27.01.1983
Sameinað þing: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

91. mál, hvalveiðibann

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Vegna þess sem hv. 9. landsk. sagði, þá er spurning hvort verði mikið eftir af nýtanlegum þorski og loðnu ef við alfriðum bæði sel og hval. Það var auðvitað rétt hjá hæstv. sjútvrh. að hættulegt getur verið að raska jafnvægi náttúrunnar með algerri friðun ákveðinna dýrategunda, nema sú hin sama dýrategund sé í útrýmingarhættu. Morgunblaðið hafði það í morgun eftir norska blaðinu Fiskaren, að allar veiðar Norðmanna, Rússa og allra annarra þjóða í Barentshafi væru 2.6 millj. lesta af þorski og loðnu á ári. En Norðmenn áætla að hvalur og selur í Barentshafi éti hvorki meira né minna en 3–5 millj. tonna af þorski og loðnu á þessu sama svæði, sem er allt að því helmingi meira en allar veiðar manna, sem þó eru takmarkaðar vegna þess að stofnar eru taldir ofveiddir. Alveg eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh. étur hvalurinn 1.5 millj. lesta af loðnu á þessu hafsvæði. Þessar dýrategundir eru því í mjög harðri samkeppni við sjómenn um að höggva í þessa þýðingarmiklu fiskstofna. Við getum auðvitað ekki yfirfært nákvæmlega þessar tölur yfir á Ísland, en sjálfsagt er hlutfallið ekki mjög ólíkt.

Náttúruverndarmenn hafa auðvitað oft rétt fyrir sér, en mér finnst þeir stundum ganga of langt. Nú hafa þeir í reynd stöðvað setveiðar. Nú er reynt að stöðva hvalveiðar. Þá er spurning, hvenær þeir fara að skipta sér af fiskstofnum okkar, af þorskveiðum okkar og öðru slíku, nema þá hvalnum og selnum verði einum látið eftir að nýta þær tegundir. Svo er það líka spurning, hvaða leyfi við höfum til að hætta að framleiða þýðingarmiklar fæðutegundir, mikið magn af fæðu í sveltandi heimi. Það verður líka að taka tillit til þess.

Ég tek undir, herra forseti, með hv. flm. þessarar þáltill. Við eigum ekki að beygja okkur fyrir hótunum, hvorki frá náttúruverndarmönnum né öðrum. Ég styð þáltill. eindregið.