17.12.1982
Neðri deild: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

103. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég efa ekki að hv. 4. þm. Suðurl. hefði gjarnan viljað kynna sér þetta mál ögn betur áður en hann sté í ræðupontu. Það liggur ljóst fyrir að ríkissaksóknari hefur árlega gefið út leiðbeiningar um upphæðir þeirra sekta sem hér er um að ræða. Þær voru í upphafi það rúmar, að það er mikill misskilningur að miðað hafi verið við upphæðina fulla, heldur hefur innan hennar á hverjum tíma verið hægt að hækka sig. Og ég sé ekki að það sé enn komið að efstu mörkum þeirrar upphæðar.

Ég er með hér í höndunum ljósrit af leiðbeiningum ríkissaksóknara til lögreglumanna og einnig til lögreglustjóra, þar sem farið er yfir brot á hinum ýmsu greinum umferðarlaga. Ég ætta ekki að dvelja lengi við þann lestur. En ef menn ætla í þessu sambandi að fara að skýla sér á bak við stórslys á vegum úti, þá er rétt að geta þess, að samkv. þessum heimildum, hefur fyrir árið 1981, frá 1. jan. verið gert ráð fyrir því að sé búnaði reiðhjóls áfátt sé sektin 70 kr. Það er hægt að fara yfir þessi atriði og lesa þennan lista allan upp, en mér sýnist að það hafi verið af þeirri hógværð tekið til upphæðanna að það sé langt í land til að nálgast það tak sem var í lögum.

Það má vel vera að menn vilji hafa fyrningar á verðbólgunni og hafa þetta allt mjög rýmilegt næstu árin fram í tímann. En þá hefði kannske verið öllu skynsamlegra hjá rn. að setja reglur, sem væru á þann veg, að sektarheimildirnar fylgdu verðbólgunni frá ári til árs, en ekki að rokið væri til að demba þessu inn í þingið undir fölskum forsendum, þ.e. mun meiri hækkanir en talað er um að eigi að gera. Ég tel það allvítavert athæfi, svo að ekki sé meira sagt, ef ekki má treysta grg. til að fara rétt með útreikninga á tölum sem notaðar eru í frv. Ég kann ekki við slík vinnubrögð. Af þeirri ástæðu taldi ég rétt að leiðrétta tölurnar, til þess að það kæmi alveg skýrt fram hvort tilgangurinn hefði verið að blekkja þm. eða hvort tilgangurinn hefði verið sá að hækka þetta samkv. verðlagsþróun.