18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hann gerði hér hlé á fundum til þess að gera það kleift að fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar kæmi saman til að fjalla um þau atriði, sem ég benti á að væru lausir endar í, og raunar miklu fleiri en þau atriði sem ég minnti hér á áðan. Ég vil vekja athygli á því, að það er rekið mjög hart eftir því að þetta mál verði afgreitt frá hv. deild í dag, og um það var gert samkomulag að mér skilst. Við það samkomulag stöndum við sjálfstæðismenn eins og jafnan þegar við gerum slíkt. En á sama tíma er bæði tilkynnt í fjölmiðlum og af hæstv. forsrh. hér að til umræðu sé í ríkisstj. að gera brtt. við þetta frv. allveigamikla brtt., og það eigi fyrst að gera í Nd. Á þessu vakti ég athygli, að við mundum ekki vinna neinn tíma á þessu offorsi hér. Það væri miklu skynsamlegra að athuga þá þessa till. í n. Auk þess hefur verið viðurkennt hér beint og óbeint að önnur atriði, eins og t.d. skilgreining þessara laga á því hvað skuli teljast láglaunafólk, eru algerlega óupplýst í þessari deild, hvernig þetta sé skilgreint í framkvæmd. Það hefur orðið samkomulag um að við fylgjumst með því máli í Nd. Það verður sjálfsagt rætt þar.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál. Ég ætla aðeins að ítreka þá afstöðu okkar sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu að við höfum verið andvígir þessu máli frá upphafi. Við teljum þessar ráðstafanir haldlitlar eða haldlausar. Við teljum að það þurfi að taka hér upp alveg gerbreytta stefnu, nýja efnahagsstefnu til endurreisnar atvinnu- og efnahagslífinu. Við erum sérstaklega andvíg því að leggja nýja skatta á um leið og slík löggjöf um kjaraskerðingu er sett. Við teljum að ríkissjóður eigi að ganga á undan og herða sultarólina ekkert síður en almenningur þegar þannig er ástatt í þjóðfélaginu eins og nú.

Við höfum verið algerlega andvíg þessum málatilbúnaði öllum og gagnrýnt hann á marga lund. Mér finnst þessi vinnubrögð — eins og fram hefur komið hér í dag — mjög svo óþingleg. Afstaða okkar hefur verið skýr. Við munum greiða atkv. gegn 1. gr. frv. og vörugjaldinu. Það stendur svo á, að mér skilst, þar eð ýmsir þm. eru fjarverandi, að svo getur farið að við þurfum að greiða atkv. gegn fleiri greinum af tæknilegum ástæðum. Það er þetta tvennt, sem ég vil sérstaklega taka fram að við munum öll greiða atkv. gegn, og gegn frv. við lokaafgreiðslu þess.