17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

331. mál, gróði bankakerfisins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. 1. spurning hv. þm. er svohljóðandi:

„Hver varð rekstrarhagnaður Seðlabankans og viðskiptabankanna á s. l. ári sundurliðað eftir bönkum?“ Samkv. ársskýrslu Seðlabankans árið 1980 var rekstrarhagnaður hans 42 milljónir kr., 4 milljarðar 229.3 millj. gkr. Samkv. uppgjöri bankaeftirlitsins var rekstrarhagnaður viðskiptabankanna árið 1980 samtals 79 millj. kr. eða 7 milljarðar 906.1 millj. gkr.

2. liður fsp. er svohljóðandi: „Hvernig breyttist eiginfjárstaða bankanna árið 1980?“

Tölur yfir eiginfjárstöðu eru fengnar úr efnahagsreikningum bankanna. Til að gera tölurnar sambærilegar er endurmati fasteigna þó bætt við í þeim tilfellum sem það var ekki gert í efnahagsreikningum, þ. e. hjá Seðlabanka bæði árin og Landsbanka 1979. Eigið fé Seðlabanka Íslands 31. des. 1979 var 14 milljarðar 186.2 millj. gkr. Staða Seðlabankans ári síðar eða 31. des. 1980 var 37 milljarðar 803.3 millj. gkr. Breyting á eigin fé bankans frá áramótum 1979–1980 til áramóta l980–1981 var því 23 milljarðar 617.1 millj. gkr. Þessi breyting á eigin fé Seðlabankans sundurliðast þannig, að endurmatsreikningur bankans hækkaði um 18 milljarða 452.5 millj. gkr., varasjóður og annað eigið fé hækkaði um 4 milljarða 429.3 millj. gkr. og endurmat vegna fasteigna um 735.3 millj. gkr. Eigið fé viðskiptabankanna var 31. des. 1979 21 milljarður 688.9 millj. gkr., en ári síðar eða 31. des. 1980 37 milljarðar 626.9 millj. gkr. og hafði hækkað um tæpa 16 milljarða gkr. á árinu. Þegar þessar stærðir eru metnar verður að hafa í huga að verðbólgan var tæplega 60% á árinu 1980.

Á s. l. 20 árum hefur hlutfallið á milli eigin fjár og niðurstöðutölu efnahagsreikninga bankanna yfirleitt farið lækkandi. Í árslok 1961 var þetta hlutfall 9% og hefur ekki verið hærra í 20 ár. Það fór svo lækkandi jafnt og þétt og var orðið lægst árið 1978, hafði þá lækkað úr 9% niður í 1.5%. Árið 1979 var hlutfallið á milli eigin fjár viðskiptabankanna og niðurstöðutölu efnahagsreiknings 2% og á seinasta ári, i980, var það svo 2.4%. Þetta hefur því snúist við til betri vegar.

3. liður fsp. hljóðar svo: „Hvernig hefur endurmatsreikningur Seðlabankans þróast s. l. 5 ár til þessa dags?“ Endurmatsreikningur Seðlabankans vegna gengisbreytinga er til kominn vegna hækkana á bókfærðu verði gjaldeyrisforða Seðlabankans, sem orðið hafa vegna gengislækkunar krónunnar á undanförnum árum. Það fé, sem á móti endurmatsreikningi stendur, er bundið í gjaldeyrisforða bankans og er ekki til ráðstöfunar nema gengið verði á gjaldeyriseignina. Endurmatsreikningur Seðlabankans árin 1976–1980 hefur staðið þannig: Í árslok 1975 mínus 412 millj. gkr., í árslok 1976 mínus 80 millj. gkr., í árslok 1977 618 millj. gkr., í árslok 1978 3 milljarðar 456 millj. gkr., í árslok 1979 8 milljarðar 495 millj. gkr. og í árslok 1980 26 milljarðar 948 millj. gkr.

4. og seinasti liður fsp. hljóðar svo: „Hvaða leiðir eru færar til að nýta gróða bankanna í þágu atvinnuvega landsmanna og hvaða áætlanir hefur ríkisstj. uppi um það?“

Landsbankinn, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn eru sjálfstæðar stofnanir í eigu ríkisins og lúta sérstakri stjórn. Hlutverk viðskiptabankanna er að reka hvers konar bankaviðskipti og stuðla að vexti og viðgangi atvinnuvega landsmanna. Hlutverk Seðlabankans er nokkuð annað. Það er m. a. að annast seðlaútgáfu fyrir landsmenn og vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt, að efla og varðveita gjaldeyrisvarasjóð, er nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við. Enda þótt eigið fé hafi aukist nokkuð í bönkum síðustu tvö árin hefur það þó ekki náð viðunandi stigi þegar á heildina er litið. Þó er nokkur munur á bönkum í þessu efni.

Ef litið er á frjálst eigið fé viðskiptabankanna var það, eins og áður er rakið, 2.4% af niðurstöðutölu efnahagsreikninga í árslok 1980. Þetta hlutfall er í lægra lagi. Nægir að benda á að í Bretlandi er þess krafist, að þetta hlutfall sé minnst 3%, til þess að bankar geti starfað. Á Norðurlöndum eru alls staðar lagaákvæði um lágmark eigin fjár banka. Í Danmörku skal eigið fé banka og sparisjóða nema minnst 8% af samanlögðum innlánum og veittum ábyrgðum að frádregnum nokkrum efnahagsliðum. Í Noregi er lágmark eigin fjár 6.5% af niðurstöðutölum efnahagsreiknings að frádregnu eigin fé og nokkrum áhættulitlum eignaliðum. Í Svíþjóð gilda um þetta flóknar reglur og í Finnlandi sömuleiðis, en í báðum löndum er krafist ákveðins lágmarks. Í bankalöggjöf annarra landa eru viðast hvar svipuð ákvæði um lágmark eigin fjár. Ekki eru samræmd ákvæði um þessi efni í íslenskri löggjöf. Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna. Um aðra banka og sparisjóði gilda ekki samræmdar reglur, en þó eru gerðar vissar lágmarkskröfur um eigið fé. Væri vissulega ástæða til að samræma lagareglur um eigið fé banka, eins og gert er t. d. á hinum Norðurlöndunum og í flestum þróaðri löndum. Sterk eiginfjárstaða er gjaldeyrisbönkum mjög nauðsynleg, því fyrirgreiðsla erlendra aðila mótast mjög af því trausti sem þeir bera til viðskiptabankans hér. Gagnvart innlendum aðilum er eiginfjárstaða banka mjög mikilvæg, ekki síst þeirra banka sem ekki njóta ríkisábyrgðar á innlánum. Hins vegar yrði það ekki fyrirhafnarlaust fyrir einstaklinga að draga ríkið til ábyrgðar ef til þess kæmi.

Af því, sem ég hef nú rakið, virðast ekki efni til eins og sakir standa að ráðstafa gróða viðskiptabankanna umfram það sem lög ákveða um tilgang þeirra. Hins vegar kann að vera ástæða til að haga ýmsum gjöldum, sem lögð eru á atvinnulífið, með öðrum hætti en nú er gert, og er eðlilegt að athugun fari fram á því.

Vík ég þá að Seðlabankanum. Eins og áður kom fram nam rekstrarhagnaður hans árið 1980 4 milljörðum 429.3 millj. gkr. Endurmatsreikningur bankans hækkaði á árinu 1980 um 18 milljarða 452.5 millj. gkr. og var í árslok 1980 tæplega 27 milljarðar. Á þessu ári hefur innstæða á endurmatsreikningi hækkað um 18 milljarða 86 millj. gkr. og nam því 45.8 milljörðum gkr. 30. sept. s. l. Eftirfarandi ályktun var samþykki á fundi bankaráðs og bankastjórnar Seðlabankans 29. okt. s. l.:

„Með vísan til hugmynda, sem fram hafa komið um það að verja hluta af endurmatsreikningi Seðlabankans vegna gengisbreytinga til uppbóta á framleiðslu tiltekinna atvinnuvega, vill bankaráð og bankastjórn Seðlabankans taka fram eftirfarandi:

1. Endurmatsreikningur vegna gengisbreytinga er til kominn vegna hækkana á bókfærðu verði gjaldeyrisforða Seðlabankans, sem orðið hafa vegna gengislækkunar krónunnar á undanförnum árum. Það fé, sem á móti endurmatsreikningi stendur, er bundið í gjaldeyrisforða bankans og er ekki til ráðstöfunar nema gengið verði á gjaldeyriseignina.

2. Hvort leysa skuli tiltekinn efnahagsvanda með greiðslum úr Seðlabanka verður umfram allt að skoða frá því sjónarmiði, hvaða áhrif það hefur á efnahagslegt jafnvægi. Aðstæður í efnahagsmálum eru nú þær hér á landi, að nauðsynlegt er að beita fyllsta aðhaldi í peningamálum jafnframt því sem gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins er síst betri en þörf er á til efnahagslegs öryggis, sérstaklega ef litið er til hinna miklu erlendu skulda þjóðarbúsins. Með tilliti til þessa eru nú ekki aðstæður til að auka á þenslu eða veikja gjaldeyrisstöðu með ráðstöfun sjóða Seðlabankans.

3. Loks skal vakin athygli á því, að Seðlabankinn hefur engar lagalegar heimildir til að verja eiginfjársjóðum utan rekstrar og almennra viðskipta í þágu tiltekinna aðila í þjóðfélaginu. Til slíkrar ráðstöfunar hlýtur að þurfa að koma til skýlaus heimild Alþingis í formi lagasetningar.“

Þetta var ályktun sem samþykkt var á fundi bankaráðs og bankastjórnar Seðlabankans 29. okt. s. l. og var hún samþykki samhljóða.

Ég vil leyfa mér að lesa upp nokkrar setningar úr greinargerð sem fylgdi þessari ályktun bankans: „Rökin fyrir því að færa mótvirði erlendra gjaldeyriseigna Seðlabankans á sérstakan endurmatsreikning eru hliðstæð þeim er liggja því til grundvallar að hækkun matsverðs fasteigna hjá fyrirtækjum er nú færð á sérstakan endurmatsreikning í samræmi við ákvæði skatta- og bókhaldslaga, en skoðast ekki sem rekstrarhagnaður. Hækkanir og lækkanir erlendrar gjaldeyriseignar vegna gengisbreytingar krónunnar fela hvorki í sér venjulegan hagnað né tap. Breyting á bókfærðu verðmæti þessarar eignar í íslenskum krónum talið skiptir engu máli fyrir tilganginn með henni, þar sem hún verður aðeins notuð í erlendum gjaldeyri til jöfnunar á gjaldeyrisafkomu þjóðarbúsins.“ (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég á eftir örlítið af mínu svari því að þetta er nokkuð yfirgripsmikið efni sem hér er spurt um, en ég skal ekki tala mjög lengi til viðbótar. — „Ef verja ætti bókhaldslegri hækkun gjaldeyriseignar til útgjalda, t. d. í þágu útflutningsatvinnuveganna, verður ekki undir því staðið nema með því einu að selja hluta af gjaldeyriseigninni og ganga þannig á gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Þessu má líkja við það, að menn vildu ráðstafa hækkun á fasteignamatsverði byggingar til þess að bæta rekstrarafkomu viðkomandi fyrirtækis. Slíki yrði ekki gert nema með því að ganga á raunverulegar eignir fyrirtækisins.

Sá misskilningur virðist útbreiddur, að hækkun á bókfærðu verði gjaldeyriseignar Seðlabankans sé hagnaður sem sé tekinn með einhverjum hætti frá útflutningsatvinnuvegunum. Þetta er fjarri öllu lagi, enda er hér um eignir í erlendum gjaldeyri að ræða, bankainnstæður og verðbréf svo og skuldir við erlenda aðila, og eru breytingar á þessum liðum viðskiptum Seðlabankans við innlenda aðila óviðkomandi. Öll slík viðskipti fara í gegnum rekstrarreikning bankans og koma fram í rekstrarafkomu hans, eins og síðar mun að vikið.

Niðurstaðan af því, sem hér hefur verið sagt, er því sú, að í breytingum á bókfærðu verði erlendra eigna Seðlabankans felist eingöngu endurmat þessara eigna. Eignaaukningunni í íslenskum krónum af slíku endurmati verður því ekki ráðstafað nema með því að ganga á eignirnar sjálfar. Með því að ráðstafa slíkum eignum til útlanda væri Seðlabankinn því að ganga á gjaldeyrisforða þjóðarinnar og bregðast því hlutverki sínu að tryggja sem best fjárhagslega stöðu hennar út á við.“

Þetta var úr greinargerð bankastjórnar og bankaráðs Seðlabankans fyrir þeirri ályktun sem ég las hér áður. Ég vil þessu næst rekja hvað ríkisstj. hefur þegar gert í samvinnu við Seðlabankann til að létta undir með atvinnuvegunum, en mjög miklar sveiflur hafa verið í gengisskráningu á hinum alþjóðlega peningamarkaði á þessu ári, og jafnframt víkja að því sem er nú til umræðu hjá bankanum. Ég og sjútvrh. náðum fyrir hönd ríkisstj. samkomulagi við Seðlabankann um eftirfarandi atriði:

1. Lækkun vaxta af gengisbundnum afurðalánum um 4%, sem kosta Seðlabankann um 3 milljarða gkr. á þessu ári.

2. Endurgreiðslu gengisuppfærslu afurðalána hinn 26. ágúst s. l., sem kostar Seðlabankann 4.1 milljarð gkr. 3. Breytingu gengisviðmiðunar afurðalána vegna útflutnings til Evrópu vegna misvísunar á gengisskráningu hinna ýmsu landa á árinu, 3.5 milljarðar gkr.

4. Lán til loðnudeildar Verðjöfnunarsjóðs — lán sem er með ríkisábyrgð og er gert ráð fyrir að greiða fyrir 1. jan. 1984, 4.2 milljarðar gkr.

5. Lán til Byggðasjóðs vegna frystihúsa, sem er bráðabirgðalán, 1 milljarður gkr.

Til viðbótar er nú til umræðu og til athugunar: 1) lán til að breyta lausaskuldum sjávarútvegs í löng lán, allt að fjögurra ára lán, og 2) breyting afurðalána í innlend lán og ekki kæmi til gengisuppfærslu þeirra við nýgerða gengisbreytingu, en Seðlabankinn lagði til að breyta gengisbundnum afurðalánum í lán í íslenskum krónum.

Auk þess má minna á fyrirgreiðslu Seðlabankans til að bæta fjárhag Útvegsbankans, sem bæði felur í sér útlánaaukningu og tekjutap fyrir Seðlabankann, en þessi fyrirgreiðsla var fólgin í: 1) endurgreiðslu vaxta, 12 millj. kr., 2) sérstakri lánveitingu, er ríkissjóður greiðir á 12 árum, að upphæð 50 millj. kr., og 3) fyrirgreiðslu vegna tilflutnings viðskipta, 57 millj. kr. Það eru því býsna miklar fjárhæðir sem hér er um að ræða og með þessum ákvörðunum verður mjög gengið á rekstrarafkomu bankans á árinu.

Eigið fé Seðlabankans hefur vaxið verulega á s. l. tveim árum og stóð samtals betur við s. l. áramót en nokkru sinni s. l. 20 ár. Ef einvörðungu er litið á annað eigið fé bankans en endurmatsreikninginn kemur í ljós að það var meira við s. l. áramót en undangengin 6 ár, ef miðað er við hlutfall eigin fjár og niðurstöðutölur efnahagsreiknings. Hins vegar er annað fé miklu minna nú en það var á áratugnum 1960–1970.

Varðandi þessar ráðstafanir í heild vil ég að lokum segja þetta:

Staða útflutningsatvinnuveganna hefur verið slæm vegna vaxandi tilkostnaðar hér heima borið saman við söluverð framleiðslunnar. Þegar af þeirri ástæðu svo og vegna batnandi stöðu Seðlabankans er það skoðun ríkisstj., að rétt sé að verja hluta af eiginfjáraukningu bankans til að bæta rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Það er hins vegar misskilningur, að gengið verði á gjaldeyrisforða þjóðarinnar með þessum ráðstöfunum.