyrði þjóðarbúsins. Ef við getum gert ráð fyrir að allt sé í lagi, þá er þetta kannske ekki mikil skuldabyrði. Og ef við gerum ráð fyrir að við séum að framkvæma fyrir þetta fé eitthvað sem sé til þess að laga okkar stöðu, auka tekjur þjóðarbúsins, auka möguleika þess til að standa undir erlendum lánum, þá er um allt annað að ræða. En það er þessi hætta, að t. d. vextir rjúki upp og greiðslubyrðin aukist af þeim sökum eða að afli bresti og okkar útflutningstekjur minnki og möguleikar okkar til þess að standa undir slíkum lántökum minnki, — það er einmitt þessi hætta sem er kjarni málsins þegar verið er að ræða um greiðslubyrði erlendra lána.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. En hæstv. ráðh. talaði um að það stæði upp úr okkur sjálfstæðismönnum eilíflega að það væri verið að auka ríkisumsvifin. Hæstv. ráðh hefur reiknað það af sinni alkunnu reikningslist, að þau séu ekki neina um 28% af þjóðarframleiðslu í ár eins og í fyrra. En í frv. hæstv. ráðh. stendur að rekstrarliðir ríkissjóðs hækki um 44.5% á sama tíma sem gert er ráð fyrir að verðlag hækki um 33% og framkvæmdaframlög ríkissjóðs hækki ekki neina um 32%, af því að hæstv. ráðh. er alltaf að taka af framkvæmdaframlögum ríkissjóðs, verja því fé í að þenja út ríkisútgjöldin, en taka svo lán til fjárfestingarsjóða utan við kerfið, utan við A- og B-hlutann. Þetta er það sem hæstv. ráðh. er að gera. Hann er að leika hér reikningskúnstir, en ekki ég.