24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

328. mál, gjaldtaka tannlækna

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er skammt á milli stórra frétta af samningamálum við ýmsar launastéttir í landinu. Í hádeginu fréttum við að búið væri að semja við bókagerðarmenn, og nú skýrir formaður tryggingaráðs okkur frá því, að skammt sé í samninga við tannlækna. (StJ: Skammt kunni að vera.) Skammt kunni að vera í samninga við tannlækna. Ég vil af þessu gefna tilefni leita eftir nánari fregnum um það frá hv. formanni tryggingaráðs, hvort ekki megi ætla að tannlæknar fái svipaða hækkun grunnkaups og samið hefur verið um, þ. e. 3.25%, og hvort líkur séu til að þeir fái kauptryggingu lágmarkslauna, 5.214 kr., eins og aðrir launþegar.