18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Vegna þess að það hefur komið til tals hér í umræðum manna að sjútvrh. gat ekki komið því við að sækja fund í fjh.og viðskn., þá vil ég aðeins árétta það, sem raunar hefur komið hér fram áður, að hann var á fundi í framkvæmdastjórn Framsfl., sem var ákveðinn kl. 4, stjórnaði þar fundi út af þýðingarmiklu máli og gat að sjálfsögðu ekki vikið þaðan. Síðan eru umr. um frv., sem hann talaði fyrir eins og hv. þdm. vita, í Nd. Ég held að það sé nú ekki forsvaranlegt að óska eftir því, ekki eðlilegt að ætlast til þess að hæstv. ráðh. geti vikið þaðan. Ég heyrði ekki betur áðan en það væri verið að deila á hann og ríkisstj. Hann verður náttúrlega að vera til andsvara í Nd. og þess vegna var ekki eðlilegt að hann gæti vikið þaðan til þess að mæta annars staðar á meðan málið var til umr. þar.

Ég hef tilhneigingu til þess, eftir að þær upplýsingar hafa komið fram sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan, að beina því til sjálfstæðismanna að þeir standi við það samkomulag sem gert var í gær með hefðbundnum hætti. Það er afskaplega nauðsynlegt að mínu mati að þegar samkomulag er gert um meðferð mála, eins og hér hefur verið gert, þá sé staðið við það, þó að ég geti skilið það að þeir óski eftir upplýsingum. Þeir hafa fengið nokkrar upplýsingar um málið. Það er ekki ennþá á því stigi að ráðh. sé fær um að gera tillögur, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. Eftir þessar upplýsingar finnst mér eðlilegt að beina því til hv. þm. Sjálfstfl. að áfram verði haldið með málið eins og um var samið og talað hér í gær.