18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl. ríkisstj. frá 21. ágúst s.l. Ríkisstj. hafði þá misst þingmeirihluta sinn í Nd. Frv. var ekki lagt fram á Alþingi fyrr en mánuði eftir að þing kom saman. Ástæðan fyrir þessu var ágreiningur innan ríkisstj. og meðal stuðningsmanna hennar um önnur mál, sem fylgja áttu þessum lögum, og þá fyrst og fremst um nýjan viðmiðunargrundvöll og verðbótatímabil þegar kaupgreiðsluvísitala er reiknuð. Um þetta mál er enn ágreiningur í ríkisstj. og svo mikill að óbrúanlegur sýnist. Á hinn bóginn hafa fulltrúar Framsfl. tekið skýrt fram að stuðningur þeirra við brbl., þ.e. þetta frv., sé bundinn því skilyrði að breytingar verði gerðar á útreikningi kaupgjaldsvísitölu. Einn þm. Alþb. hafði þann fyrirvara á stuðningi sínum við brbl., að frv. um lengingu orlofs næði fram að ganga. Það hefur nú gerst sem kunnugt er, en fulltrúi Framsfl. beittu sér mjög harkalega gegn því í nefnd að málið kæmi fram fyrr en nokkrum dögum fyrir jól. Alger óvissa hefur ríkt og ríkir enn um endanlega afstöðu stuðningsmanna ríkisstj. til þessa máls af framangreindum orsökum. Deilan um nýtt viðmiðunarkerfi, þegar verðbætur eru reiknaðar á laun, stendur enn og virðist þar um ósættanleg sjónarmið að ræða milli stjórnarflokkanna, Framsfl. og Alþb.

Ríkisstj. var fullkunnugt, þegar þessi brbl. voru gefin út, að hún hafði misst þingmeirihluta sinn í Nd. Samt greip hún til þess ráðs að gefa lögin út. Meginákvæði laganna er skerðing verðbóta á laun 1. des. Ekki verður séð að „brýna nauðsyn“ hafi borið til slíkrar löggjafar í ágúst, en ákvæði stjórnarskrárinnar um útgáfu brbl. eru skýr í þessu efni: Bera þarf brýna nauðsyn til útgáfu slíkra laga. Alþingi kemur venjulega saman 10. okt. og hefði því gefist nægur tími til aðgerða af þessu tagi, ef meiri hl. hefði verið til staðar á Alþingi til þess. Hér eru því á ferðinni vinnubrögð af hálfu ríkisstj. sem vega að sjálfu þingræðinu í landinu, enda blöskrar mörgum óbreyttum stuðningsmanni hennar á Alþingi þessi málsmeðferð og valdhroki.

Ríkisstj. hafði ekkert samráð við stjórnarandstöðuna um þessa lagasetningu, þótt fyrir lægi að staða hennar hefði veikst á Alþingi. Þingflokkur sjálfstæðismanna kom þá saman og mótmælti eindregið þessum vinnubrögðum. Hann krafðist þess að þing yrði kvatt saman. Þar yrðu brýnustu mál afgreidd, þing rofið og gengið til kosninga sem nú væri lokið fyrir alllöngu. Þá hefði gefist svigrúm til þess að breyta algerlega um stefnu og hefja það endurreisnarstarf sem þörf er á eftir fjögurra ára óstjórn í landinu.

Formaður Framsfl. hefur viðurkennt að þessi lýðræðislega krafa Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu var rétt. Með þessum hætti hefði mátt komast hjá þeirri algeru sjálfheldu og upplausn sem ríkt hefur í þingstörfum nú í haust, á sama tíma sem erfiðleikar hafa hrannast upp og hættuástand magnast í efnahagslífi þjóðarinnar. Það hlýtur að verða seinni tíma sagnfræðingum torráðin gáta hvernig það hefði mátt vera að ráðherrar sem keppast hver um annan þveran að lýsa því með sem allra sterkustum orðum hve ástandið sé orðið slæmt í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar hafa haldið sér svo fast í stólana sem raun ber vitni vitandi að þeir höfðu engan þingstyrk til þess að bregðast við vaxandi hættuástandi.

Fram hefur komið á fjárhags- og viðskiptanefndarfundum að þessi umdeildu brbl. hafa valdið færustu lögfræðingum miklum heilabrotum. Fyrir liggur álit prófessors Sigurðar Líndals um að óbreytt orðatag 1. gr. yrði ekki „skilið á annan veg en þann, að verðbótahækkanir skertust sem þessu næmi öll verðbótatímabil sem lögin héldu gildi.“ Þetta þýðir m.ö.o. að frv. óbreytt hefði falið í sér helmings skerðingu verðbóta öll verðbótatímabil sem þessi lög giltu.

Þá segir prófessor Sigurður Líndal um 2. gr. laganna, sem fjallar um greiðslu láglaunabóta: „Við ákvæðið er það helst að athuga, að þar er enga vísbendingu að finna um það, við hvað sé átt með orðinu „láglaunafólk“.“

Í þessu sambandi segir prófessor Sigurður Líndal um það valdaafsal Alþingis sem í brbl. er sett með þessum hætti: „Hitt er svo annað mál, að nauðsynlegt er að Alþingi taki til sérstakrar umfjöllunar stöðu sína gagnvart framkvæmdavaldinu og marki þar stefnu.“ Undir þessi orð vil ég svo sannarlega taka.

Eftir að brbl. voru sett hófu sérfræðingar ásamt stjórnskipuðum mönnum að skilgreina með ýmsum reikningsútfærslum hvað telja skuli „láglaunafólk“. Heita má að þeir hafi lagt nótt við dag við þetta verkefni. Alþingi átti ekki að koma þar nærri samkv. stefnu ríkisstj. Áður en þetta frv. var afgreitt úr nefnd tókst ekki að fá upplýsingar um endanlega útfærslu þessara skilgreininga. Nú hefur hluti þessara láglaunabóta, sem ákvarðaðar voru á framangreindan hátt, verið greiddur. Segja má að greiðslur þessara láglaunabóta hafi vakið sára gremju raunverulegs láglaunafólks, sem þekkir aðstæður allar, bæði sínar eigin og þeirra sem nær standa, og hefur ekki getað fengið neinn botn í hvernig þessar láglaunabætur koma niður.

Þá hafa komið upp mörg lögfræðileg álitamál um útreikning verðbótavísitölu frá þeim degi sem brbl. kynnu að falla á Alþingi.

Prófessor Sigurður Líndal segir það álit sitt í bréfi til fjh.- og viðskn., dags. 9. des. s.l., að hann telji að „kauplagsnefnd eigi þá að reikna út verðbætur á laun að nýju og birta tilkynningu þar að lútandi. Þær greiðist síðan launþegum frá þeim degi sem lögin ganga úr gildi“.

Fulltrúar Alþýðusambands Íslands, sem komu á fund n., tóku undir þessa skoðun prófessors Sigurðar Líndals.

Vinnuveitendasamband Íslands er á öndverðri skoðun. Í bréfi frá því til fjh.- og viðskn., dags. 29. nóv. s.l., segir:

„Af framanskráðu er ljóst, að samkv. ákvæðum gildandi laga hækka laun hinn 1. dag hvers verðbótatímabils um þann hundraðshluta, er kauplagsnefnd hefur reiknað út samkv. gildandi ákvæðum þar um. Launataxtar, þannig greiddir, gilda út allt verðbótatímabilið, og er sá hluti launa, er stafar af greiðslu verðbóta, þar ekki sérgreindur með neinum hætti.“

Um þetta efni segir svo í skriflegu svari forsrh. til fjh.og viðskn., en hann lagði fram þetta svar á fundi hinn 9. des. s.l.:

„Varðandi verðbætur frá falldegi laganna og til 28. febr., þá eru tvær skoðanir uppi.

Önnur er sú, að ákvörðun um verðbætur frá 1. des. 1982, sem gerð var í samræmi við þágildandi lög, gildi fyrir allt þriggja mánaða verðbótatímabilið og haldi því gildi sínu til febrúarloka 1983.

Hin skoðunin er sú, að frá falldegi laganna til febrúarloka eigi að greiða verðbætur án skerðingar samkv. 1. gr. brbl.

Ef til þess kæmi, sem ég tel harla ólíklegt, að brbl. yrðu felld, mundi þessi ágreiningur væntanlega ganga til úrskurðar kauplagsnefndar og dómstóla.“

Af þessu leiðir að ríkisstj. telur nú að komið geti til langvarandi málaferla út af falli brbl. á Alþingi, einmitt á tímabilinu 1. des. til 28. febr.

Ábyrgð á þeirri uppákomu verður að skrifa alfarið á reikning ríkisstj. Hún hundsaði kröfur sjálfstæðismanna um að Alþingi kæmi saman þá þegar eftir útgáfu laganna. Hún dró að leggja frv. fram vegna dellu stjórnarliða um brbl. og fylgifrv. þeirra. Sú deila stendur enn. Ef ríkisstj. knýr fram atkvgr. um frv. einmitt á þeim tíma, sem þessi réttaróvissa stendur yfir, eru úrslitin og afleiðingar þeirra á hennar ábyrgð.

Í fskj. með nál. okkar sem skipun minni hl. hv. fjh.og viðskn., okkar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, er rakin ítarlega þróun efnahagsmála í tíð vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar og núv. ríkisstj., sem hefur ekki síður fylgt blöndu af vinstri stefnu og algeru ráðleysi og stjórnleysi. Formaður þingflokks Alþb. hefur jafnvel hælst um og sagt að núv. ríkisstj. hafi tekið meira tillit til afstöðu Alþb. til atvinnu- og efnahagsmála en sú ríkisstj. sem var undir forsæti Ólafs Jóhannessonar og kallaði sig vinstri stjórn. (ÓRG: Það var árið 1981.) Árið 1981. Það er gott að hv. þm. staðfestir að hann sagði þetta. (ÓRG: Það var árið 1981.) Um árið 1981? (ÓRG: Já.) Nú já, en hefur stjórnarstefnan breyst síðan? Hefur aðild þm.ríkisstj. breyst síðan? (ÓRG: Nei.) Nei. (ÓRG: Þetta var stefna Alþb. á árinu 1981.) Það er gott að fá þetta allt saman upplýst.

Ég vísa til nál. okkar um þetta fróðlega yfirlit um þróun efnahagsmála á þessu tímabili, sem segja má að hafi verið tekið saman til þess að verða þeim sem síðar fjalla um efnahagsmál þjóðarinnar víti til varnaðar. Í þessari framsöguræðu mun ég fyrst og fremst víkja að efnahagsástandinu eins og það er nú og þeirri þróun sem varð á s.l. ári. Samt sem áður þykir mér rétt að rifja upp í örstuttu máli nokkur aðalatriði ytri aðstæðna þjóðarbúsins í tíð núv. ríkisstj.

Á árunum 1980 og 1981 var úr að spila mesta aflaverðmæti (reiknað á föstu verðlagi) sem um getur í sögu þjóðarinnar. Samt sem áður hafði þjóðarframleiðslan staðnað og lífskjör versnað á þessum metárum. Undir síðustu áramót var það deginum ljósara að efnahagsstefna ríkisstj. — m.a. röng gengisskráning ýtti mjög undir vaxandi viðskiptahalla og erlenda eyðsluskuldasöfnun, auk þess sem atvinnuvegunum var haldið á floti með síauknum lántökum. Verðbólga fór aftur vaxandi.

Ríkisstj. kaus þó að stinga höfðinu í sandinn. Eftir áramótin gaf hún út eina yfirlýsinguna enn í almennum stjórnarsáttmálastíl, en gerði síðan þær „ráðstafanir“ sem fólust í almennum skattahækkunum og auknum niðurgreiðslum sem áttu að lækka verðbætur um 6%.

Þessar svokölluðu efnahagsaðgerðir fengu háðulegar viðtökur. Forseti ASÍ nefndi þær „drullukökugerð“, en þm. yfirleitt „þorrabakka“. Öllum var ljóst að engin viðspyrna var í þessu káki, en sveitarstjórnarkosningar stóðu fyrir dyrum og kjarkurinn í stjórnarherbúðunum eftir því.

Fram eftir árinu lét ríkisstj. svo og einstakir ráðherrar sem nánast væri allt með felldu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Hæstv. fjmrh. hélt því fram m.a. í þessari hv. deild við umr. um lánsfjárlög á vordögum á s.l. ári, að erlendar skuldir þjóðarinnar væru alls ekki miklar. Nokkrum vikum síðar breyttist aldeilis tónninn í forráðamönnum ríkisstj. Þá skrifaði hæstv. fjmrh. í Þjóðviljann: „Við erum að sökkva í ískyggilega skuldasöfnun.“ Sumir ráðh. tóku svo djúpt í árinni, að nú væri skollin á „mesta efnahagskreppa á síðustu áratugum“.

Samt bólaði ekkert á efnahagsúrræðum. Gjaldeyrir var á útsölu, eyðsluskuldir hrönnuðust upp, atvinnuvegirnir að sökkva í skuldafen vegna tapreksturs, verðbólgan var á fleygiferð. Vikum og mánuðum saman stóðu yfir átök í ríkisstj. og munaði hársbreidd að hún hrökklaðist frá. Þá náðist samkomulag um útgáfu þessara brbl. 21. ágúst s.l., en þá hafði ríkisstj. misst þingmeirihluta sinn í Nd. eins og ég sagði áðan.

Í þessum brbl. felst fyrst og fremst tvennt, þegar frá er talin ráðstöfun á gengismun vegna gengisfellingar sem fylgdi þeim:

Í fyrsta lagi er um verðbótaskerðingu á laun að ræða, sem reyndist 7.71% hinn 1. des. s.l. Í öðru lagi er ákveðin hækkun á vörugjaldi um hvorki meira né minna en þriðjung, úr 24% í 32% og 30 í 40% á tímabilinu frá ágúst til 28. febr. í ár.

Þegar þessi verðbótaskerðing er meðtalin hafa verðbætur á laun verið skertar á öllum útreikningsdögunum fjórum á s.l. ári eða sem hér segir: 1. mars 2.19% vegna Ólafslaga, 1. júní 0.60% vegna Ólafslaga, 1. sept. 4.30% vegna Ólafslaga og samninga ASÍ (en þar var samið um 2.9% skerðingu), 1. des. 2.08% vegna Ólafslaga og 1. des. 7.71% vegna brbl. Samanlagt er þetta tæplega 17% skerðing verðbóta á árinu. Á máli Alþb., eins og það var hér fyrr meir, hefði því árið 1982 hlotið nafnbótina „kaupránsárið mikla“ eða því um líkt.

Vísitalan var greidd niður um 6% fyrri hluta ársins. Verðbætur voru skertar um 17% á árinu. Samt varð verðbólgan frá ársbyrjun til ársloka um 62% miðað við framfærsluvísitölu, en 64–65% miðað við byggingarvísitölu. Það má því með sanni segja að miklu hafi verið fórnað fyrir lítinn árangur. En kannske eigum við að taka þetta sem kennslu í niðurtalningunni góðu. — Ég horfi hér á hæstv. viðskrh.

Því hefur verið haldið fram, að þessar ráðstafanir í brbl. séu nánast alveg þær sömu og ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar gerði í febr. 1978, og hæstv. viðskrh. gerði það einmitt að umræðuefni við 1. umr. þessa máls. Þetta er alrangt. Þær ráðstafanir komu í kjölfar svonefndra „sólstöðusamninga“ á árinu 1977. Þá var grunnkaup hækkað um 28% í einu stökki. Auk þess var í gildi sérstakur verðbótaauki, sem fólst í því að mæla sérstaklega hækkanir sem urðu á verðbótatímabilinu. Nú koma þessar ráðstafanir í kjölfar sérstakrar 7% skerðingar 1. mars 1981, lítillar grunnkaupshækkunar á s.l. ári og þeirra verðbótaskerðinga, sem ég hef gert grein fyrir, á árinu 1982.

Þessar efnahagsráðstafanir eru auk þess gerólíkar að öðru leyti. Á árinu 1978 voru bætur almannatrygginga hækkaðar í þeim lögum, skattar voru lækkaðir og heimild til niðurskurðar ríkisútgjalda. Nú eru þvert á móti skattar hækkaðir. Engar heimildir eru til lækkunar á ríkisútgjöldum og engin ákvæði um hækkun bóta almannatrygginga.

Ráðstafanir 1978 vont samþykktar fyrir opnum tjöldum á Alþingi. Nú hefur ríkisstj. gefið út brbl. sem hún veit að njóta ekki fylgis meiri hl. manna í Nd. Þar er ólíku saman að jafna.

Afstaða verkalýðshreyfingarinnar er líka ólík því sem þá var gagnvart þessum ráðstöfunum. Efnt var til ólöglegra verkfalla og útflutningsbanna á árinu 1978, eins og menn muna. Áróðursbæklingar voru gefnir út um „kauprán“ þáv. ríkisstj. Á fjh.- og viðskn.- fundum var óskað eftir sýnishornum af gögnum Alþýðusambandsins frá þeim tíma. Þau bárust ekki af einhverjum ástæðum. Nú hefur mér skilist að einhver reiknimeistari hjá Alþýðusambandinu hafi komist að þeirri niðurstöðu að þessi lög, sem hér eru til umr., skerði kjör um nálægt 2.5%. Það væri ekki ófróðlegt að bera saman þá niðurstöðu og útreikningana 1978. Því miður virðist sem svo, að þessir útreikningar forráðamanna Alþýðusambandsins á því sem þeir nefndu „kauprán“ 1978 séu orðnir að einhvers konar feimnismáli.

Einn ráðh. í núv. ríkisstj. hefur sagt að það, sem einkennir störf hennar í stjórn efnahagsmála, sé: „of lítið — of seint“. Hvað sem því líður eru horfur á því, að það hættuástand, sem skollið er á í íslensku efnahagslífi, magnist með hverjum mánuði sem liður þrátt fyrir útgáfu þessara brbl.

Almennt má segja að sérfræðingar, almannasamtök og stofnanir séu sammála um að efnahagshorfur á árinu 1983 séu mjög að versna, og hefur þó ekki verið spáð góðu útliti t.d. í þjóðhagsspá ríkisstj. Einstakir ráðherrar og forustumenn stjórnarflokkanna hafa dregið upp dekkstar myndir af ástandinu. Alþb. telur t.d. ástæðu til þess að slá því upp sem kosningaprógrammi, að nú sé ástandið þannig að gera þurfi fjögurra ára neyðaráætlun eftir setu ráðherra þess í ríkisstj. jafnlangan tíma.

Óhætt er að fullyrða að hættuástand er skollið á í íslenskum efnahags- og atvinnumálum og það hættuástand magnast með hverri vikunni og mánuðinum sem líður. Ég vík nú í örstuttu máli að nokkrum mikilvægustu þáttum þess upplausnar- og hættuástands sem við horfumst í augu við.

Fyrsta og alvarlegasta einkenni hættuástandsins er að lítið dregur úr þeim ískyggilega viðskiptahalla sem varð í fyrra og greiðslubyrði erlendra lána mun aukast enn á þessu ári. Hún var þó ærin fyrir.

Á s.l. tveimur árum er áætlað að viðskiptahallinn við útlönd nemi nálægt 5 þús. millj. kr. á verðlagi s.l. árs. Það er upphæð sem nemur tæplega 17% af þjóðarframleiðslu þessa árs. Hallinn er talinn hafa verið í fyrra um eða yfir 11% og numið um það bil 3500 millj. kr. Öll kurl eru þó ekki komin til grafar í þessum efnum og er jafnvel búist við enn verri útkomu. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun spá 6% viðskiptahalla á yfirstandandi ári, sem jafngildir 2500 millj. kr. á áætluðu meðalgengi í ár.

Þessi spá er byggð á mjög bjartsýnum forsendum. Afli er talinn verða meiri en ýmsum þykir eðlilegt að spá. Þá er gert ráð fyrir verulegri sölu á birgðum úr landinu, m.a. skreið, sem því miður virðast litlar horfur á að geti ræst. Síðast en ekki síst er þessi spá miðuð við 8% samdrátt í fjárfestingu í landinu. Óhætt er að fullyrða að allar líkur bendi til þess að viðskiptahallinn verði mun meiri en þessar spár gefa til kynna að óbreyttri stefnu.

Eyðsluskuldir aukast að sama skapi og viðskiptahallanum nemur. Nettóskuldir þjóðarbúsins erlendis, sem voru 32% af þjóðarframleiðslu síðustu árin, en aðeins 9.9% á árinu 1966, áður en efnahagsáfallið 1967–1968 skall á, nálgast nú 50% af þjóðarframleiðslu.

Greiðslubyrði langra erlendra lána er talin verða 25% af útflutningstekjum á þessu ári, m.a. vegna óreiðu- og eyðslulána sem taka þarf til að fleyta atvinnuvegunum og jafna viðskiptahallann. Þetta má orða svo, að fjórði hver fiskur fari nú í greiðslur af erlendum lánum.

Til samanburðar má geta þess, að greiðslubyrði var 1978 13.3% af útflutningstekjum.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. segir svo um þetta efni:

„Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrðar af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum“.

Fjmrh. hefur orðað þetta svo, að við séum „óneitanlega að sökkva á kaf í ískyggilegri skuldasöfnun“. Óhætt er að taka undir þessa fullyrðingu hæstv. ráðh. Þetta er tvímælalaust mesta hættan í efnahagsmálum nú. Fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er í veði. Það fjármagn, sem tekið var að láni til að jafna greiðsluhallann vegna umframeyðslu, rennur ekki til uppbyggingar atvinnuveganna. Þessi skuldastaða í heild er orðin svo óhagstæð að svigrúm til erlendrar lántöku til uppbyggingar á næstu árum er nánast horfið. Þetta hefur að sjálfsögðu stórfellda hættu á atvinnuleysi í för með sér.

Annað einkenni hættuástandsins í efnahags- og atvinnumálum er skuldasöfnun og langvarandi taprekstur undirstöðuatvinnuveganna.

Í grg. með fjárlagafrumvörpum fyrir árin 1981, 1982 og 1983 hjá sjálfri hæstv. ríkisstj. er vikið að þessu. Þar er talað um „afar slæma afkomu“ eða „slaka afkomu atvinnuveganna“ þegar verið er að áætla tekjuskatt á félögum. Í yfirlýsingu ríkisstj., sem fylgdi þessum brbl., sem hér eru til umr., segir, með leyfi forseta:

„Sá vandi, sem við er að glíma, er djúpstæðari og umfangsmeiri en um langt skeið vegna þess að þjóðarbúið og atvinnuvegirnir eru vanbúin að mæta ytri áföllum.“

Þetta segir hæstv. ríkisstj. eftir mestu metár sem komið hafa yfir þjóðina í aflabrögðum.

Afli togaraflotans jókst úr 262 þús. tonna árið 1967 í 393 þús. tonn á árinu 1981 eða 50% á tímabilinu. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu á heildarafla togaraflotans var hagur hans verulega verri árið 1981 en hann var á árinu 1978. Þetta gerðist þótt meðalafli minni togara hafi aukist um 37% á úthaldsdag á þessu tímabili.

Afli bátaflotans nam árið 1978 209 þús. tonnum, en á árinu 1981 305 þús. tonnum. Aukning aflans nemur því 46%. Þrátt fyrir þessa gífurlegu aflaaukningu var hagur bátaflotans verulega lakari á árinu 1981 en á árinu 1978.

Á árinu 1982 var mikill taprekstur á öllum tegundum fiskveiða. Eftir 1. des. s.l. voru bátar og togarar reknir með svo gífurlegu tapi að það var talið nema 14–15% af tekjum þeirra. Eftir 14% fiskverðshækkun á dögunum, 10% gengisfellingu og hækkun olíustyrks úr 22% í 35% reiknar Þjóðhagsstofnun með því að taprekstur á fiskveiðiflotanum sé um 3% af tekjum.

Sömu sögu er að segja um aðalgrein fiskvinnslunnar á þessu tímabili, frystinguna. Mikil afla- og hráefnisaukning frá árinu 1978 hefur ekki haft í för með sér betri afkomu frystingarinnar, þvert á móti hefur afkoma hennar versnað mjög á þessu tímabili. Þótt afkoma hennar sé e.t.v. þolanleg vegna gífurlegs gengissigs og gengisfellinga undanfarið, þá er ljóst að tæpt er að endar nái þar saman, auk þess sem birgðaaukning á skreið er gífurlegt vandamál.

Það er til marks um erfiðleikana í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar að vanskil hafa aukist mjög að undanförnu. Hv. fjh.- og viðskn. fékk upplýsingar um vanskil í einum sjóði þegar hún fjallaði um þetta frv.

Þar er um að ræða Fiskveiðasjóð. Um miðjan nóv. voru fiskvinnslustöðvar í vanskilum við sjóðinn með 121 millj. kr. og fiskiskip með tæplega 400 millj. kr. Samtals voru vanskil þessara fiskvinnslustöðva og fiskiskipa yfir 500 millj. kr. í Fiskveiðasjóði um miðjan nóv. í fyrra. Þar af voru áfallnir vextir 200 millj. kr. Þetta er gott dæmi um hvernig staðið hefur verið að afkomuskilyrðum þessara mikilvægu undirstöðugreina undanfarin ár.

Í þjóðhagsáætlun ríkisstj. er að því vikið, að stefnan í gengismálum 1981 og framan af ári 1982 hafi bitnað mjög á afkomu útflutnings- og samkeppnisiðnaðar. Með því er beinlínis viðurkennt að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum hafi verið iðnaðinum í landinu þung í skauti. Það er jafnvel svo, að forustumenn stórra iðnfyrirtækja í eigu samvinnufélaga hafa sagt skýrt og greinilega að sum undangengin ár hafi verið verstu ár sem iðnaðurinn hafi átt við að búa um jafnvel áratuga skeið. Allt eru þetta skýr dæmi um afkomu atvinnuveganna undanfarin ár, enda á allra vitorði að skuldasöfnunin ein hefur haldið atvinnulífinu gangandi. Það er sláandi, að eftir allar „konverteringarnar“ eða skuldbreytingarnar að undanförnu eru ýmis útgerðarfyrirtæki nú þegar stöðvuð, en sjútvrh. hefur boðað brtt. við þetta frv. í sjónvarpi til þess að hlaupa þar undir bagga með sýndaraðgerðum, svo sem vikið verður að hér síðar. Öll þessi skuldasöfnun atvinnuveganna gengur auðvitað ekki til lengdar og hefur í för með sér gífurlegan fjármagnskostnað. Þessi þróun stefnir atvinnulífinu augljóslega í algera tvísýnu ef ekki er breytt um stefnu og svo fer fram sem nú horfir.

Þriðja hættueinkenni í íslenskum þjóðarbúskap er að heildarsparnaður hefur minnkað svo undanfarið að nálgast algert hrun.

Innlendur heildarsparnaður, sem var um það bil 25% af þjóðarframleiðslu fyrir tveimur árum, er nú að mati Seðlabankans kominn niður fyrir 19% á s.l. ári. Heildarsparnaður í þjóðfélaginu minnkaði verulega á árinu 1981 þótt peningalegur sparnaður hafi aukist á tímabili það ár einkum vegna innstreymis erlends fjármagns. Ástæðurnar fyrir því að heildarsparnaður minnkar svo mjög eru auðvitað þær, hvernig þrengir að atvinnuvegunum. Nú ríkir slík lánsfjárkreppa í viðskiptabönkum að þeir eru í um það bil 1100–1200 millj. yfirdrætti hjá Seðlabankanum, og hygg ég að sú tala sé ýkjulaus. Seðlar eru í rauninni prentaðir til að halda bankakerfinu á floti og atvinnuvegunum gangandi um stundarsakir.

Fjórða hættueinkennið í efnahagsmálum þjóðarinnar er að fjárfesting í atvinnuvegunum hefur dregist saman og framleiðni í atvinnuvegunum minnkað.

Verulegur samdráttur hefur átt sér stað í fjármunamyndun hjá atvinnuvegunum, ef frá er talinn fiskiskipaflotinn. Það er sérstaklega athyglisvert, að fjárfesting í fiskiskipastólnum er talin hafa aukist um 14% á s.l. ári. Á þessu eina sviði, þar sem segja má að aukin fjárfesting auki á vandann, hefur fjármunamyndun eflst. Á hinn bóginn er mestur samdráttur í stóriðnaði og stórum virkjunarframkvæmdum á s.l. ári. Magnsamdráttur á þessu sviði var áætlaður samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. um 43% og samdráttur í hitaveituframkvæmdum 31%. Það er sérstaklega alvarlegt, að auk minnkandi fjármunamyndunar í atvinnuvegunum hefur framleiðni minnkað.

Fimmta hættueinkenni í íslenskum efnahagsmálum er gífurleg þensla útgjalda ríkissjóðs og skattahækkanir. Skattar til ríkisins hafa hækkað í tíð núv. ríkisstj. um 3.1% af þjóðarframleiðslu, sem jafngildir 960 millj. kr. á verðlagi fjárlaga fyrir árið í ár, en sú upphæð nemur 28 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Ríkisútgjöldin hafa þanist enn meira út en sem nemur skattahækkuninni, þar sem framkvæmdaframlög og framlög til eignaauka hafa verið skorin verulega niður að raungildi.

Þrátt fyrir þetta væri ríkissjóður rekinn með stórfelldum halla ef eyðsluskuldasöfnun erlendis kæmi ekki til. Áætlað er að ríkissjóður hafi haft umframtekjur vegna óvenjulegrar innflutningseftirspurnar á árunum 1981 og 1982 sem nemur a.m.k. 800 millj. kr. Hér er um að ræða eina afleiðinguna af stefnunni í gengismálum. Þessi stefna í ríkisfjármálum dregur augljóslega úr svigrúmi ríkissjóðs til að hlaupa undir bagga með skattalækkunum á sama tíma sem samdráttur er og þverrandi lífskjör, nema til komi alger uppstokkun ríkisfjármála og gerbreytt stefna á þessu sviði.

Í þessu sambandi vek ég sérstaka athygli á því, að eitt mesta sjúkdómseinkenni í íslenskum efnahagsmálum, erlend eyðsluskuldasöfnun, er undirstaða þess, að ríkisfjármálin hafa verið í formlegu jafnvægi nú undanfarin ár. Það er því með sérstökum ólíkindum þegar hæstv. ríkisstj. hælir sér af þessari staðreynd.

Sjötta hættueinkenni efnahagsmálanna er stöðnun þjóðarframleiðslunnar í undanförnum góðærum, stórfelldur samdráttur þjóðartekna og skerðing kaupmáttar á s.l. ári.

Á síðustu árum hafa þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur staðnað þrátt fyrir metafla og stóraukna framleiðslu sjávarafurða. Kaupmáttur heimilanna hefur minnkað undanfarið, og í ár og næsta ár verður stórfelldur samdráttur í þjóðartekjum og lífskjörum samkv. opinberum spám. Þjóðhagsstofnun spáir nú 7% rýrnun á kaupmætti kauptaxta á þessu ári, 7% rýrnun á kaupmætti elli- og örorkulífeyris og 4.5% rýrnun á kaupmætti elli- og örorkulífeyris þeirra sem njóta tekjutryggingar.

Því miður er það svo, að þessar spár virðast jafnvel einum of bjartsýnar. Í þjóðhagsspá, sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur gert og barst fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar þegar hún fjallaði um þetta mál, segir svo um rýrnun þjóðartekna á næsta ári, með leyfi forseta:

„Má jafnvel færa fyrir því rök, að þjóðartekjur gætu rýrnað um allt að því 10% á næsta ári.“

Þessi spá er ískyggileg. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir samdrætti í þjóðartekjum sem nemur 3.3%. Ef þjóðartekjur mundu rýrna um 10% yrði lífskjaraskerðingin á yfirstandandi ári miklum mun verri en opinber þjóðhagsspá gerir ráð fyrir. Það er umhugsunarvert að slík lífskjaraskerðing skuli þurfa að eiga sér stað við þau skilyrði að framleiðsla sjávarafurða reiknuð á föstu verðlagi varð líklega svipuð í fyrra og árið 1979 og gert er ráð fyrir að þessi framleiðsla aukist heldur á þessu ári.

Sjöunda og síðasta einkenni hættuástandsins í íslenskum þjóðarbúskap, sem ég geri hér að umtalsefni, er verðbólgan margumtalaða.

Verðbólgan hefur stundum verið nefnd „krabbamein“í íslensku efnahagslífi. Hún stefnir nú í áður óþekktar hæðir. Á s.l. ári varð hún um 62% á mælikvarða framfærsluvísitölu, en 64–65% á mælikvarða byggingarvísitölu. Eftir fiskverðshækkun og gengisbreytingu gerir Þjóðhagsstofnun nú ráð fyrir 60– 65% verðbólgu frá upphafi til loka árs á yfirstandandi ári samkv. venjulegum framreikningi. Þetta er miklu meiri verðbólga en gert er ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar talaði opinberlega nýlega um að við værum komin á nýtt verðbólgustig, eins og hann orðaði það, sem væri á milli 60–80%.

Stjórnarsáttmáli núv. hæstv. ríkisstj. hófst á þessum orðum, og ég vitna beint í stjórnarsáttmálann með leyfi hæstv. forseta: „Meginverkefni ríkisstj. er að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.“ Í þessum sama stjórnarsáttmála segir einnig, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu, þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.“

Þetta stefnumark þýðir að á s.l. ári hefði verðbólgan hér á landi átt að vera nálægt 10%. Nú situr þessi sama ríkisstj. auðum höndum í 60–80% verðbólgu. Hún situr auðum höndum og horfir á þau sjö stórhættulegu sjúkdómseinkenni í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar magnast sem ég hef hér nefnt. Hún situr auðum höndum vitandi að stórfelld hætta er á fjöldaatvinnuleysi, ef haldið verður fram óbreyttri stjórnarstefnu eða stefnuleysi. Hún situr enn sem fastast vitandi að hún hefur ekki þingstyrk til þess að bregðast við þeim mikla vanda sem nú er á höndum þjóðarinnar. Sú ábyrgð, sem hæstv. ríkisstj. tekur á sig með þessu háttalagi, er svo þung að orð fá vart lýst. Mér kæmi ekki á óvart þótt lengi verði vitnað til þessarar þrásetu ríkisstj. við þessar aðstæður í íslenskri stjórnmálasögu og þá ekki til þess að finna fordæmi fyrir rismiklum lýðræðislegum vinnubrögðum.

Herra forseti. Skömmu fyrir jól var þetta frv. afgreitt frá hv. fjh.- og viðskn. Vegna anna þingsins kom það ekki til 2. umr. síðustu dagana fyrir jólaleyfi.

Enn hefur frv. til laga um nýtt verðbótakerfi launa ekki komið fram, sem er forsenda fyrir samþykki þessa máls samkv. yfirlýsingum hæstv. ráðh., m.a. Tómasar Árnasonar, hér í þessari hv. deild.

Láglaunabætur hafa verið greiddar að hluta samkv. þessu frv. Skilgreining á því hvað átt sé við með orðinu „láglaunafólk“ samkv. 2. gr. fékkst ekki í nefnd áður en málið var afgreitt. Nú hefur fyrsta greiðsla þessara bóta vakið undrun og gremju alls almennings, eins og ég sagði áðan.

Þá hefur það gerst, að hæstv. sjútvrh. hefur tilkynnt í fjölmiðlum að hann hyggist flytja brtt. við þetta frv. um ráðstöfun á gengismun samkv. 4. gr. frv. Þetta er í annað sinn sem hæstv. ráðh. boðar brtt. um ráðstöfun þessa fjármagns. Fyrri till. ráðh. var hafnað af meiri hl. n. Þessi síðari till. er sögð fram komin vegna þess að nú sé gengismunur áætlaður hærri fjárhæð en þegar brbl. voru gefin út.

Hvernig er þessi nýja fjárfúlga reiknuð út? Hver er í raun skilgreining á hugtakinu „láglaunafólk“? Hvernig hafa láglaunabæturnar komið út í raun og hvernig koma þær út í raun þegar síðari greiðslur fara fram? Hvað líður framgangi frv. um nýtt verðbótakerfi launa, sem er forsenda samþykktar stuðningsmanna ríkisstj. í Framsfl. við þetta mál ef marka má málflutning þeirra?

Þetta eru spurningar, herra forseti, sem hv. fjh.- og viðskn. og þessi hv. þd. eiga kröfu á að fá svör við áður en þetta umdeilda mál er afgreitt. Því vil ég óska eftir því við hæstv. forseta fyrir hönd þingflokks Sjálfstfl., að þessari umr. verði frestað að loknum framsöguræðum fyrir nál. og hv. fjh.- og viðskn. verði boðuð til fundar til frekari umfjöllunar um þessi atriði, sem ég nefndi hér áðan í tengslum við afgreiðslu þessa máls. Í því sambandi er rétt að minna á, að ríkisstj. lagði þetta frv. ekki fram vegna ágreinings fyrr en mánuður var liðinn af þingtímanum í haust. Síðan hafa ótal spurningar vaknað varðandi þetta frv., sem ég þarf ekki að tíunda hér á ný.

Miðað við allar aðstæður hefur þetta mál ekki tekið langan tíma í meðförum nefndar. Til samanburðar má geta þess, að brbl. sem gefin voru út á gamlársdag 1980 komu þegar fyrir þing að loknu jólaleyfi á árinu 1981 eða 27. jan. Það frv. var afgreitt eftir eins mánaðar umfjöllun í nefnd. Í þessu máli, sem hér er til umfjöllunar, hafa á hinn bóginn risið miklu fleiri ágreiningsatriði, m.a. milli aðila ríkisstj., um mál sem tengjast þessu frv. Stjórnarandstaðan hefur sett fram þá sjálfsögðu þingræðislegu kröfu að unnið verði að afgreiðslu þessa máls á þinglegan hátt og Alþingi ekki sniðgengið a.m.k. að því leyti. Nú er búið að misbjóða þingræðinu samt með allri málsmeðferðinni. Fyrrgreind krafa er því ítrekuð, herra forseti, enda þarf nánari umfjöllun í nefnd ekki að taka nema 1–2 daga eða jafnvel aðeins part úr degi. Ég vil í því sambandi vekja sérstaka athygli á því, að ef brtt. hæstv. sjútvrh. kemur fram síðar þarf þetta mál að ganga aftur til þessarar hv. deildar þannig að það sparast enginn tími á því að knýja það fram í deildinni nú.

Afstaða þingflokks sjálfstæðismanna til þessa frv. hefur verið skýr. Við teljum að í því felist tvöföld fórn, skattahækkun og kjaraskerðing, sem ekki skili meiri árangri en raun ber vitni. Þrátt fyrir brbl. er verðbólgan á bilinu 60–70%, greiðslubyrði erlendra lána vaxandi, viðskiptahalli og eyðslulántökur erlendis geigvænleg og vaxa svo mjög að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar er hætt. Gífurlegur hallarekstur er á atvinnuvegunum, sem haldið er á floti með lántökum á lántökur ofan. Peningakerfi þjóðarinnar er í rúst og fjárskortur atvinnuveganna stendur þeim algerlega fyrir þrifum. Allt þetta býður heim hættu á fjöldaatvinnuleysi.

Þessar beinhörðu staðreyndir dæma þessar svonefndu efnahagsráðstafanir algerlega haldlausar. Þrátt fyrir miklar fórnir almennings er ástandið eins og að framan er lýst. Auk þess torvelda þessar óréttlátu og haldlausu efnahagsráðstafanir fremur en hitt þá grundvallarstefnubreytingu í heild í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar sem þörf er á. Afstaða okkar sjálfstæðismanna til þessara brbl. er því ljós. Við erum einfaldlega algerlega á móti stefnu eða stefnuleysi ríkisstj. Við viljum að hún segi af sér og ný endurreisnarstefna verði tekin upp af nýrri og sterkri ríkisstj.

Nú þegar æðsta stofnun þjóðarinnar er að taka afstöðu til þessa máls er búið að grípa til annarra aðgerða, sem þó eru ekki til meira gagns en svo, að boðuð er brtt. við þetta frv. til að bjarga nokkrum atvinnufyrirtækjum sem hafa stöðvast. Margt í þessum brbl. er nú orðinn hlutur. Við sjálfstæðismenn mótmælum því að alþm. í stjórnarandstöðu sé þannig stillt upp að vegg af ríkisstj. sem ekki hefur starfhæfan þingmeirihluta. Áður en lengra er haldið vil ég, herra forseti, ljúka máli mínu með þeirri þinglegu kröfu að mál þetta komi fyrir hv. fjh.- og viðskn. með þeim rökum sem ég hef áður nefnt, enda lít ég svo á að slíkt tefji í engu endanlega afgreiðslu málsins hér á hinu háa Alþingi.