18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

1. mál, fjárlög 1983

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Á þskj. 238 hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjárlaga vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að í fjárlagafrv. eru framlög til hljómsveitarinnar skorin niður og er þessum niðurskurði aðallega beint að tónleikaferðum hljómsveitarinnar um landið.

Það var einmitt megintilgangurinn með setningu laganna um Sinfóníuhljómsveit Íslands í apríl 1981 að gera hljómsveitina meira að þjóðareign en verið hefur. Starfsemi hljómsveitarinnar hefur sýnt að sú stefna var rétt og landsbyggðin hefur tekið heimsóknum hennar vítt og breitt um landið með opnum örmum. Þetta hefur margsinnis komið fram í fréttum, bæði af heimsóknum á sjúkrahús, vinnustaði og til hinna einstöku byggðarlaga. Niðurskurður á framlögum til ferða út á land er því í beinni mótsögn við tilgang laganna. Í till. minni er lagt til að taka inn til hækkunar samtals 2 millj. 876 þús. kr. og er þar um að ræða 1 300 þús. vegna hækkunar á launalið og 1 576 þús. vegna annarra rekstrargjalda.

Ég vænti þess að þessi brtt. fái stuðning hv. alþm. og með því verði Sinfóníuhljómsveit Íslands gert kleift að framfylgja þeirri grundvallarstefnu laganna, sem stjórnin hefur sett sér, að færa hljómsveitina nær almenningi í landinu, m.a. með tónleikaferðum út á land, tónlistarkynningu í grunnskólum og heimsóknum á vinnustaði og sjúkrahús.