17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

48. mál, umfjöllun þingnefnda varðandi reglugerðir

Finnur Torfi Stefánsson:

Forseti. Ég er sammála því, að markmið þessarar till. eru góð og stefnt í rétta átt hvað tilganginn varðar. Tilgangurinn er sá eftir tillögugreininni að reyna að tryggja að reglugerðir séu í samræmi við lög og að framkvæmdavaldið breyti ekki vilja Alþingis með setningu reglugerða. Það er auðvitað full þörf á að veita framkvæmdavaldinu aðhald í þessum málum. Hins vegar er það nú svo, að samkv. gildandi lögum er það verkefni dómstóla í landinu að hafa þennan starfa á hendi. Eins og við vitum er það samkv. stjórnarskrá verkefni Alþingis að setja lög, framkvæmdavaldshafar eiga að framkvæma lögin, síðan er það verkefni dómstóla að túlka lög og skera úr réttarágreiningi, m. a. að skera úr ef einhver telur að reglugerð brjóti í bága við lög. Nú kann einhver að vilja halda því fram, að dómstólar sinni þessu verkefni illa, eða með öðrum orðum sagt: það sé of þungfarið og seint að sækja mál þá leiðina. Kann að vera nokkuð til í því. En ég held að það væri öllu skynsamlegra, ef menn telja að það brenni á sér einhver sök í þessu, að reyna að beina augum sínum að réttarfari í landinu, að dómstólunum, og freista þess að gera starfsemi þeirra greiðari og skjótvirkari fyrir þegnana. Ég get tekið undir það, það er mjög mikil þörf á að borgurum landsins verði gert tiltölulega auðvelt að leita með ágreiningsefni sín, t. d. við ríkisvaldið, til dómstóla og fá þar úrskurð.

Ég held líka að hætt sé við því, að mörk reglugerða og lagasetningar óskýrist ef þingið á að fjalla með sérstökum hætti um reglugerðirnar líka. Þá fara menn að vefja fyrir sér hver sé eiginlega munur á lögum og reglugerðum.

Kjarni þessa máls er auðvitað sá, sem kom fram bæði hjá hv. frsm. og eins hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að Alþingi hefur framselt mikið af valdi sínu til ríkisstj. á hverjum tíma. Ég er sammála því, að þetta mat er rétt, og það er mikið tilefni til þess, að Alþingi spyrni við fótum og reyni að snúa þessari þróun við. Ég er hins vegar mjög vantrúaður á að það gerist jafnvel þótt menn komi fram einhverjum breytingum á vinnubrögðum, breyti þingskaparlögum eða einhverju þess háttar, vegna þess að vandinn á alls ekki rætur í forminu eða í lögunum. Vandinn er fyrst og fremst afstaða þm. sjálfra, afstaða þingsins sjálfs. vegna þess að valdaframsalið hefur gerst fyrir lagasetningu á Alþingi. Þingið hefur sjálfviljugt og fyrir eigin verknað framselt þetta vald í hendur ráðh. Og það mun halda því áfram svo lengi sem viðhorf af þessu tagi ríkja. Ég held að við getum breytt kerfinu endalaust án þess að nokkur árangur fáist í þessu máli.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason nefndi hér nokkur dæmi um valdaframsalið. Ég vil gjarnan bæta einu við. Það er fjárveitingavaldið. Það er alveg ljóst af stjórnarskrá, það liggur þegar fyrir í stjórnarskránni, að Alþingi á að hafa fjárveitingavaldið. En hvernig er því svo háttað í raun? Við vitum að fjárlög, sem menn leggja mikinn tíma og vinnu í að samþykkja hér í þinginu, eru alls ekki lög að efni til. Þetta er í hæsta máta og besta lagi hægt að kalla stefnuyfirlýsingu, því að í lögunum sjálfum, í fjárlögunum, er heimild til ríkisstj. að breyta þeim eftir verðlagsþróun og hentisemi, enda vita menn að fjárlög eru aldrei framkvæmd. Ríkisreikningur og fjárlög sýna mikinn mismun og mjög lítið samræmi er þar á milli.

Í öðru lagi vitum við að það fé, sem er til ráðstöfunar árlega til fjárfestingar, það fé sem menn hafa eitthvert ráðrum til að ráðstafa í hina ýmsu staði, það er ekki afgreitt í fjárlögum, heldur fyrst og fremst í lánsfjáráætlun — og það er áætlun. Þingið hefur ákaflega lítið með það að gera, hvernig hún er framkvæmd. Af hverju er þetta svona? Nú er svona komið þrátt fyrir það að í stjórnarskránni segi alveg ótvírætt að Alþingi eigi að hafa fjárveitingavaldið. Halda menn að þetta ástand mundi breytast ef menn færu að tvítaka það eða þrítaka í stjórnarskrá, að Alþingi eigi að hafa fjárveitingavald? Nei, orsökin er ekki formið, heldur það ástand sem ríkir á Alþingi, að þingmenn annaðhvort vilja eða treysta sér ekki til annars en að láta ríkisstj. stjórna og ráða. Það er fyrst og fremst viljinn, breytt viðhorf, sem hér þarf að koma til.