02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

Þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil leiðrétta það sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan. Ég held að það hafi eitthvað skolast til skynsemin í höfðinu á honum, satt að segja. Það óefni sem þjóðmálin eru nú í verður ekki rakið til þingsins sem stofnunar og þaðan af síður til stjórnarandstöðuþm. Við erum hér að tala um það hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekist. Lýsing hans á virðingu þjóðarinnar fyrir ríkisstj. og þeim þingmeirihluta sem hún styðst við í Ed. og raunar í Sþ. líka er rétt. Ríkisstj. á þennan áfellisdóm skilið. En það er undir engum kringumstæðum hægt að áfellast stjórnarandstöðuna um slælega verkstjórn á Alþingi, um vonda stjórn efnahagsmála né annað það sem hv. þm. taldi hér upp.

Ég vil í annan stað segja það, að Alþingi missir ekki né glatar virðingu þótt það taki ákvörðun sem brýtur í bága við yfirlýsingu eða samþykkt ríkisstj. Það sýnir einungis að Alþingi er annarrar skoðunar. Hvort sem ég er í því dæmi sammála eða ósammála meiri hl. Alþingis verð ég að halda því fram, að með því auki Alþingi reisn sína að hafa hugrekki og kjark til þess að taka fram fyrir hendur á ríkisstj., ef það telur hana á rangri braut. Þess vegna hlýt ég að mótmæla þeim ummælum sem féllu frá hv. 6. þm. Norðurl. e. hér um Alþingi. Ég hlýt að lýsa undrun minni á þeim og mér finnst hann satt að segja í þessari ræðu hafa líkst fullmikið hv. 4. þm. Reykv.