17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

88. mál, kalrannsóknir

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Sú till., sem ég mæli hér fyrir, lætur fremur lítið yfir sér, en er engu að síður mjög mikilvæg, ef hún nær fram að ganga. hún fjallar um áætlanagerð og sérstakt átak í kalrannsóknum á Íslandi. Meðflm. mínir að till. eru Stefán Jónsson, Alþb., Egill Jónsson og Lárus Jónsson, úr Sjálfstfl., Sighvatur Björgvinsson, Magnús H. Magnússon, Karvel Pálmason, Eiður Guðnason og Finnur Torfi Stefánsson, allir úr Alþfl. Kannske er eftirtektarvert að á þessum lista er ekkert nafn framsóknarmanns.

Engu að síður taldi ég fulla og mikla ástæðu til að flytja þáltill. af þessum toga spunna. Vegna þeirra starfa, sem ég hef nú tekið þátt í við endurskoðun landgræðslu- og landverndaráætlunar fyrir árin 1982–1986, er mér fullljóst að kalskemmdir eru dýrasta gróðureyðing sem verður hér á landi. Kalskemmdir valda tugmilljónatjóni á hverju einasta ári. Þarf að gera verulegt átak í því að rannsaka hvað veldur kalskemmdunum. Í till. segir á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að efla til mikilla muna allar kalrannsóknir á Íslandi. Gerð verði sérstök áætlun um eflingu þessara rannsókna og stefnt að því, að miðstöð þeirra verði að Möðruvöllum í Hörgárdal í fullu samráði og samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins.“

Eins og ég sagði áðan eru kalskemmdir í grónum túnum einhver dýrasta gróðureyðing sem unnt er að greina frá. Kal veldur bændum gífurlegu tjóni ár hvert og virðast engin ráð mega stöðva þennan vágest. Rannsóknir, sem gætu dregið úr eða komið í veg fyrir kalskemmdir, yrðu fljótar að skita arði. Það þarf ekki að tíunda þýðingu þessara rannsókna.

Fjárhagstjón bænda af völdum kals kemur m. a. fram í endurvinnslukostnaði, lélegri áburðarnýtingu, lélegum heyjum, sem síðan leiða til slakra afurða af búfé, dýrum heyflutningum og aukinni kjarnfóðurgjöf vegna lítilla heyja.

Rannsóknarstarfsemi á að koma á undan annarri starfsemi í landinu, ryðja brautina og taka á sig hugsanleg áföll. Hér hefur hún brugðist. Bændur hafa orðið fyrir áfallinu og þar með þjóðin öll, en vísindamenn vita lítið um ástæður eða orsakir. Úr þessu þarf að bæta með stórfelldu átaki. Í þeim efnum nægir að benda á skýrslu OECD frá 1971, þar sem segir orðrétt: “It is obvious that, for instance, a partial solution of the frost damage problems affeeting the Icelandic farmlands in recent years, could be of extreme benefit in terms of short time increased output and operationalsafety.“

Þetta er á íslensku máli: „Það er augljóst, að t. d. einhver lausn á vandamálum vegna frostskemmda, sem mjög hafa haft áhrif á íslenskar bújarðir á síðustu árum, gæti komið mjög til góða á tiltölulega skömmum tíma í formi aukinnar framleiðslu og rekstraröryggis.“

Bjarni E. Guðleifsson, einn helsti sérfræðingur Íslendinga í kalrannsóknum, hefur lengi haldið því fram, að kalrannsóknir þyrfti að taka út sem sérstakt rannsóknarverkefni hliðstætt t. d. landgræðsluáætlun. Aðrir hafa látið í veðri vaka að hinar almennu jarðræktarrannsóknir jurtakynbótamanna og jarðvegsfræðinga mundu nægja. Árangur hefur hins vegar lítill orðið og kalrannsóknir hafa á þennan hátt ávallt orðið út undan.

Bjarni E. Guðleifsson telur að rannsóknir á kali hérlendis þurfi að vera tvíþættar: annars vegar tilraunir í túnum, en þær taka oft langan tíma vegna þess að kalskemmdir verða ekki nema af og til. Hægt er að framleiða kal í þessum tilraunum með tilteknum aðferðum. Hins vegar má einnig prófa þol grasa í rannsóknarstofum. Þá eru grösin ræktuð í gróðurhúsi, síðan sett í gróðurskáp og hert, líkt og gerist á haustin í náttúrunni, og loks sett í frystikistu og mælt þol þeirra gegn frosti (frostþol) eða gegn langvarandi svellum (svellþol). Þannig má reyna þol grastegunda og stofna svo og þol grasa sem hafa fengið mismunandi meðhöndlun við slátt, beit og áburðargjöf.

M. a. vegna þessa tvíþætta eðlis kalrannsókna er nánast einboðið að þær verði stundaðar nærri kalsvæðum. Er tilraunastöðin á Möðruvöllum vel í sveit sett hvað það snertir. Ef nægilegt fjármagn fengist mætti innrétta þar gamalt fjós til kalrannsókna. Er það stefna ráðamanna á Möðruvöllum.

Á síðasta vori veitti landbrh. styrk til tækjakaupa til Möðruvalla. Hafa verið keyptir hitamælar og pantaðar frystikistur til væntanlegra kalrannsókna. Það, sem á skortir, er upphitað gróðurhús og húsnæði fyrir frystikistur sem yrðu fimm. Því má skjóta hér inn í, að vart mun annað fjármagn hafa verið veitt sérstaklega úr ríkissjóði til kalrannsókna s. l. 10 ár.

Talið er nauðsynlegt að a. m. k. tveir sérfræðingar vinni að kalrannsóknum: einn sem fengist við lífeðlisfræðilega þætti grasanna og annar sem rannsakaði jarðvegsfræðileg áhrif á kal grasa. Æskilegt hefði verið að jarðvegsfræðilegar rannsóknir yrðu skipulagðar í vetur, gögnum safnað næsta sumar og jarðvegsfræðingur færi með þau utan næsta vetur til úrvinnslu.

Þess má geta, að Bjarni E. Guðleifsson er nú að vinna að uppgjöri á eftirtöldum rannsóknum og mun væntanlega birta niðurstöður í erlendum tímaritum:

1. Samanburður á þoli vallarfoxgrass og vetrarhveitis.

2. Frostþol og svellþol tegunda og stofna grasa.

3. Áhrif aldurs og sláttar á þol vallarfoxgrass.

4. Efnamyndun vallarfoxgrass undir svellum.

5. Lághitabakteríur í grösum í svellum.

Ritgerðirnar byggja á tilraunum og rannsóknum sem gerðar voru í Kanada. Sem helstu niðurstöðu má nefna að íslenskir stofnar af vallarfoxgrasi eru ótrúlega þolnir, og það er ný vitneskja að lághitabakteríur vaxa oft á grösum undir svellum og framleiða illþefjandi smjörsýru, svokallaða kallykt, sem bændur á kalsvæðunum kannast vel við.

Þar sem kalrannsóknir eru svo skammt á veg komnar hér á landi má nefna mikinn fjölda verkefna sem gætu orðið grundvöllur framtíðarrannsókna. Ég nefni hér nokkur dæmi.

Jurtalífeðlisfræðilegar rannsóknir:

1. Athuganir á svellamyndun og kjörum grasa að vetri (jarðklaki, lághitabakteríur).

2. Rannsóknir á áhrifum nytja á þol grasa (sláttutími, sláttuhæð, sláttufjöldi, beit, áburður).

3. Rannsóknir á áhrifum aldurs á þol grasa (sáðtími, aldur túna).

4. Prófun á þoli tegunda og stofna grasa.

Jarðvegsfræðilegar rannsóknir:

1. Rannsókn á áhrifum jarðvegs á þol grasa (efnamagn, loftrými).

2. Endurvinnsla kalins lands (uppgræðsla, kýfing, þurrkun).

Talsverðar líkur má leiða að því, að kalrannsóknir séu eitthvert mikilvægasta verkefni á sviði landbúnaðarrannsókna sem nú liggur fyrir. Verður hér m. a. vitnað í orð Gunnars Guðbjartssonar á síðasta aðalfundi Stéttarsambands bænda, en þar sagði hann:

„Nú horfir illa með heyöflun í mörgum byggðarlögum. Kemur þar þrennt til: Mikið kal í túnum s. l. vor í mörgum landshlutum, síðbúin spretta allvíða og óhagstætt heyskapartíðarfar í ágústmánuði eftir að farið var að slá að ráði, þar sem seint spratt. Þetta ástand getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir landbúnaðinn og þróun byggðar í landinu. Hins vegar er náttúrufar á Íslandi með þeim hætti, að alltaf má búast við erfiðu veðurfari sem veldur bæði kali í jörð og einnig öðrum erfiðleikum við fóðuröflun.

Eitt þýðingarmesta atriði í framtíðinni til að bæta og tryggja kjör bænda er að finna ráð til að mæta þessu, ráð til að minnka kalið og koma í veg fyrir grasbrest, sem af því leiðir, m. a. með tilraunum með ræktun kuldaþolinna grasstofna.“

Landbúnaður á Íslandi er einhæfari en víða erlendis. Um það bil 98% af ræktuðu landi er nytjað sem tún, og uppskera af þessu landi, ásamt uppskeru beitilanda, er grundvöllur búfjárhaldsins. Vegna þess, að hagstæðast er að afla mikils af ódýru grasfóðri, hlýtur uppskera graslendis að ráða miklu um hagfræðilega afkomu þeirra sem eiga sitt undir búfjárhaldinu. Kal og grasleysi hefur fyrr og síðar valdið mikilli uppskerusveiflu og þannig gert arð búfjárhaldsins fremur ótryggan. Þetta á við um Ísland í heild, en í mestum mæli norðurhluta landsins, en þar hafa í sumum tilvikum allt að 70% túna skemmst af kali. Það hlýtur því að hafa mikla fjárhagslega þýðingu að rannsaka orsakir þessara túnskemmda svo að e. t. v. verði hægt að koma í veg fyrir slík áföll í framtíðinni. Hér er ekki eingöngu verið að ræða hag bænda, heldur þjóðarheildar.

Herra forseti. Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta, en vil aðeins benda á að í störfum þeirrar nefndar, sem nú endurskoðar landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir árin 1982–1986, er liður undir Rannsóknastofnun landbúnaðarins þar sem gert er ráð fyrir sérstökum rannsóknum á vetrarþoli plantna. Ég vil með flutningi þessarar till. kannske hvað helst þrýsta á að fjármagn fáist í þennan lið á landgræðslu- og landverndaráætluninni, sem ég vænti að verði lögð fyrir hið háa Alþingi innan skamms, þrýsta á að nægilegt fjármagn fáist til þess að sérfróðir menn geti farið að vinda sér í það í sem mestri skyndingu að rannsaka kal hér á landi sem, eins og ég sagði upphaflega, veldur milljónatjóni hér á ári hverju. Þarf ekki að fara langt aftur í tímann því til sönnunar. Það þarf ekki annað en benda á s. l. vor, þegar tún fóru mjög illa víða á landi af kali. Ég vænti þess að þessi till. geti fengið þær undirtektir, að hún þrýsti þá jafnframt á það, að fjármagn fáist til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem nægir í þetta verkefni.

Ég legg á það höfuðáherslu — og það hefur ævinlega verið kjarninn í mínu máli hér í sambandi við umr. um landbúnað, að framleiðsluaukning í landbúnaði fari ekki eftir aukningu áburðarmagns á tún, hún fari ekki eftir aukningu áburðarmagns á afréttarlönd, heldur hagkvæmari búskaparháttum. Vil ég í þessum efnum leggja á það þunga áherslu, að ef unnt yrði að uppræta kal, þó ekki væri nema 50% frá því sem nú er, þá væri gífurlega miklum árangri náð. Ástæðan er m. a. sú, að bændur hafa ekki eingöngu orðið fyrir gífurlegu fjárhagslegu tjóni vegna þess að þeir hafa orðið að endurvinna tún sín, heldur hefur kalið jafnan leitt til þess að þeir hafa orðið að kaupa fóður, oft og tíðum dýran fóðurbæti, og kostnaðarliðirnir hafa hlaðist upp.

Ég vil svo gera það að till. minni, herra forseti, að till. verði vísað til nefndar, án þess að ég geti gert upp hug minn til þess í raun og veru hver nefndin skuli vera. Ég fel forseta allra náðarsamlegast að ákvarða hvort málið fari til atvmn. eða allshn.