18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

1. mál, fjárlög 1983

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, enda er búið að gera hér grein fyrir afstöðu Sjálfstfl., m.a. af meðnefndarmönnum mínum úr fjvn. Þar hefur verið sögð sú saga sem sönnust, er af þessari fjárlagagerð, sem ber feigð þessa efnahagskerfis í brjósti sér. Þó að fjárlagafrv. segi kannske nokkra sögu er hitt þó ekki minni athygli vert sem fjárlagafrv. segir ekki. Þar má t.d. greina hver staða hinna einstöku stofnana er orðin í þessu landi.

Eins og reyndar kom fram hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni hafa nú hlaðist upp skuldir hjá Rafmagnsveitu ríkisins, hjá Sementsverksmiðju ríkisins og hjá fleiri slíkum stofnunum, m.a. í eigu sveitarfélaga, og allt saman er þetta geymdur verðbólguvandi. En hins vegar er svo komið nú, að bankarnir eru farnir að stjórna í þessum málum. Það er t.d. athyglisvert að raforkutaxtar eru fyrir næsta ár áætlaðir verulega fram yfir verðbólgustig. Það sem þar liggur að baki er að sjálfsögðu að reyna nú að vinna upp hluta þess uppsafnaða vanda sem fyrir hendi er og kemur fram í gífurlegum rekstrarerfiðleikum þeirra fyrirtækja sem með raforkumál fara.

Ein meinsemdin og kannske ein mesta uppgjöfin í sambandi við orkukostnað, sem fram hefur komið hjá núv. ríkisstj., er hvernig farið hefur verið með orkujöfnunargjaldið, sem lagt var hér á. Ekki er það síður athyglisvert, að nú er svo komið að innlend orka, raforka í þessu landi, stenst ekki lengur verðsamanburð við innflutta orku. Þess vegna hefur nú verið tekið til þess ráðs að greiða niður raforku til húshitunar. Svona er nú komið fyrir rekstri orkuveranna og orkuveitnanna. Íslenska raforkan er ekki lengur orðin samkeppnisfær við erlenda innflutta orku.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur gert hér grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna til sveitarafvæðingar. Það má vera að ég hefi ekki tekið rétt eftir, en þær tölur, sem hann tilfærði og tillögur eru gerðar um, nægja ekki til að ná þeim árangri sem að er stefnt, heldur er líka gert ráð fyrir láni úr Byggðasjóði og reyndar mjög verulegu. Þess vegna er hér í raun fyrst og fremst um að ræða að ákveðin viðurkenning af hálfu ríkisvaldsins fáist í þá veru að þessum mikilvæga áfanga verði náð á næsta eða allra næstu árum.

Það er að sjálfsögðu kunnara en frá þurfi að segja að fjölmargar stofnanir sem tengdar eru rekstri ríkisins hafa við þessa fjárlagagerð ekki fengið það fjármagn sem þeim er lífsnauðsynlegt til síns rekstrar, þótt það sé að sjálfsögðu ætíð nokkuð umdeilanlegt, en mér sýnist þó að hlutur landbúnaðarins sé þar sérstaklega bágur. Það kom að vísu fram fyrir 3. umr. ofurlítil leiðrétting í þeim málaflokki, en engan veginn í samræmi við það sem þurft hefði. Það er eins og venjulega, að þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar og öll stóru orðin um nýjar búgreinar og um ný viðfangsefni í landbúnaði, sem þessi ríkisstj. m.a. hefur þrástagast á að væri hennar stefna að byggja upp, er alveg sérstaklega vegið að þeim viðfangsefnum. Mér telst svo til, að af hagræðingarfénu komi inn í þessi fjárlög um það bil 30% miðað við það sem ætti að vera ef jarðræktarlögin eins og frá þeim var gengið árið 1979 og um hefur verið samið væru gerð virk. Mér sýnist að til þess að svo verði vanti um það bil 10 millj. kr. og einungis séu til staðar til þessara verka í landbúnaði milli 3–4 millj. kr. Það er þá allur munurinn. Fari svo, að til þeirra ráða verði gripið að skerða framlög eins og gert var á s.l. vetri er þetta fjármagn ekki lengur fyrir hendi. Að þessu leyti er því gengið lengra í þá átt að skerða framlög til Framleiðnisjóðs en nokkru sinni hefur verið áður gert í tíð þessarar ríkisstj., og hefur mönnum þó fundist þar nóg að gert.

Menn, sem hafa talið sig bera hag landbúnaðar mikið fyrir brjósti, hafa haft um það oft og tíðum mörg orð hve mikilvægt væri að rekstrarvörur landbúnaðarins væru á sem bestum kjörum. Þýðingarmesta rekstrarvara í landbúnaði er tilbúinn áburður. Nú hefur það verið þannig um nokkurra ára skeið að allur rekstur Áburðarverksmiðjunnar hefur verið fjármagnaður í dollurum. Áburðarverksmiðjan selur eins og kunnugt er, sína framleiðslu á þremur mánuðum. Hina níu mánuðina og raunar lengri tíma þarf verksmiðjan að byggja rekstur sinn á lánsfé. Þetta lánsfé er allt í erlendri mynt.

Það vakti satt að segja nokkra undrun hjá mér þegar eftir því var leitað við mig að ég færi til fundar við landbrh. vegna vandamála Áburðarverksmiðju ríkisins. Þá var leitað enn einu sinni eftir þessum merku „samráðum við stjórnarandstöðuna“. Það var kannske ekki að tilefnislausu, því að einsog menn höfðu reyndar nokkra hugmynd um var hagur þessa fyrirtækis orðinn með þeim hætti að 100 millj. kr. höfðu safnast upp vegna gengistaps á síðustu árum. Nú var það viðfangsefni hæstv. landbrh., hæstv. fjmrh., hæstv. viðskrh. og allra bankastjóra Seðlabanka Íslands að ræða við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um þessi vandamál. Þá voru ráðagerðir að sjálfsögðu í þá veru að flytja þetta fjármagn inn í landið, fá Seðlabankann til að yfirtaka þessi vanskil, sem eru í erlendri mynt, og síðan væri hægt að taka upp þráðinn að nýju með því að halda áfram að reka verksmiðjuna á dollaraprís og byrja aftur að safna vanskilum. Þessi upphæð upp á 100 millj. kr. er eins há og allur sá kostnaður var sem bændurnir á þessu landi greiddu fyrir áburðinn sem þeir keyptu á árinu 1981. Nú er verið að tala um að færa þennan vanda, þessi vanskil, yfir í áburðarverðið, yfir í afurðaverðið, á næstu 3–5 árum. Þetta er eitt gleggsta dæmið um fjármálaóstjórnina í þessu landi og hvernig hin svokallaða niðurtalning hefur gersamlega mistekist.

Það er ástæðulaust að fara um það hér mörgum orðum eftir hverju var leitað við stjórnarandstöðuna í þessum viðræðum. Það var einungis að þegja yfir þessu máli, að láta sem minnst á því bera, leitað eftir samkomulagi um að þetta mætti fara inn í 6. gr. þannig að sem allra minnst yrði eftir því tekið. Á þessu byggðust óskir ráðh. og ríkisstj. um samráð við ríkisstj. Kannske gefur það nokkuð til kynna um að þessir menn eru ekki alveg samviskulausir. Þeir vita sem er að hér er á ferðinni köld jólakveðja, sem bændurnir verða varir við um þetta leyti, og það er þess vegna að sjálfsögðu best að hafa sem fæst orð og tala sem minnst um þessi mál.

Því get ég þessa hér, sem nú er ljóst, að ríkisstj. ætlar að ná þessari heimild fram. Hún ætlar svo að taka þetta lán svo að hún geti byrjað aftur að safna upp óreiðuskuldum með gengistapi í kringum Áburðarverksmiðju ríkisins, sem allir s já hvaða afleiðingar hafa í för með sér. Það er engan veginn víst að alþm. gefist kostur á að ræða um þetta mál síðar í vetur þó að þess væri full þörf.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti. Ég hef dregið hér upp nokkur dæmi um hvernig þetta fjárlagafrv. snertir fólkið í þessu landi og þá sérstaklega bændurna og dreifbýlisfólk. Að sjálfsögðu var ekki hægt að láta þessa umr. ganga svo fram að þau mál yrðu ekki nokkuð skýrð.