17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

331. mál, gróði bankakerfisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég óttast að ef svo harkalega verður brugðið út af um framkvæmd þingsskapa, að menn fái að tala upp í fjórum sinnum í fsp.tíma, þá geti orðið þröngt fyrir dyrum. Hins vegar er okkur í stjórnarandstöðunni þénugast að hv. 11. þm. Reykv. fái að tala sem oftast. En hann fór með, eins og hv. 1. landsk. þm. tók fram, bein og rakin ósannindi um málafylgju hv. þm. Eyjólfs Konráðs og Lárusar Jónssonar í Ed. Það vildi þannig til, að ég heyrði kafla af þessum viðræðum, m. a. það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var að kalla fram í fyrir Eyjólfi, og einnig hef ég lesið þetta í þingtíðindum. Þeir héldu því fram, að gengið væri löngu fallið, það væri vitlaust skráð. Annað er gengi og hitt hvernig það er skráð hverju sinni. Það er mannasetning, en gengið er vigtað og vigtast með öðrum hætti. Þetta voru bein og rakin ósannindi, flutt hér ofan úr sal Ed. til Sþ. En það er eins og vant er með þennan hv. þm., þegar þessi landshornasirkill og landafjandi berst fyrir friði, sem hann kallar, og afvopnun einhliða. Þegar öll hræsnin og yfirdrepsskapur vina hans í austri strandaði við Karlskrona, upp á hverju tók hann þá? Þá fór hann að tala um gistivináttu manna um borð í herskipum Bandaríkjanna og náði sér í einhverja bók hjá bandaríska bókasafninu, miklar spekúlasjónir þeirra, og þuldi hér klukkutímum saman. Og nú þegar við erum að tala um hinn mikla háska, sem að atvinnuvegum Íslendinga sækir nú, svo sem raun ber vitni, þá fer hann að tala um húsbúnað inn við Rauðarárstíg.