18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

1. mál, fjárlög 1983

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það var út af orðum hæstv. fjmrh.,þegar hann mælti fyrir brtt. ríkisstj. á þskj. 234, sem mig langaði til að eiga við hann örstutt orðaskipti, að sjálfsögðu mjög stutt þar sem komið er að lokum þingsins. En til þess að það geti orðið þætti mér betra ef forseti vildi gera ráðstafanir til þess að ráðh. kæmi hér inn, því að af ræðu hans gat ég ekki annað fundið en hann gerði sér ekki grein fyrir því nú, frekar en svo oft áður, hvaða lög giltu í landinu. Nema menn viti það og hugsi sér að sniðganga þau eins og þeim sýnist.

Ég var að segja, hæstv. fjmrh., að vegna þess sem kom fram í ræðu ráðh. hér áðan vildi ég aðeins eiga við hann orðaskipti. Mér virtist í ræðu ráðh. koma fram að hann vissi ekki hvaða lög giltu í landinu varðandi lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja því að hann ræddi um að menn væru þeirrar skoðunar, að fram hefði komið o.s.frv. En í lögum nr. 103 frá 1974 er skýrt tekið fram með hvaða hætti lántökur skuli eiga sér stað. Ég beitti mér fyrir því sem fjmrh. að þau lög væru sett og þetta atriði er skýrt tekið fram í 1. gr. þeirra laga. Fjárlög geta ekki breytt þeim lögum. Það er nokkuð ljóst. Ég held að það sé ekki að finna í neinni kennslubók í lögfræði eða nokkurs staðar í lögskýringu að fjárlög geti breytt sérstökum lögum.

Í 1. gr. laga nr. 103 frá 1974 stendur með leyfi forseta: „Ríkissjóði og stofnunum er greinir í A-hluta ríkisreiknings, sbr. 6. gr. laga nr. 52 frá 1966, er óheimilt að taka lán eða stofna til skulda erlendis nema til þess séu heimildir í sérstökum lögum.“ Svo heldur áfram: „Ennfremur er ríkissjóði og framangreindum stofnunum óheimilt að taka innlend lán eða stofna til skulda innanlands nema til þess séu heimildir í sérstökum lögum eða fjárlögum.“

Nú hefur því jafnvel verið haldið fram, að það sem ég las upp nú síðast geti tæplega staðist ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem getið er um lántökur ríkisins. Hins vegar eru skýringar í lögfræðiritum þess eðlis, að venja sé orðin fyrir því að ábyrgðir sem ríkissjóður veitir séu samþykktar í fjárlögum. Þegar þessi lög voru sett var komin á sú venja að innlendar lántökur væru heimilaðar í fjárlögum, enda við innlenda aðila að ræða þegar lántakan átti sér stað.

Ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram því að hæstv. ráðh. hafði ljósritað mikið af 6. gr. fjárlaganna, um heimildir til lántöku, sem hann ætlaði að útbýta meðal þm. til þess að þeir sæju hvernig þetta hefði gerst á undanförnum áratugum.

Lögin frá 1974 breyta því sem áður hafði verið. Þeim var ætlað að koma þessum málum þannig fyrir að eftir því væri farið og fjárlög, sem gerðu ráð fyrir erlendri lántöku til framkvæmda, væru ekki samþykkt öðruvísi en að lánsfjárlög hefðu verið samþykkt áður.

Þá vík ég að vinnubrögðum frá þessum tíma. Ef menn fletta upp A-deild Stjórnartíðindanna þá lesa þeir að lög nr. 92 frá 1974 eru lög um lántökuheimild vegna fjárlaga ársins 1975. Fjárlög ársins 1975 eru nr. 111. Þau eru því samþykkt síðar en lántökuheimildin sem þá var samþykkt. Ef við tökum árið 1975, fjárlög fyrir 1976, þá eru lögin um erlenda lántöku nr. 89, fjárlögin nr. 100. Það segir okkur að lánsfjárlögin voru samþykkt áður en fjárlögin voru samþykkt. Ef við tökum fjárlögin 1977, þá eru lög nr. 116 frá 1976 vegna erlendrar lántöku fyrir opinberar framkvæmdir. Lög nr. 121 eru svo fjárlög fyrir árið 1977. Það segir okkur að lánsfjárlög eru samþykkt áður en fjárlögin eru samþykkt. Ef við tökum fjárlögin fyrir árið 1978, þá eru lög um heimild til erlendrar lántöku nr. 82/1977, en fjárlögin 1978 eru lög nr. 86/1977.

Ég hef gert nokkuð svipað og hæstv. ráðh. Ég hef látið ljósrita hér þau lög sem nú gilda um lántöku ríkisins. Um leið og ég geng úr þessum ræðustól ætla ég að afhenda ráðh. eitt eintak. Svo geta fjölmiðlamenn að sjálfsögðu fengið ljósritin hér hjá mér, eins og þeir fá hjá ráðh. 1 jósrit í sambandi við fjárlögin á undanförnum áratugum.