16.11.1981
Efri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hér er fylgt úr hlaði frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 frá 21. júní 1973, um Hæstarétt Íslands. Í stjórnarsáttmálanum frá 8. febr. 1980 segir svo um dómsmál, með leyfi forseta:

„Unnið verði að umbótum í dómsmálum og stuðlað að hraðari meðferð dómsmála, með því m. a. að einfalda meðferð minni háttar mála.“

Ég tel að nokkuð hafi áunnist í þessu efni, m. a. með löggjöf sem afgreidd var á síðasta þingi. Enn þá á þó alllangt í land að meðferð dómsmála sé nægjanlega greið. Hins er að geta, að þetta er alls staðar sama vandamálið. Á fundi dómsmálaráðherra Evrópu, sem haldinn var í Sviss í septembermánuði s. l., var þetta annað aðalmálið, hvernig hraða mætti meðferð venjulegra dómsmála.

Frv. þetta er samið af dómurum Hæstaréttar eftir viðræður við dómsmrh.

Fjöldi mála, sem skotið er til Hæstaréttar, hefur verið þessi síðustu árin: árið 1974 223, 1975 185, 1976 244, 1977 240, 1978 224, 1979 221 og 1980 250. Á hinn bóginn eru dæmd mál alls á þessum árum sem hér segir: 1974 127, 1975 141, 1976 141, 1977 159, 1978 171, 1979 167 og 1980 168. Af mismun þessara talna má sjá að stöðugt fjölgar þeim málum sem bíða dóms, og má segja að í algert óefni stefni ef ekki verður gripið til einhverra ráða. Það gefur e. t. v. einna gleggsta mynd af ástandinu að athuga hversu mikið af þeim málum hefur fjölgað síðustu árin sem eru tilbúin til málflutnings. Segja má að stöðugt hafi sá hali lengst. Sá háttur er á hafður í Hæstarétti, að opinber mál eru að jafnaði látin hafa forgang og dæmd án verulegs dráttar eftir að þau eru tilbúin til flutnings. Ef þeirri reglu er haldið má ljóst vera að þeim einkamálum, sem nú bíða flutnings, verður ekki lokið fyrr en á árinu 1983 við óbreyttar aðstæður. Þetta er auðvitað allsendis óviðunandi. Fljót afgreiðsla dómsmála er höfuðnauðsyn í hverju réttarríki, en jafnframt verður að gæta hins fyllsta réttaröryggis. Ber því mikla nauðsyn til að bæta starfsaðstöðu Hæstaréttar til þess að hann geti með skjótum og öruggum hætti leyst úr þeim mikla málafjölda sem þangað berst. Og það má auðvitað segja að ýmsar leiðir komi til álita til að ná þessu marki.

Svo sem kunnugt er hefur á undanförnum árum nokkrum sinnum verið lagt fyrir Alþingi frv. til l. um lögréttu en ekki fengið afgreiðslu. Í því frv. er gert ráð fyrir millidómstigi milli héraðsdóms og Hæstaréttar, sem yrði áfrýjunardómstóll í þeim málum, þ. á m. kærumálum, sem héraðsdómur dæmdi á fyrsta dómstigi, og kvæði þar upp endanlegan dóm, en fyrsta dómstig í stærri málum sem síðan mætti þá áfrýja til Hæstaréttar. Með stofnun slíks dómstóls yrði létt miklu álagi af Hæstarétti. Engu að síður er nauðsynlegt að leysa úr þeim vanda sem nú er við að glíma vegna hins mikla fjölda óafgreiddra mála.

Með þessu frv. er lagt til að dómendum Hæstaréttar verði fjölgað úr sjö í átta. Með því móti gæti dómurinn starfað í tveim deildum í senn: sem þriggja manna dómur, er dæmdi kærumál og minni háttar ágreiningsmál, og fimm manna dómur, sem dæmdi meiri háttar mál. Má segja að á þetta hafi verið bent fyrir nokkrum árum þegar síðasta breyting var gerð á lögum um Hæstarétt.

Þá er lagt til að Hæstiréttur fái að ráða sérfróða menn dóminum til aðstoðar eins og tíðkast viðast hvar annars staðar á Norðurlöndum. Þeir yrðu að sjálfsögðu að vera lögfræðingar. Slíkt mundi mjög auðvelda störf dómaranna og auka vinnuafköst þeirra. Sem stendur eru engir slíkir sérfróðir aðstoðarmenn við réttinn. Þá er lagt til að lögleidd verði heimild til bráðabirgða til að setja 2–3 varadómara allt að sex mánuðum hvort ár árin 1982 og 1983. Mundi þá Hæstiréttur getað starfað í tveim fimm dómara deildum þann tíma. Svipað fyrirkomulag og þetta hefur tíðkast um nokkurn tíma í Finnlandi og var einnig í gildi í Noregi um skeið eftir stríðið. Rétt er að benda á að þessari heimild er aðeins ætlað að gilda í tvö ár, þ. e. í takmarkaðan tíma. Að þeim tíma liðnum verður að taka málið til athugunar á ný.

Ég hygg að sú leið, sem hér er valin til að leysa hinn bráða vanda sem blasir við Hæstarétti, kunni að vera eitthvað umdeild. Við höfum séð það í greinum, sem birst hafa í blöðum undanfarið, svo sem greininni „Ísberg og lögréttan“ og öðrum slíkum sem fjallað hafa um þetta efni. Mér er einnig kunnugt um að einhverjir hv. alþm. úr stjórnarflokkunum eru ekki á eitt sáttir um þá leið sem valin hefur verið hér.

Með þessu frv. er enginn dómur í sjálfu sér lagður á lögréttufrv. Það hefur legið fyrir nokkrum þingum, en ekki vakið sérstaka athygli hv. alþm. En á hitt er að líta, að það verður lagt til hliðar nú um sinn. Hver er tilgangur lögréttufrv.? Hann er einmitt sá sem hér er leitast við að ná þótt eftir nokkuð annarri leið sé farið. Markmið tillagna réttarfarsnefndar, sem samdi frv. um lögréttu, var tvenns konar: í fyrsta lagi hraðari meðferð dómsmála, í öðru lagi meiri aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdavalds. Ég er alls ekki að segja að með því frv., sem ég hef leyft mér að leggja fram nú um breytingu á hæstaréttarlögunum, sé verið að kasta frv. til lögréttulaga fyrir róða. En ég tel rétt að það verði athugað nánar. E. t. v. kemur það fram í breyttri mynd í fyllingu tímans, þegar þar að kemur.

Ég þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta frv. Ég vil þó taka eitt fram, að ég óska eftir því við hv. þingnefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að hún hraði meðferð þess, því að að því verður að stefna, ef frv. á að ná þeim tilgangi sem því er ætlað, að það nái lögfestingu fyrir áramót.

Ég hef svo ekki fleiri orð um frv. en óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.