18.12.1982
Sameinað þing: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

157. mál, frestun á fundum Alþingis

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Þegar hæstv. forsrh. talaði hér fyrir þáltill. áðan komst hann þannig að orði, að það væri engin þau vandamál við að glíma sem kölluðu á neinar ráðstafanir, nema ef vera kynni í sambandi við fiskverð. Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því í raun og veru hversu stór vandamálin eru sem nú er við að glíma og hv. 1. landsk. þm. réttilega vék að hér áðan. Mín skoðun er sú, að vandamálin séu svo hrikaleg að það sé algerlega óverjandi að Alþingi samþykki eins mánaðar orlof til sjálfs sín frá og með deginum í dag til 17. jan. Við stöndum frammi fyrir því, að fiskveiðiflotinn er rekinn með mörg hundruð millj. kr. halla, og þegar það er lagt saman og gert ráð fyrir því að þau lög sem falla úr gildi núna um áramót verði ekki framlengd, þá er um það að ræða að töluvert á annan milljarð skorti á að útgerðin verði rekin á núlli, sem er uppáhaldsreikniaðferð þeirra aðila sem nú halda um stjórnvölinn.

Ég held að vandinn sé svo mikill að það væri fullkomin ástæða fyrir Alþingi að koma hér saman strax eftir nýár til að fjalla um hvernig eigi að skapa grundvöll fyrir útgerðina. Fyrir einum sólarhring var verið að samþykkja lög um orlof. Í þeim útreikningum sem Þjóðhagsstofnun hefur gert er ekki gert ráð fyrir þeim aukaútgjöldum sem sú löggjöf hefur í för með sér. Í þeim útreikningum er ekki heldur gert ráð fyrir þeim vaxtagreiðslum, þeim fjármagnskostnaði sem leiðir af þeim lausaskuldum sem ríkisstj. hefur veríð keypt til að breyta af hálfu Seðlabankans með því að fallast á hækkun afurðalánavaxta og samþykkja þá vaxtabreytingu sem hér var til umr. á Alþingi fyrir nokkrum vikum. Með því að Seðlabankinn hefur sett ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar hefur hún samþykkt þá vaxtabreytingu — og bætt við, þ.e. hækkun vaxta á endurkeyptum afurðalánum um 4%, og þessar upphæðir hafa ekki verið með í myndinni.

En við skulum einnig skoða fiskvinnsluna. Við skulum átta okkur á því, að skreiðarframleiðslan frá árinu 1982 og að nokkru leyti árinu 1981 er óseld. Við skulum einnig gera okkur grein fyrir því hvernig það er hugsað í þjóðhagsspánni, hvernig það er áætlað í þjóðarframleiðslunni á næsta ári. Það er fjórðungur af botnfiskaflanum sem gert er ráð fyrir að fari til skreiðarframleiðslu á sama tíma sem við getum ekki selt framleiðsluna frá 1982 og höfum enn ekki selt framleiðsluna frá 1981. Það má bæta við fyrirspurn hv. 1. landsk. þm. til ríkisstj.: Hvað hyggst hún gera? Ætlast hún til þess að fiskframleiðendur hefji vertíðina á árinu 1983 án þess að hafa hugmynd um hvernig þeir eiga að losna við framleiðsluna frá árinu 1982? Láta menn sér ekki detta í hug að þeir sem róa vilji gjarnan vita hvernig þeir hugsa sér að koma aflanum, sem á land kemur, til viðskiptaaðila og með hvaða hætti þeir tel ji skynsamlegast að verka fiskinn samkvæmt því útliti sem er í sölu á sjávarafurðum? Hver fiskframleiðandi hlýtur að spyrja sjálfan sig og hann hlýtur að spyrja alþm., sem hann hittir í eins mánaðar jólafríi: Hvernig hyggist þið standa að þessu? Hvernig hyggist þið koma rekstrargrundvellinum undir útgerðina? Og með hvaða hætti hugsa menn sér að fiskframleiðslan verði seld úr landi?

Þegar Alþingi er að ljúka störfum fyrir jólaleyfi lesum við það í blöðum að ríkisstjórnir nágrannaþjóða okkar, samkeppnisaðila okkar í fiskframleiðslu, gera ýmislegt til að tryggja áframhaldandi útgerð og fiskvinnslu. Hér hjá okkur er ekki gert neitt. Jú, skuldum er breytt. Og til þess að fá skuldbreytingu verður ríkisstj. að kyngja öllu sem hún hefur sagt í sambandi við vaxtabreytinguna hér fyrir nokkrum vikum — og bæta á það, hækka afurðalánavextina úr 29% í 33%. Og þar er breytt hlutfalli hjá þeim sem róa í sambandi við smáfiskinn. Við getum vel gert okkur grein fyrir því hvað þar er verið að gera. Nýting smáfisksins til skreiðar, nýting hans til saltfiskframleiðslu, nýting hans í sambandi við hraðfrystihúsin er óhagkvæm. Þetta er langóhagkvæmasti fiskurinn sem á land kemur, svo að ekki sé minnst á hvað við erum að gera varðandi okkar fiskstofna.

Ég held að skynsamlegast væri eins og á stendur að þessi till. verði dregin til baka og fundum Alþingis frestað þar til fyrstu vikuna í janúar. Því að það er vissulega ástæða til að Alþingi komi þá þegar saman til að fjalla um þessi mál og reyna að finna lausn á þessum geysilega mikla vanda.

Ég held að útgerðin og fiskvinnslan geti komið til með að stórskaðast og ég held að ekki sé á það bætandi eins og það hefur verið.