27.10.1982
Efri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

41. mál, fóstureyðingar

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um það frv. sem er hér til umr. og felur í sér verulega þrengingu á heimild til fóstureyðinga. Hv. 1. flm. bauð mér að gerast meðflm. sinn að þessu frv. Ég afþakkaði reyndar það góða boð, gerði það sumpart vegna þess að ég tel mig ekki nógu kunnugan þessum málum, hafði ekki fyrir fram kynnt mér nægjanlega vel ástandið í þessum málum og hverjar aðstæður geta legið að baki.

Mér er hins vegar ljóst, þegar ég les þetta frv. og af því sem ég hef síðan kynnt mér varðandi þessi mál, að hér er um virkilegt vandamál að ræða. Ef við litum á tölulegar upplýsingar, sem koma hér fram í grg. með frv., um að árið 1979 hafi verið unnar 563 fóstureyðingar — og hefur aukist á hverju ári þar á undan — má sjálfsagt leiða líkur að því, að á seinustu árum, 1980, 1981 og 1982 hafi þetta enn aukist, þó að ekki séu hér upplýsingar um það og ég hafi þær ekki á takteinum.

Ef við skoðum þessa tölu, þá kemur í ljós að hér er um að ræða meira en tvær fóstureyðingar á dag, ef við tökum vinnudaga, þ.e. mánudag til föstudags. Mér er kunnugt um að á flestum sjúkrahúsum, þar sem fóstureyðingar eru gerðar, er þetta gert einu sinni í viku eða hálfsmánaðarlega og þá eru það kannske 10 eða jafnvel 20 fóstureyðingar sem unnar eru í einu. Ég hef líka reyndar frétt það að einmitt þá daga sem þetta er gert sé á þeim deildum sjúkrahúsanna nánast örtröð. Þetta hlýtur að vekja mann til umhugsunar um hvað þarna er raunverulega að gerast.

Hins vegar vil ég taka undir það-og reyndar tók hv. 5. þm. Reykv. af mér ómakið — að e.t.v. sé nokkuð langt gengið að fella alveg niður heimildina til þess að félagslegar ástæður geti legið að baki ef framkvæma þarf fóstureyðingu. Mér sýnist miklu fremur, eins og hann benti réttilega á, að það þurfi að endurskoða ákvæði laganna, sem fjalla um félagslegar aðstæður, hverjar þær skuli vera sem heimila þessa aðgerð, og jafnframt hvernig hægt sé að framkvæma það, fylgjast með því og framkvæma það á eðlilegan og sanngjarnan hátt. Félagslega ráðgjöf þarf vafalaust að auka í þessu sambandi líka og sjá til þess að hún sé rétt unnin og veitt. En ég vil eindregið undirstrika það, að ég álit rétt og eðlilegt að frv. þetta fái efnislega meðferð þingsins — og þá jafnframt að í þeirri meðferð og þeim umræðum sem fylgja komi fram þær upplýsingar sem við þurfum á að halda til þess að geta tekið efnislega afstöðu til málsins. Við þurfum að fá nánari upplýsingar um framkvæmd þessara mála, hvernig að þessu er staðið og hverjar hinar raunverulegu félagslegu ástæður séu sem að baki liggja.

Ég vildi aðeins leggja áherslu á þetta: Ég tel að hér sé e.t.v. nokkuð langt gengið, að fella algjörlega niður þessa heimild, og legg fremur ríka áherslu á að athugað sé hvort ekki er hægt að þrengja nokkuð þessa heimild í lögum til fóstureyðinga með því að kanna hvaða félagslegar ástæður liggja aðallega að baki og hvernig við getum staðið þannig að málum að við getum með sóma sætt okkur við þetta.