19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

98. mál, almannavarnir

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég var ekki á nokkurn hátt að leggja þau orð í munn hv. 1. flm., að hann hefði verið á einn eða annan hátt að gagnrýna eða finna að því mikilsverða starfi sem unnið væri hér á landi af hinum ýmsu björgunarsveitum sem eru að langmestu leyti skipaðar sjálfboðaliðum. Hins vegar kom það fram í ræðu hv. þm., að hann hefði eitt sinn verið foringi í björgunarsveitinni í Reykjavík og þá skil ég af hverju hann er kominn núna í forystulið björgunarsveitar Sjálfstæðisflokksins.

Það, sem ég vildi í mínu máli aðallega benda á, er að sjálfsögðu það sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vesturl., þ. e. að við verðum að hafa í huga að mikið af starfi, sem að vísu kemur stjórnskipulega séð, ef ég mætti orða það þannig, undir hatt Almannavarna vegna þátttöku forstjóra viðkomandi stofnana í stjórnunarstörfum þar, mikið af þessu starfi er unnið innan viðkomandi stofnana, sem talað er um að samhæfa. Ég bendi, eins og hér hefur reyndar komið fram og ég endurtek, t. d. á fjarskiptin. Ég geri ráð fyrir að það, sem er til í dag, mætti jafnvel samhæfa enn betur og reka ódýrar en gert er. Að vísu er allt það, sem unnið er, afskaplega þýðingamikið. Og það hefur verið vel unnið og vel að því staðið. Ég bendi á það sem ég átti minn þátt í á sínum tíma að komst á, tilkynningarskyldu skipanna, sem er í höndum Slysavarnafélagsins. Hér hefur verið minnst á Flugmálastjórnina í sambandi við loftferðaeftirlitið eða við skulum segja heldur við leit og björgunarstarfsemi ef á þarf að halda. Landhelgisgæslan er með ákaflega fullkomið kerfi. Og svo er Veðurstofan. Það sem ég á við fyrst og fremst er það, að við förum ekki að setja upp eitthvað nýtt þegar við höfum þetta til. Ég vildi enn fremur draga það fram mjög sterklega, að ég hef lengi haft þá skoðun, að mikið af því, sem er unnið hjá Almannavörnum eða við vitum að við þurfum að láta vinna hér ú landi, finnst mér að eigi heima hjá Landhelgisgæslunni.

Landhelgisgæslan hefur núna um áratugaskeið ekki verið rekin sem einhver herskipadeild úr dómsmrn. aðeins til þess að gæta okkar fiskimiða. Landhelgisgæslan hefur verið alhliða hjálparstofnun ekki aðeins fyrir íbúa á þessu landi, heldur og þá starfsmenn íslenska ríkisins sem hafa verið að störfum í hundraða sjómílna fjarlægð. Bendi ég t. d. sjómenn á fiskiflotanum þegar þeir stunduðu veiðar á miðum við Jan Mayen og kannske enn fjær, þegar settar voru upp sjúkrastofur um borð í varðskipunum. m. a. til þess að þjóna þeim, en líka til þess að geta þjónað stöðum á landinu þar sem ekki varð náð til læknis á neinn hátt undir erfiðum kringumstæðum vegna veðurs og árstíma. Þá voru þessi skip og eru þannig búin að þau geta komið til bjargar, þótt við verðum að sjálfsögðu að hafa það í huga, að hraðinn verður ekki sá sami og ef um flugvél er að ræða. Og fleira og fleira getum við nefnt. Við getum nefnt þátt þeirra í margs konar hjálparstarfsemi, og á ég þá ekki við flutninga ráðh. né þingmanna milli kjördæma. (Gripið fram í: Eða rostunga til Grænlands.) Eða rostunga til Grænlands, jafnvel ekki þótt ákveðnir aðilar hefðu verið fluttir með. Hins vegar hefði ég talið alveg sjálfsagt, sem gert var, að hjálpa bændum þegar svo skyndileg ákoma verður í veðri eins og varð á Austurlandi — og Norðurlandi reyndar líkaþegar slátrun var að hefjast. Þá skilst mér að Landhelgisgæslan hafi einmitt hjálpað mörgum bóndanum frá mikilli neyð í sambandi við fé og fengum við að sjá það í fréttum sjónvarps. Það eru þessi atriði sem ég vil draga fram í sambandi við Landhelgisgæsluna.

Alþingi hefur ályktað að fela nefnd að vinna að því að styrkja stoðir Landhelgisgæslu Íslands og ég vil sérstaklega í sambandi við þetta mál árétta að það verði gert. Það eru mörg svið, ekki aðeins í öryggis- og björgunarmálum og slysavarnamálum. þar sem Landhelgisgæslan getur haft forustu og forgöngu í samráði við ágætan samstarfsaðila um áratugaskeið, Slysavarnafélag Íslands. Það er ekki aðeins að þeir geti verið þar að verki, heldur á fjölmörgum öðrum sviðum sem við þurfum að láta vinna að á næstu árum. Og við eigum þar hið ágætasta lið manna. Því miður hefur núv. hæstv. ríkisstj. ekki séð sér fært að halda þessum skipum öllum úti, þótt ég telji það nauðsynlegt, ekki síst ef á að fela þeim enn eitt verkefnið, að fylgjast með kjarnorkukafbátum í allri fiskveiðilögsögunni. Þá er ég hræddur um að það mætti fara að kaupa olíu til tveggja, þriggja skipa í viðbót.

Ég vildi aðeins vekja aftur athygli á þessum atriðum sem ég var með, ekki vegna þess að ég væri á móti því, að við endurskoðuðum lögin um Almannavarnir og eflum Almannavarnir á þeim sviðum sem ég tel nauðsynlegt að efla þær. Það er enginn vafi á því, að ágætur ungur maður, sem þar hefur verið við stjórn og í forustu fyrir þeim á undanförnum árum, hefur unnið hið ágætasta starf. Við þurfum að efla það starf — við þurfum fyrst og fremst að reyna að fá betri og meiri nýtingu út úr þeim ágætu stofnunum og samtökum sem við höfum í landinu, efla þær um leið og styrkja þeirra störf.