17.12.1982
Efri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

55. mál, orlof

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 218 er frv. til l. um breyt. á lögum um orlof eftir meðferð málsins í Nd. Frv. gerir ráð fyrir að orlofstími sé lengdur frá því sem verið hefur, þannig að laugardagar séu ekki taldir með sem orlofsdagar eins og verið hefur til þessa, og gert er jafnframt ráð fyrir að orlof hækki sem þessu svarar úr 8.33% í 10.17%.

Frv. byggir á þeirri forsendu að orlof breytist með þessum hætti frá og með 1. des. s.l. þannig að við innheimtu orlofs fyrir desembermánuð, sem fer fram í kringum 10. jan., verði tekið tillit til þessara breytinga.

Jafnframt, herra forseti, vil ég leyfa mér að mæla fyrir, ef ekki koma fram aths., frv. til l. um breyt. á lögum um 40 stunda vinnuviku, sem er fylgifrv. frv. um orlof. Þar er gert ráð fyrir að í lögin um 40 stunda vinnuviku komi ný mgr. svohljóðandi:

„Frá og með árinu 1983 skal fyrsti mánudagur í ágúst vera frídagur og skal greiða laun fyrir þann dag samkv. sömu reglum og gilda í kjarasamningum um aðra almenna frídaga.“

Með þessum breytingum, sem hér er gerð tillaga um, er verið að koma til móts við þá sem minnstan hafa orlofsrétt, en verulegur hluti launamanna og þeir sem hafa hærri laun, þar á meðal opinberir starfsmenn, hafa þennan orlofsrétt nú þegar og raunar sumir mun hærri. Það eru dæmi til þess að opinberir starfsmenn, eftir líklega 10 ára starf eða 50 ára aldur, séu komnir með nokkuð yfir 13% orlof, þannig að hérna er auðvitað um að ræða viðleitni til þess að koma örlítið til móts við þá sem minnstan hafa réttinn á þessu sviði.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, svo mjög sem það hefur verið rætt á almennum vettvangi að undanförnu. Ég óska eftir að afgreiðslu þess ljúki í deildinni á þessu þingi og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.