19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

95. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna þessari till., en ég hafði ekki reiknað með henni í umr. nú. Þetta er 23. mál á dagskránni og ég verð þrátt fyrir allt að átelja það — ekki hæstv. forseta, ég tek það skýrt fram — hve einkennilega menn standa hér að málum. Annaðhvort eru menn ekki tilbúnir með framsögu sína, þegar að málunum kemur, hafa ekki tíma til að sinna því að flytja framsögu fyrir þeim, eru þá komnir út og suður, og sýnir það ekki mikinn áhuga flm. fyrir sínum þáltill., eða þá að hæstv. ráðh. koma og biðja endilega um að mál séu ekki tekin fyrir nema þeir séu viðstaddir, og síðan sjást þeir ekki. Það er sannarlega ekki auðvelt fyrir hæstv. forseta að skipuleggja starf hér í Sþ. þegar að málum er staðið eins og við verðum vitni að núna — og reyndar ærið oft og allt of oft. Ég hlýt að beina því til hæstv. forseta, að hann geri a. m. k. tilraun, þótt ég viti að hann hafi oft gert það, eina tilraunina enn til að fá menn til að sýna örlítinn áhuga á sínum þáltill. þannig að þeir flytji framsögu fyrir þeim, og eins að þeir ráðh., sem hafa gífurlegan áhuga á að fylgjast með málum og halda að eitthvað komi við þeirra kaun kannske í sambandi við tillöguflutninginn, séu þá ekki roknir úr þingsalnum áður en nokkur veit af. En nóg um það.

Ég fullyrði að það mál, sem hér er til umr., er þarfasta mál sem þingið fjallar um nú. Það er því fyllsta ástæða til að taka undir með hv. 1. landsk. þm. að þakka hv. flm. fyrir þetta framtak og mjög vel unnið mál. Ég var að vitna hér í annan hv. þm. sem var að tala um það, að hér kæmu stundum varamenn inn sem væru hreinir vormenn, en aðrir væru eins konar fulltrúar haustsins eins og kom hér fram í umr. fyrir skömmu um aðra þáltill. En það er þó víst og satt, að hér kemur varamaður inn með mál sem er fullrar athygli vert og ástæða er til að fagna.

Við mig hafa talað menn sem eru þessum málum gjörkunnugir, m. a. menn úr Sjóslysanefnd. Þeir hafa rætt ýmis þau mál sem þeim þykir betur mega fara, sem eru allt of mörg, eins og reyndar kom fram í máli hv. 1. landsk. þm. sem hefur haft af þessum málum mikil og — þó að hann segist hafa talað mjög fyrir daufum eyrum — þrátt fyrir allt farsæl afskipti. Það, sem þessir menn minnast kannske hvað oftast á, er einmitt það atriði sem snertir hafnirnar. Ég er auðvitað viss um að það er misjafnlega vel að verki staðið um allan öryggisútbúnað og gæslu við hafnir landsins. En mörg hörmuleg dæmi, m. a. nýleg, sanna áþreifanlega og óþyrmilega að ekki er svo að þessum málum hugað sem vera skýldi. Og ég get tekið undir það, að ástand á ýmsum Austfjarðahöfnum er því miður alls ekki gott. Ég er hins vegar ekki dómbær um hafnir annars staðar eða hvort ástand þar sé lakara. En ástandið er ekki gott, það er hægt að taka undir það fyllilega.

Gæsla við hafnir landsins er áreiðanlega í lágmarki almennt, og þá komum við að Austfjörðum aftur. Eitt' hef ég oft undrast þegar svo mikill floti hefur legið þar inni við bryggju sem raun ber vitni, síldar- eða loðnuflotinn, og síðan fara menn í landi að hugsa til að græða svolítið á þessum loðnusjómönnum eða síldarsjómönnum og slá upp miklum dansleik, sem hefur vissar afleiðingar óhjákvæmilega. Menn fara síðan til skips að sjálfsögðu að lokinni skemmtan, og þrátt fyrir hin verstu skilyrði oft og tíðum og hin verstu veður held ég að það heyri til undantekninga að um nokkra gæslu sé að ræða við þessar hafnir. Eins fer ekki hjá því að maður undrast oft hve illa er staðið að sjálfsögðum öryggisbúnaði við hafnirnar. Frágangurinn við hafnirnar, á hafnarköntum. eins og hér var komið inn á, er líka allt of víða í lágmarki. Víða er þar um hörmulega vanrækslu að ræða, svo að í raun og veru er mesta furða að það skuli ekki verða miklu tíðari slys en raun ber vitni. Og vanræksla hafnaryfirvalda eða öllu heldur andvaraleysi, eflaust er þarna andvaraleysi fyrst og fremst, það vekur undrun mína. Ég nefni það aðeins hér sem eitt dæmi, án þess að vera nokkuð að fara nánar út í það, að eftir mjög hörmulegt dauðaslys í höfninni heima var mjög úr ýmsu bætt við þá höfn. Þó er ómögulegt að segja, þrátt fyrir þær umbætur sem þá urðu, að það sé neitt sérstaklega til fyrirmyndar. En til þess að þær úrbætur yrðu þó gerðar þurfti því miður slys til, hörmulegt dauðaslys.

Það er eflaust rétt, að eftirlitsaðilar og ýmsir hagsmunaaðilar í þessu efni tala oft fyrir daufum eyrum. En ég held líka að um þá aðila, sem eiga þarna að vera til eftirlits, megi segja að að einhverju leyti sé andvaraleysi þeirra um að kenna einnig. Vissulega koma svo inn fjárhagsleg atriði, við skulum ekki líta fram hjá því. Hér er um kostnaðarsamar aðgerðir að ræða og menn bera við peningaleysi, eins og reyndar hv. flm. kom inn á. Hafnarsjóðirnir hafa ekki efni á því að sjá um þennan útbúnað. Hafnarsjóðirnir hafa ekki efni á því að vera með þá gæslu sem þarf. Hafnarsjóðirnir geta ekki gengið almennilega frá hlutum. Það er líka hörmulegt að horfa upp á það, hvernig verktakar, t. d. Vita- og hafnamálastofnun, skilja oft við framkvæmdir að hausti við hafnir landsins. Það er hreint með ólíkindum hvað þar er oft illa skilið við og hvernig slysagildrur eru beinlínis búnar til af þessum verktökum. Um þetta þekkja ábyggilega allir hv. þm. fjöldamörg dæmi. Síðast í sumar, þegar ég kom á 2–3 staði á Austurlandi þar sem Hafnamálastofnun var með verk, blöskraði mér viðskilnaðurinn við verk. Öryggisbúnaður var enginn.

Menn áttu bara hreinlega að detta í sjóinn, án þess að ég sæi að nokkur leið væri að koma þessum mönnum skjótlega til bjargar. Þeir hafa sjálfsagt verið allvel syndir flestir sem þar unnu. Þó efa ég að svo hafi verið. Ég var sannast sagna ekkert óskaplega ánægður með það, þegar verkstjórinn teymdi mig fram á eina þessa bryggju. Mér fannst einhvern veginn að líf mitt væri í allmikilli hættu, enda er ég ekki vel syndur, og var vissulega ekki óhræddur um líf mitt meðan á þeirri skoðunarferð stóð. En að öllu gamni slepptu í þessu efni, enda er þetta ekki gamanmál, þá var öryggisútbúnaðurinn vegna manna, sem þarna unnu, aldeilis enginn. Og þegar ég spurði verkstjórann hvernig á þessu stæði, þá sagði hann: Ja, þeir bjarga sér nokk. — Ætli það sé ekki meginhugsunin einmitt að baki því andvaraleysi sem hefur verið um þetta allt saman? Jú, menn bjarga sér nokk, ætli það ekki? En stundum ekki, því miður.

Ég held því að það sé mjög þarft að hreyfa þessu máli hér. Bara það, að málið er komið hér á hreyfingu í Alþingi með þessum hætti, vekur menn áreiðanlega til einhverra dáða. Og nefndin, sem vonandi verður skipuð og fær þetta mál til meðferðar, mun einnig í störfum sínum ýta við mönnum svo að þeir herði róðurinn.

Ég vil svo að lokum taka undir með hv. 1. landsk. þm. Ég álít að þeir aðilar, sem hann nefndi hér til viðbótar í nefndina, séu sjálfsagðir.