17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Nú er svo knappur ræðutími að manni vinnst ekki tími í einni atrennu til að gera nægilega vel grein fyrir sínu máli. En ég vil bæta því við það sem ég sagði áðan, að gagnrýnisorð mín áttu ekki endilega við þá útdrætti sem gerðir hafa verið síðustu misserin, heldur kemur það fyrir af og til að tíminn, sem starfsmenn útvarpsins hafa til að vinna þetta verk, er algerlega ónógur og óviðunandi. Þess vegna kemur það alltaf fyrir af og til, að þeir hafa engin tök á því að gera því leiðaraefni skil sem um er fjallað í viðkomandi blaði. Niðurstaðan af þessu verður auðvitað sú, — afleiðingin getur ekki orðið önnur, — að útdrátturinn skekkir það efni og gefur ranga mynd af því sem upphaflega var um fjallað.

Á hinn bóginn skil ég það afskaplega vel, að það skuli vera mikið áhugamál fulltrúa þeirra blaða, sem enginn les, að sem mest af þeim sé lesið upp í Ríkisútvarpinu. Þess vegna mundi mér ekki koma á óvart þótt þeir Alþfl.-menn mundu leggja til að leiðarinn yrði lesinn kvölds og morgna í Ríkisútvarpinu til þess að sem flestir yrðu varir við að það blað kæmi yfirleitt út.