20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

75. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara efnislega að bera saman þessar tillögur, sem mér skilst að séu raunar báðar hér til umr., ef ég hef skilið það rétt, vegna þess að þetta eru í raun og veru tillögur sem hafa verið hér til umr. undanfarin nokkuð mörg ár. Það má þó segja, að sú till. sem hæstv. landbrh. talaði fyrir áðan hafi verið endurskoðuð fyrri till., sem hv. þm. Egill Jónsson hér talaði fyrir, þannig að till. sem ráðh. talaði fyrir er miðuð við þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum að mestu leyti í staðinn fyrir að hin till. er flutt nokkurn veginn lítið breytt frá því að hún var í fyrstu flutt. Það er munurinn.

Ég skil ekki almennilega hinn voðalega ágreining, um hvað þeir hv. þm. Egill og hæstv. landbrh. geta deilt, að öðru leyti en að það má segja að till. þeirra sjálfstæðismanna sé orðin að vissu leyti dálítið úrelt miðað við þróun tímans. Það er munurinn.

Það var annað sem var dálítið athyglisvert og þess vegna bað ég um orðið. Það var ræða hv. 6. þm. Norðurl. e. Árna Gunnarssonar. Það er verst að hann er ekki hér staddur. Þegar ég hlustaði á hans ræðu fannst mér þar ákaflega líkur málflutningur og ég hef haldið fram á undanförnum árum. Hvað hefur komið fyrir kratana? (HS: Hann er í kjördæminu hjá þér.) Að bera saman þessa ræðu hans og þær ræður sem hans flokksbræður hafa flutt hér er náttúrlega allt annað. Það er eins og Árni hafi komið endurfæddur frá öðrum hnetti inn í þann flokk. Hins vegar má segja það, að þegar hann er búinn að tala um markmiðin, sem eru alveg þau sömu og við höfum haldið fram, þ.e. annars vegar að halda byggðinni, að bændurnir haldi svipuðum tekjum og aðrir þegnar þjóðfélagsins, — þegar hann er búinn að undirstrika þessi áhersluatriði og fer svo aftur á móti að ræða um hvernig eigi að nálgast þessi markmið, þá er annað mál. Þá er það kannske vegna þess að hann þekkir ekki nægilega til.

Hann telur t.d. að það sé til þess að ná slíku marki, þ.e. að halda byggðinni, halda tekjunum, mögulegt eins og sakir standa að draga t.d. úr útflutningstryggingunni.

Það verður að minna hv. þm. á hvernig þessi útflutningstrygging er til komin. Hún er komin til vegna samninga á milli ríkisvaldsins og bændasamtakanna. Áður máttu bændasamtökin hækka verðið til að ná jafnaðarverðinu upp, til þess að bændur héldu tekjum sínum, þ. e. að útsöluverðið á landbúnaðarvörum varð hér þeim mun hærra til neytendanna til þess að bændur næðu sínum tekjum. Það var horfið frá þessu og útflutningstryggingin var tekin upp í staðinn.

Eins og háttar tíðarfari í okkar landi er vandséð hvort það sé skynsamlegt og það muni ganga, ef við ætlum að vera sjálfum okkur nægir með framleiðslu á landbúnaðarvörum, hvort við verðum ekki að hafa það svigrúm sem einmitt útflutningstryggingin býður upp á, því að annað slagið í hörðu árferði dettur framleiðslan niður eins og dæmin sanna.

Menn ættu að fara að kryfja þessi mál til mergjar, hvað er skynsamlegt í þessum efnum: Er t.d. skynsamlegt að halda 85% borgarfólks í atvinnu til þess að gera ekki neitt ef það vantar atvinnu annars vegar? Er ekki skynsamlegra að borga eitthvað til þess að fólk hafi fulla atvinnu og framleiða þá verðmæti? — Og það er, alveg eins og hv. þm. Árni Gunnarsson sagði áðan, dapurlegt að hugsa um það, að á sama tíma sem milljónirnar svelta allt í kringum okkur skuli samt þurfa að koma til þeirra framleiðslutakmarkana að það verði í raun og veru að hindra menn í að framleiða matvæli. Það er dapurlegt og það sýnir það í sjálfu sér hvað veröldinni er vitlaust stjórnað.

Ég vil endurtaka það, að mér fannst þessi ræða hv. þm. Árna Gunnarssonar athyglisverð vegna þess að það er allt annað hljóð sem kemur þar frá honum en hans flokksmönnum. Hann er í sjálfu sér kominn á þá línu sem við erum á, en það sem okkur greinir kannske á um er hvernig eigi að ná þessum markmiðum. Það verður að segja, að á þessum liðnu árum, sem þessum framleiðslutakmörkunum hefur verið beitt, höfum við ekki snúist við þessum málum dreifbýlisins, eða strjálbýlisins réttara sagt, eins og við hefðum átt að gera og hefðum þurft að gera, en það hefur ekki verið staðið við það að útvega það fjármagn sem um var samið, þ.e. að samkv. jarðræktarlögunum áttu bændur, til þess að breyta um sína framleiðslu, að fá nokkuð miklu meira fjármagn en hefur tekist að útvega á þessum árum. Það harma ég, því hvort sem menn trúa því eða ekki t.d. í sambandi við loðdýraræktina, að hún muni verða bjargvættur strjálbýlisins, þá er það tilraun sem margir fróðir menn telja að sé bjart yfir, jafnvel þó að við getum búist við að verðið sé misjafnt frá einum tíma til annars. En hvaða framleiðsla er það sem býr ekki við slíkt öryggisleysi? Það sjáum við t.d. á stóriðjunni. Það er fleira en framleiðsla í landbúnaði sem býr við slíkt öryggisleysi.

Hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan ræddi um milliliðakostnað og ég gat ekki betur heyrt á honum en hann teldi að milliliðakostnaður væri það sem væri milli þess sem bændur fá fyrir sínar afurðir og þess sem verðið er svo til neytenda + niðurgreiðslur, þ. e. sláturkostnaður, vinnsla og allt sem lýtur að því að gera þessa vöru verðmætari og seljanlegri milli framleiðandans og neytandans. Þetta er ekki rétt hugsun, ef ég hef skilið þm. rétt. Milliliðakostnaðurinn er náttúrlega ekki slátrunarkostnaður, það er ekki vinnsla. Hitt er rétt, að eins og við höfum byggt upp þetta sölukerfi okkar fá allir sitt og ef ekki næst fullt verð lendir það á bændunum.

En ég vil bara minna á hvernig þetta var áður en Osta- og smjörsalan var hér byggð. Þá þurftu mjólkursamlögin úti á landi að borga heildsalanum 10–12% fyrir að selja vöruna hér, en hvað er það sem Osta- og smjörsalan hefur tekið til sín, en fyrirtækið er eign mjólkursamlaganna, er raunverulega eign framleiðendanna? Það er ekki nema'/a af þeim kostnaði sem áður var sem nú er á dreifingu og sölu þessara afurða. Það er þetta sem hefur áunnist vegna þess að fyrirtækið er í höndum bændanna sjálfra eða fulltrúa þeirra.

Hv. þm. Helgi Seljan var að tala um auðvaldskreppu, sem hrjáði heiminn. Ég held nú að þessi kreppa nái yfir alla jarðarkringluna, hún nái nú líka til þeirra fyrir austan, ég veit ekki betur, þannig að því miður virðist þetta vera viðskiptakreppa sem er að skella yfir öll lönd, kannske misjafnlega fljótt og misjafnlega mikið, en ég hygg, eftir því sem ég hef séð, að þjóðir austan járntjalds séu alls ekki betur settar að þessu leyti en fyrir vestan línuna.

Ég ætla ekki að ræða efnislega þessar till., það hefur verið gert oft áður, en ég vil leggja áherslu á að á þeim markmiðum að halda byggðinni, þeir sem í strjálbýlinu búa hafi sambærilegar tekjur við aðra í landinu, sé tekið í samræmi við þessa stefnumörkun. En það er ekki nóg að flytja þáltill. Það er ekki nóg að Alþingi samþykki stefnumörkun ef henni er ekki fylgt eftir. Það er ekki nóg að setja lög á Alþingi, eins og jarðræktarlögin, ef síðan er ekki farið eftir þeim lögum. Þess vegna eru það raunar gleðitíðindi að menn úr öllum stjórnmálaflokkum, sem hér hafa talað, virðast vera sammála um að það eigi að standa þannig að málum að byggðin haldist, að þeir sem í strjálbýli búa eigi rétt á að hafa svipaðar tekjur og aðrir. En þá þurfa líka að fylgja þessum orðum athafnir. Því miður hefur það ekki fylgt á undanförnum árum. Ég vona, og þá er það sögulegur atburður í sambandi við þessa umr., að nú fari menn að athuga það allir, líka Alþfl., hvernig hægt sé að standa þannig að málum að þessum markmiðum verði náð.