17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

331. mál, gróði bankakerfisins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki ónýtt að vera kallaður umboðsmaður hér hvað eftir annað, en svo er ekki.

Ég heyrði ekki betur en það kæmi fram í ræðu hv. 3. þm. Austurl., að það væri endurskoðunardeild bankans sem sæi um endurskoðunina þó að einhver maður úti í bæ væri fenginn til að skrifa undir þá niðurstöðu. Tek ég ekki mikið mark á því frekar en öðru sem kemur frá þessari stofnun.

Ég fagna því auðvitað alveg sérstaklega, að hv. þm. og fyrrv. hæstv. — sem hann ætti eiginlega helst að vera enn þá — Kjartan Jóhannsson skyldi koma hér upp og veita okkur kennslustund í þessum efnum. Það er eins og fyrri daginn, að hann veit alltaf betur en allir aðrir um allt. Ég þakka honum fyrir lesturinn.

Um þetta mál er auðvitað mjög margt hægt að segja. Það tekur hins vegar lengri tíma en þær örfáu mínútur sem eru hér til umráða. Þess vegna er varla unnt að fara út í efnisþætti að ráði. En það er ómögulegt annað en að nefna þó nokkuð. Ég vil þó fyrst, áður en ég held lengra áfram, þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Þau voru mjög greinargóð og ég var sammála ýmsu af því sem hann sagði í sínu máli þó að allar tölur og meginmálið í svörum hans væri greinilega komið beint frá Seðlabankanum sjálfum. Það sýnir í hvernig stöðu menn eru hér og annars staðar í þjóðfélaginu þegar huga á að málefnum Seðlabankans. Þegar spurt er um hag hans og stöðu koma svörin ævinlega beint frá honum sjálfum. Þetta er auðvitað ekki verulega gott.

Ég vil undirstrika að það verði látin fara fram hlutlaus og fagleg úttekt á Seðlabankanum og um það gefin skýrsla hér á hinu háa Alþingi þannig að menn gætu fengið sem réttasta mynd af þeirri stöðu allri. Það væri t. d. mjög forvitnilegt, vegna þess að menn tala hér um gjaldeyriseignina, um mjög háar tölur, — þær mættu kannske vera hærri, — að fá að vita hvernig Seðlabankinn ávaxtar þessa gjaldeyriseign landsmanna. Það hlýtur að skipta mjög miklu máli hvernig svo stórar upphæðir á okkar mælikvarða eru ávaxtaðar erlendis og hvernig bankastjórunum fer það starf úr hendi. Þetta veit ég ekki um. Það getur vel verið að hv. þm. Halldór Ásgrímsson viti það. Þó er ég ekki alveg viss. En ég er alveg sannfærður um að aðrir hv. þm. vildu gjarnan fá að vita hvernig þeim málum er háttað því að þar er um mjög stórar upphæðir að tefla.

Í bókun Seðlabankans, sem hæstv. bankamálaráðh. rakti hér, er ýmislegt sem ekki er alveg í takt við það sem aðrir hæstv. ráðh. ríkisstj. hafa sagt, m. a. hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson. Þar snýr allt önnur hlið upp í þessu máli. Þar er t. d. talað um að engar langaheimildir séu fyrir að færa þessa peninga til, en hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson fullyrðir hið gagnstæða, auk þess sem það kom fram í orðum hæstv. viðskrh. áðan, að það væri búið að færa þessa peninga til án nokkurrar lagaheimildar. Þannig eru fljótfundnir gallarnir og götin á því máli sem frá Seðlabankanum kemur.

En skyldi eigið fé Seðlabankans ekki hafa vaxið allvel fyrir okurkjör á yfirdráttarvöxtum til viðskiptabanka atvinnulífsins í landinu? Það er einkennilegt að heyra menn tala um að það séu ekki raunverulegir fjármunir sem þarna er verið að færa til. Það er að mínum dómi augljóst að þarna er um raunverulega peninga að ræða, að hluta til a. m. k., því að það þykir þungur baggi atvinnufyrirtækjum í landinu og viðskiptabönkum þeirra að greiða þessa peninga til Seðlabankans. Hví skyldi það þá ekki vera verðmæti alveg eins þegar þessir peningar fara hina leiðina?