02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Steingrímnr Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend eingöngu upp til þess að lofa hv. 3. þm. Norðurl. e. því, að hann skal fá ítarlegar og sundurliðaðar upplýsingar um það, hvernig gengishagnaði var ráðstafað í jan. 1978. Það er hér í þskj. Það er misskilningur, vil ég bara segja á þessari stundu, hjá hv. þm., að þá hafi ekki verið um mikla millifærslu að ræða. Ég gerði grein fyrir þessu í ræðu við 1. umr. og gerði þá grein fyrir því, hve skuldin hjá frystideild Verðjöfnunarsjóðs var mikil og hafði þá reyndar fallið á ríkissjóð, verið greidd úr ríkissjóði, en var endurgreidd með upptöku gengishagnaðar. Sömuleiðis var greidd skuld hjá lýsis- og mjöldeild. En það er óþarfi að vera að þjarka um það hér. Ég skal fá þessar upplýsingar. Ég get gengið hér fram og náð í þær og kannske upplýst það þegar við 3. umr. um þetta mál.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. Það væri fróðlegt að koma inn á margt sem talað hefur verið um, niðúrtalningu og fleira. Niðurtalningin er náttúrlega ekki leiftursókn og það tekur nokkurn tíma að koma verðbólgunni niður, en á sama tíma er ætlast til að atvinnuvegirnir starfi.