02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

83. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. Ed. um frv. till. um breyt. á lögum nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis. Nefndin fjallaði um frv. á tveimur fundum og leggur eindregið til að það verði samþykkt óbreytt.

Rétt er að komi fram að þetta frv. fékk ítarlega umfjöllun í allshn. Ed. á síðasta þingi, en þá var það flutt af 1. flm. þess nú. Frv. var ekki afgreitt úr nefnd þá þar sem samkomulag var innan nefndarinnar um að láta það bíða og nota tímann milli þinga til að athuga betur þá þætti sem þóttu orka tvímælis eða athugasemdir höfðu verið gerðar við.

Við endurflutning frv. nú voru gerðar á því breytingar vegna þessara athugasemda og ábendinga sem fram komu ýmist skriflega eða munnlega í viðræðum við nefndina og voru taldar til bóta.

Þar er fyrst að nefna varðandi 1. gr. frv., að fellt var út atriðið um að ekki aðeins námsmenn erlendis skuli færðir af kjörskrá, heldur einnig aðrir Íslendingar sem um stundarsakir dveljast erlendis vegna starfa sinna. Það kom í ljós, að til þess að bæta úr þessu atriði þarf breytingu á 33. gr. stjórnarskrárinnar, en í upphafi þeirrar greinar stendur, með leyfi forseta: „Kosningarétt við kosningar til Alþingis hafa allir karlar sem konur, sem eru 20 ára eða eldri þegar kosning fer fram, hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga lögheimili hér á landi“. Til að veita þessum aðilum rétt til að kjósa þarf því að fella út „og eiga lögheimili hér á landi“. Það eru tilmæli nefndarinnar, að stjórnarskrárnefndin taki þetta atriði til umfjöllunar. Það hlýtur að vera réttlætismál að íslenskir ríkisborgarar fái að nota kosningarrétt sinn, ef þeir óska þess, þó að þeir dveljist tímabundið erlendis vegna starfa sinna.

Þegar ég mælti fyrir þessu frv. gat ég þeirra breytinga sem gerðar voru á því frá fyrra frv. Ég tel því ekki ástæðu til að fara nánar út í þær breytingar hér nú. En ég vil leggja áherslu á að 4. og 5. gr. frv. eru þýðingarmestu atriðin, að kosningar fari fram á laugardögum í stað á sunnudögum, eins og nú er, sem er samkv. 4. gr., og að notaðir verði stimplar við utankjörstaðarkosningu, sem er mikið réttlætismál gagnvart blindum og handarvana, sem eiga erfitt með að skrifa hjálparlaust. Það væri til sóma fyrir Alþingi að afgreiða þetta mál nú á ári fatlaðra.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt.