19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

Um þingsköp

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hélt nú að þessi fundur ætlaði að snúast upp í það að verða upplýsandi, þegar hæstv. sjútvrh. kvaddi sér hljóðs, vegna þess að hann ætlaði að gera grein fyrir ráðstöfun á gengishagnaði af vöru, sem ekki er seld, liggur á dýrum vöxtum, með miklum geymslukostnaði o.s.frv. Ég get ekki séð annað en eigendur útflutningsafurða þurfi á öllum gengishagnaði að halda, ef svo má segja, til þess að standa undir þeim kvöðum sem þegar hafa hlaðist á vöruna, sem enn er óseld. En hæstv. ráðh. gefur þessar skýringar þegar hann álítur rétta tímann til kominn.

En það er eitt sem ég hjó eftir hér í þessum umr. og kom fram hjá hv. 3. þm. Vestf. Það náðist samkomulag með forsetum og forustumönnum þingflokkanna um frestun á því máli sem farið er fram á að fresta til mánudags. Og ef það er rétt, ég var ekki á þessum fundi, þá vil ég með leyfi forseta lesa hér upp úr 44. gr. þingskapa Alþingis. Þar segir: „Ef farið er fram á að mál sé látið ganga út af dagskránni skal afhenda forseta kröfuna um það samdægurs og dagskráin er ákveðin.“ Ég sé ekki að þar hafi þingsköp verið brotin. En síðan segir áfram neðar á þessari sömu síðu: „Þegar dagskrá er eigi ákveðin eftir ályktun deildarinnar getur forseti breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá.“ Eftir því sem mér skilst, þá er ekkert í þingsköpum um að neinn annar aðili geti breytt þessari ákvörðun eða samþykkt forseta. Ég lít því svo á, meðan ég hef ekki frekari upplýsingar um málið, að forseti sé búinn að samþykkja þá frestun sem farið hefur verið fram á.