23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan fullvissa hæstv. forseta um að ég skal hafa mína aths. styttri en aths. hv. 11. þm. Reykv. var. Ég sé ekki ástæðu til að lengja frekar þessa umr. um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1982. Ég vildi aðeins segja hér fáein orð.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um það í sinni síðustu ræðu, að hann vildi auka innlendar lántökur til ríkisins og komast þannig hjá því að taka erlend lán. Ég er honum alveg sammála um það. Það er að sjálfsögðu rétt að reyna að afla meira innlends fjár eftir því sem þarf til hins opinbera, en þó verður að hafa í huga að þar eru líka atvinnuvegirnir að óska eftir fjármunum til sinna þarfa og það verður að fara að því með gát eins og öðru. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að hann fyrirhugar með þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ekki einungis að auka erlend lán, eins og ég hef áður bent á, heldur að stórauka lántökur til ríkisgeirans á innlendum lánsfjármarkaði. Hann hyggst auka spariskírteinasölu um 66% frá því sem er í ár með þessari lánsfjáráætlun, og hann hyggst lögþvinga lífeyrissjóðina til að auka skuldabréfakaup af opinberum aðilum um 60% frá því í fyrra. Til viðbótar þessu er um miklar erlendar lántökur að ræða, eins og ég vék hér að og hæstv. viðskrh. sagði að væru alvarlegt mál, á sama tíma,og gert er ráð fyrir svo miklum samdrætti í orkuframkvæmdum sem fjárfestingaráætlunin gerir ráð fyrir og ég rakti áðan.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið óþekkt fyrirbrigði áður að gera ráð fyrir því í fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun að spá fram í tímann um verðlagsforsendur. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Á síðasta ári stóð orðrétt í hans eigin fjárlagafrv. að um væri að ræða 42% verðlagsforsendur, og var þannig spáð um verðlag á árinu í ár. Þetta reyndist að vísu ekki fara nákvæmlega eftir, en oft hefur verið gerð verri spá en það. Þar var því um að ræða ákveðin markmið, spá um hvað gerast mundi miðað við efnahagsstefnu ríkisstj. Það var einmitt þetta sem ég var að vekja athygli á, að með reiknitölu hæstv. ráðh. er gefist upp á því að hafa einhver ákveðin efnahagamarkmið á næsta ári. Þetta var ég að gagnrýna.

Nú er vísað til þess í grg. fjárlagafrv., sem hefur sömu verðlagsforsendur og lánsfjáráætlunin, að það sé ekki hægt að spá með venjulegum hætti fyrir um verðlagsbreytingar, það sé eftir að semja á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta var að sjálfsögðu rétt þegar grg. frv. var samin. Nú hafa hins vegar tekist samningar sem áreiðanlega munu hafa mjög víðtæk áhrif á þróun kaupgjalds á árinu 1982. Ég vil að lokum benda hæstv. ráðh. á að í ljósi þeirrar staðreyndar finnst mér eðlilegt að fram fari athugun á því, að frv. til fjárl. og lánsfjáráætlun verði breytt í samræmi við sennilega þróun á þessum sviðum miðað við áform ríkisstj. og efnahagsstefnu á næsta ári. Það hlýtur alla vega að liggja miklu ljósar fyrir en áður hver verðlagsþróunin verður.