19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

49. mál, útgáfa nýs lagasafns

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Lagasafn kom síðast út árið 1974 og er efni þess miðað við 1. okt. 1973. Efni þess hefur að sjálfsögðu tekið breytingum og því er þegar orðið tímabært að hefjast handa um útgáfu nýs safns. Útgáfa lagasafns 1973 var undir stjórn dr. Ármanns Snævars hæstaréttardómara, sem einnig annaðist ritstjórn lagasafns 1963 og var meðritstjóri lagasafns 1954.

Nokkuð er síðan farið var að huga að útgáfu nýs lagasafns. Á fyrri hluta árs 1979 áttu sér stað viðræður dr. Ármanns og þáv. dómsmrh. og sendi dr. Ármann ráðh. minnisgreinar um útgáfu lagasafns í aprílmánuði það ár. Um sumarið ræddu fulltrúar rn. við forstjóra Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg um möguleika prentsmiðjunnar til að taka verkið að sér og prenttækniatriði.

Við stjórnarskipti í október tók málið nýja stefnu. Ráðh. ritaði lagastofnun Háskólans bréf, dags. 30. okt. 1979, þar sem stofnuninni var falið að sjá um útgáfu nýs lagasafns sem gefið yrði út af rn. Var Lagastofnun falið að skipa ritstjórn til að annast undirbúning og framkvæmd útgáfunnar að höfðu nánara samstarfi við rn. Lagastofnun svaraði þessu bréfi 14. nóv. 1979. Féllst stjórn stofnunarinnar á að taka að sér verkið, ef um semdist að öðru leyti, en taldi nauðsynlegt, áður en lengra yrði haldið, að ræða nánar við rn. um framkvæmd verkefnisins, og taldi rétt að gert yrði samkomulag um þessi atriði milli rn. og Lagastofnunar.

Í byrjun febrúar 1980 kynnti forstöðumaður Lagastofnunar rn. drög að samningi um útgáfuna. Málið lá síðan niðri nokkra hríð.

Í lok október síðasta árs fóru fram óformlegar viðræður milli fulltrúa rn. og forstöðumanns Lagastofnunar og forseta lagadeildar. I febrúar s. l. ræddu síðan um málið ráðuneytisstjóri og forstöðumaður Lagastofnunar og skyldi málið þá tekið fyrir á aðalfundi Lagastofnunar. Í framhaldi af þeim fundi lagði forstöðumaður fyrir hönd Lagastofnunar til að hlutverkum við útgáfu safnsins yrði skipt sem hér greinir:

l. Lagastofnun hafi með höndum þessi verkefni:

1. Að skipuleggja útgáfu lagasafnsins, að búa handrit til prentunar og lita eftir framkvæmd verksins.

2. Að sjá um samningu efnisyfirlits, skráa og lykla.

3. Að annast allan prófarkalestur.

4. Að ráða ritstjóra, einn eða fleiri, og aðra starfsmenn til að vinna framangreind verkefni eftir því sem ástæða þykir til.

II. Dómsmrn. hafi með höndum þessi verkefni:

1. Að velja prentsmiðju og önnur bókagerðarfyrirtæki til prentunar og bókbands og annast allar samningsgerðir við þau.

2. Að ákveða ytra útlit ritsins, svo sem pappír, leturgerð, brot og band.

3. Að annast allar útborganir, aðrar fjárreiður og reikningshald vegna verksins.

4. Að sjá um dreifingu ritsins.

III. Lagastofnun og dómsmrn. hafi þó samráð um öll atriði er greinir hér að framan.

IV. Lagastofnun og dómsmrn. ákveði sameiginlega þóknun ritstjóra og annarra starfsmanna sem vinna að undirbúningi útgáfu.

V. Lagastofnun láti í té án endurgjalds húsnæði og aðra aðstöðu til að vinna verkið.

Dómsmrn. greiði annan kostnað við verkið, svo sem laun ritstjóra og annarra starfsmanna, þ. á m. vélritara.

VI. Forstöðumaður Lagastofnunar staðfesti alla reikninga fyrir verk sem unnin eru í umsjón stofnunarinnar.

VII. Lagastofnun fái endurgjaldslaust 25 eintök af lagasafninu í þeim búningi sem það ber á almennum markaði.

Varla þarf að taka það fram, að gengið er að því vísu að allar tekjur af sölu lagasafnsins gangi til dómsmrn. Nokkrar viðræður hafa síðan átt sér stað milli forstöðumanns og fulltrúa rn., m. a. um skipun ritstjórnar. Þá hefur verið unnin nokkur undirbúningsvinna, en tveir laganemar hafa í haust unnið að því að færa inn lagabreytingar til undirbúnings efnisskrár.

Á fundi Lagastofnunar 25. sept. s. l. var síðan kosin ritnefnd lagasafns og ritstjóri. Voru kosnir í ritnefnd: Ármann Snævarr hæstaréttardómari, formaður, Björn Friðfinnsson fjármálastjóri og Sigurður Líndal prófessor. Ritstjóri var kosinn Björn Þ. Guðmundsson prófessor. Ráðuneytið hefur síðan staðfest tillögur Lagastofnunar um verkaskiptingu við útgáfu safnsins. Umsjónarmaður að hálfu rn. með allri útgáfunni er Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri.

Ég hef hér rakið nokkuð undirbúning að útgáfu nýs lagasafns, sem fallast má á að dregist hafi um of, en á því eru nokkrar skýringar, sem eigi skulu raktar hér.

Hvenær er þess þá að vænta, að nýtt lagasafn komi út? Ég hef lagt á það ríka áherslu, að útgáfan verði í svipuðu formi og undanfarið, en að nýtt verði sú prenttækni sem komið geti að haldi gagnvart síðari tíma. Á þessu stigi verður erfitt að segja til um útgáfutíma. Frágangur handrits til prentunar tekur nokkra mánuði. Óvarlegt er að ætla minna en eitt ár til bókagerðarvinnu. Nýs lagasafns er naumast að vænta fyrr en á árinu 1983. Má það eigi síðar verða, en þá verður núverandi lagasafn 10 ára gamalt. Á það mun ég þó leggja ríka áherslu, að allri vinnu verði hraðað svo sem verða má.