18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

1. mál, fjárlög 1983

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef hér mælt fyrir till. um sveitarafvæðingu sem ég flyt ásamt níu öðrum sjálfstæðismönnum. Ég stend hér upp að gefnu tilefni. Hv. 1. þm. Vesturl. vék að þessari till. og var að gera því skóna, að till. hefði verið óþörf, ef tekið hefði verið eftir till. frá meiri hl. fjvn. á þskj. 203, þar sem um er að ræða hækkun til sveitarafvæðingar.

Ég fagna því að meiri hl. fjvn. hefur lagt fram þessa till. En til þess að enginn misskilningur sé í þessu efni, þá vil ég aðeins upplýsa að till. okkar sjálfstæðismanna er um það að hækka framlag ríkisins úr 4.5 millj. í 22 millj., en till. meiri hl. fjvn. er um að hækka framlagið úr 4.5 millj. í 7.5 millj. Ef litið er á dæmið í heild og tekið tillit til þess að það er gert ráð fyrir lánsfjármagni einnig til sveitarafvæðingar, þá fól till. okkar sjálfstæðismanna það í sér, að samanlagt yrði varið 27 millj. kr. til sveitarafvæðingar á næsta ári, en till. meiri hl. fjvn. 20.5 millj. kr. Ég gef þessar upplýsingar af gefnu tilefni. Ég fagna þessari brtt. frá meiri hl. fjvn. og ég dreg ekki í efa að þar hafi komið til áhrif frá hinum ágætu framsóknarmönnum, sem bera fram till. til þál. um rafvæðingu í dreifbýli og ég vék áður að, en þetta þýðir samt ekki að framsóknarmenn standi enn jafnfætis okkur sjálfstæðismönnum í þessum efnum. Það má segja að þeir hafi núna tærnar þar sem við höfum hælana.