16.11.1981
Efri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala hér aftur, en það var hluti af ræðu hv. þm. Finns Torfa Stefánssonar sem gerði það að verkum að ég tek hér til máls.

Ég ætla að vona að lögfræðimenntunin í Háskólanum og starfshættirnir hjá embættismönnunum í dómsmrn. séu ekki á þann hátt sem kom fram í hans ræðu, að menn kunni ekki að gera greinarmun á því, sem hv. ræðumaður kallaði dylgjur, og því, sem ég nefndi sem staðreyndir. Ég sagði að það væri staðreynd, að margir dómarar Hæstaréttar gegndu fjölmörgum öðrum störfum utan réttarins. Ég taldi nauðsynlegt að kanna það, áður en menn færu að fjölga í Hæstarétti, hvort ekki væri réttara að fara þá leið að draga úr þessum aukastörfum. Ég tók jafnframt fram að mörg af þessum störfum væru sjálfsagt nauðsynleg í okkar þjóðfélagi. En það þarf ekki endilega að vera nauðsynlegt að dómarar Hæstaréttar gegni þessum störfum. Þetta voru engar dylgjur um eitt eða neitt, hvað þá að af þessu megi draga þá ályktun, að það eigi að flytja hér á Alþingi tillögur um að viðkomandi einstaklingar verði settir af sem hæstaréttardómarar.

Ég skil satt að segja ekki svona málflutning. Það var einfaldlega verið að víkja að því, að viðgengist hefur um langa hríð að hæstaréttardómarar semdu frv. Það hefur viðgengist lengi að dómararnir sitji í ýmsum dómstólum hérlendis og erlendis og þeir starfi í ýmsum nefndum og ráðum og stjórnum, bæði hérlendis og erlendis. Ég hef óskað eftir því við hæstv. dómsmrh., og hann getur vonandi látið embættismanninn í rn., Finn Torfa Stefánsson, vinna það verk, að tekin yrði saman skýrsla um þessi störf. Ég lét í ljós þá skoðun, að ég hefði ekki handbært hvað þau væru mikil eða margbrotin, nefndi þó ýmis dæmi í ræðu minni þeirri skoðun til staðfestingar að þarna mætti nefna ýmislegt, en það væri nauðsynlegt að Alþingi fengi um þetta heildarskrá til að geta metið hve ríkulega hæstaréttardómarar væru notaðir til ýmissa annarra verka.

Ég mótmæli því algerlega, að þetta séu einhverjar dylgjur um, að hæstaréttardómarar séu að svíkjast um í sínu starfi, og þetta sé tilefni til þess að flytja hér tillögur um að þeir verði látnir víkja úr dómnum. Ég endurtek að ég skil hreinlega ekki svona málflutning. Það vita allir sem vilja vita, að í okkar þjóðfélagi hefur viðgengist um langan tíma að hlaðið er á ýmsa menn alls konar störfum sem fyrr eða síðar leiða til þess, að eitthvað lætur undan. Það er hugsanlegt að það, sem hefur látið undan í þessu efni, sé einbeiting hæstaréttardómaranna að störfum við réttinn.

Það var hér áður fyrr að bankastjórar gegndu ýmsum störfum meðfram setu í stólum bankastjóra. M. a. sátu þeir hér á Alþingi. Smátt og smátt var horfið frá þessu kerfi vegna þess að menn sáu að menn gátu einfaldlega ekki sinnt þessum störfum. Áður fyrr voru margir háskólakennarar sem sátu hér á Alþingi. Mín fyrstu þing hér á Alþingi kenndi ég með þingmennskunni vegna þess að það var ekki hægt að fá neinn annan einstakling til að sinna þeirri kennslu. Að þeirri reynslu fenginni get ég fullyrt að það getur enginn maður að mínum dómi með góðu móti sinnt hvoru tveggja. Annaðhvort lætur þá undan: þingmennskan eða störfin við Háskólann. Þess vegna óskaði ég eftir leyfi frá störfum við Háskólann í upphafi þessa árs. Svona gæti ég nefnt fjölmörg dæmi: úr bankakerfi frá Alþingi og á öðrum vettvangi í þjóðfélagi okkar. Reynslan hefur sýnt okkur að þetta gamla íslenska kerfi, að sömu mennirnir séu að vasast í öllu, sé úrelt. Ég get nefnt hér eitt dæmi frá upphafi aldarinnar, fyrsta áratug aldarinnar, þegar sami maðurinn var dómsforseti í þáverandi hæstarétti eða landsyfirrétti, — sami maðurinn var dómsforseti þar, sem jafngilti forseta Hæstaréttar nú, sat hér á Alþingi einnig og var um leið bankastjóri Íslandsbanka. Það tíðkaðist hér í upphafi aldarinnar. Sami maðurinn var samtímis bankastjóri stærsta þjóðbankans, dómsforseti í hæstarétti og alþm. Það mundi engum detta í hug núna. Ábendingar mínar voru einfaldlega í þá veru, að það væri kannske nauðsynlegt að fara að skoða þetta kerfi. Þess vegna óskaði ég eftir því, að þessi skrá væri lögð fram. Það voru engar dylgjur. Það var einföld ósk um upplýsingar í ljósi þeirra staðreynda sem ég lagði hér á borðið um þau aukastörf, sem vitað er að hæstaréttardómarar gegna, og ábending til Alþingis. Þegar þessi skrá lægi fyrir mundi Alþingi taka til skoðunar hvort þessi aukastörf hæstaréttardómara væru orðin svo mikil að þau kynnu að vera ein af skýringunum á því, hvers vegna seinagangur hefur orðið í meðferð mála.

Ég vil svo einnig ítreka það sem ég sagði áðan, að ég held að reynslan sýni að þegar aðstoðarmenn eru teknir til starfa við dómstól, — ég tala nú ekki um ef aðaldómararnir halda áfram að sinna ýmsum aukastörfum á öðrum vettvangi í þjóðfélaginu en við dóminn sjálfan, — eru vaxandi líkur á að hin raunverulega vinna við dómstólinn verði í höndum aðstoðarmannanna. Ég tel nauðsynlegt að það séu settar nánari reglur en gert er í þessu frv. um embættisgengi þessara aðstoðarmanna, hvaða menntunar- og starfshæfileika þeir þurfi að hafa. Í öðru lagi tel ég nauðsynlegt að þeir séu valdir á óhlutdrægan hátt, menn geti sótt um þau störf með opnum hætti líkt og menn geta sótt um sýslumannsstörf, sótt um dómarastörf og annað, og það gangi jafnvel hæfnidómar, það verði ákveðnar dómnefndir sem meti þá einstaklinga, sem til þessara starfa koma, og það verði ákveðnar tímareglur um hve lengi þeir geti gegnt þessum störfum. Allt slíkt tel ég að sé nauðsynlegt til að þessi mikilvægu störf fái þann styrkleika sem nauðsynlegt er ef þau eiga að koma að notum.

Ég held að reynslan sýni okkar það og allir hv. alþm. þekki það af eigin reynd, að vald embættismanna hér við að semja lög og greinargerðir og ákvarðanir stjórnvalda er alverulegt. Ég held að enginn þm. haldi því fram í alvöru, að einstakir ráðherrar semji sjálfir eða taki grundvallarafstöðu sjálfir til fjölmargra þeirra mála sem undirbúin eru í þeirra ráðuneytum. Það eru nefndir sérfræðinga, aðstoðarmanna og embættismanna sem vinna verulegan hluta af þessari vinnu. Ýmsir okkar hafa talið að nauðsynlegt væri að draga úr þeim miklu áhrifum sem þetta embættismannakerfi hefði á löggjöfina í landinu. Þegar við erum í fyrsta sinn að innleiða slíkt embættismannakerfi í Hæstarétt, æðsta dómstól landsins, tel ég nauðsynlegt að Alþingi geri sér skýra grein fyrir því, hvaða skilyrði það telur nauðsynlegt að tengja við þessi embætti, nema þá þm. séu þeirrar skoðunar, að hæstaréttardómarar eigi eingöngu að geta metið þetta sjálfir.

Að lokum vil ég herra forseti, taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Suðurl., að verulegur hluti af skýringunni á því, hvers vegna seinagangur er í íslenska dómstólakerfinu, liggur ekki í fjölda dómara, hvorki á undirdómstigum né hjá æðsta dómstól landsins, heldur liggur einfaldlega í því, eins og ég benti á fyrir tveimur árum, að fjárveitingavaldið hefur algerlega vanrækt að búa dómstólastigin öll — ekki bara Hæstarétt — því fjármagni sem þarf til þess að þar sé hægt að taka í notkun nútímaskrifstofuhald, nútímavélritunaraðferðir. (Gripið fram í: Fara af blýantastiginu.) Já, einmitt, fara af því blýanta- og strokleðursstigi, sem hv. 3. þm. Suðurl. vitnaði í áðan, og inn á tækniöldina, þar sem segulbönd, nútímavélritunarhættir, nútímaskjalageymsluhald og fjölmargt annað er tekið í notkun, sem og að þannig sé búið að þessum stofnunum hvað húsnæði snertir, að bæði sé hægt að beita vinnubrögðum, sem flýta afgreiðslu mála, og einnig að virðingu þessara dómstiga sé ekki misboðið. Ég tel t. d., líkt og hv. 3. þm. Suðurl., að aðbúnaðurinn að Borgardómi í Reykjavík sé í reynd hneyksli. Það er sérkennilegt fyrir þá, sem vilja draga ályktun um áherslur íslensks þjóðfélags, að á sama tíma og sú stofnun, sem ég og minn flokkur viljum endurskoða allverulega og jafnvel leggja niður að einhverju leyti í núverandi mynd, — þ. e. Framkvæmdastofnun ríkisins, breyta allverulega, það er lágmark, — á sama tíma og hún reisir á fáeinum misserum glæsihöll á mörgum hæðum með slíka háþróaða tækni í hitastigi, rafmagni og loftræsingu að slíkt hefur aldrei heyrst eða þekkst í þessu landi, og er vonandi að hið heilnæma loft hafi góð áhrif á þá sem þar starfa, — á sama tíma sjái fjárveitingavaldið og við hér, sem á því berum ábyrgð, ekki ástæðu til að reisa yfir megindómstólinn í höfuðborg landsins sómasamlegt húsnæði, heldur látum hann kúldrast í leiguhúsnæði sem stendur honum fyrir þrifum á allan hátt. Ég er viss um að veiting fjármagns til þess að hægt sé að taka upp nútímaskrifstofuhætti og nútímastarfshætti við öll dómsstólastigin, ásamt útvegun þess húsnæðis sem þarf og er sæmandi að þessir dómstólar búi í, sé miklu vænlegra skref ásamt því að búa til t. d. tvo millidómstóla, eins konar lögréttudómstóla, fyrir t. d. annars vegar Vesturland og Suðurland eða jafnvel Suðurlandið og Reykjanesið eitt út af fyrir sig, vegna þess að þyngslin eru mest þar, og hitt stigið fyrir allt landið að öðru leyti, — það væri miklu vænlegri leið til að leysa þennan vanda en halda áfram að hringla með Hæstarétt á þann hátt sem menn byrjuðu á fyrir nokkrum árum. En engar horfur eru á að þeim hringlandahætti ljúki þó að þetta frv. verði samþykkt.