17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

331. mál, gróði bankakerfisins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Menn eru að gefa í skyn að það sé verið að skipta um bókhaldsheiti í reikningum Seðlabankans. Ég vil endilega biðja menn, sem eru að tala um þessa reikninga, að lesa þá gaumgæfilega. Það kemur allt fram í þeim reikningum, hvernig eign Seðlabankans hefur aukist og hvað er á rekstrarreikningi. Það er reynt að færa á rekstrarreikning það sem viðkemur inniendum viðskiptum. Síðan kemur fram á endurmatsreikningi það sem erlenda gjaldeyriseignin er endurmetin um. Þetta kemur greinilega fram í skýringum með þessum reikningum og þetta er undirritað af óháðum utanaðkomandi löggiltum endurskoðanda, hvað sem menn reyna að kalla þennan ágæta mann sem við í bankaráði Seðlabankans berum fullt traust til.

Ég vil benda á að það eru til lög um Seðlabanka Íslands. Það hefur verið kosið bankaráð yfir þennan banka hér á Alþingi og það bankaráð hefur skyldur samkv. lögum. Bankastjórn og bankaráð hafa sent frá sér grg. í samræmi við þessar skyldur og í samræmi við þessi lög. Ef menn vilja breyta því geta menn gert það, enda eru þessi lög í endurskoðun.

En ég vil ítreka að allir pólitískir flokkar hér á Alþingi eiga fulltrúa í þessu bankaráði og sumir af bankastjórum bankans hafa einnig verið skipaðir þar vegna afskipta sinna af stjórnmálum. Ég ber fullt traust til allra þessara manna, og ég veit að þeir allir vilja gegna þar skyldum sínum í samræmi við þessi lög. Mér finnst það óviðeigandi hér á Alþingi Íslendinga að vera að gefa í skyn að þessir menn gegni ekki skyldum sínum og séu að gefa út einhverja falska pappíra.