27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

28. mál, málefni aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur þeirra stjórnarliðanna, hæstv. ráðh. og hv. 5. þm. Vestf., en mér sýnist ljóst af ummælum hv. þm. Ólafs Þórðarsonar að nú sé hann að átta sig á því hvern ráðh. hann hefur stutt núna langt á þriðja ár ráðh. sem framkvæmir nýlendustefnu í heilbrigðismálunum. Vonandi að hann sjái nú fram á að það fari að styttast í að hæstv. ráðh. og auðvitað ríkisstj. sem heild sé til. (Gripið fram í: Varst þú ekki að óska honum langra lífdaga áðan?) Nei, hv. skrifari, ég sagði: ef honum auðnast sem slíkum lífdagar á næsta ári. Það var fullkomlega vel undirstrikað, ef-ið.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. hefur verið að beina því til mín þegar hann var að tala um að þm. ættu að lesa lögin. Ég held að ég hafi ekkert sagt hér sem ekki er í fyllsta samræmi við það sem lögin gera ráð fyrir. Ég var ekki að gagnrýna það, hvorki stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra né hæstv. ráðh., ef hann hefur verið sama sinnis, að áætlun væri gerð til 5 ára, heldur að hún skuli gerð til 5 ára og tvö kjördæmi höfð út undan, fái ekki einn einasta pening öll þessi 5 ár. Það var gagnrýnin. Og þá segir, með leyfi forseta, í lögunum, þ.e. 5. gr.: „Ráðh. gerir í samríði við fjvn. og stjórn sjóðsins áætlun til 5 ára í senn um framkvæmdir samkv. 1. gr.Fjvn. var send þessi tillaga og ekkert samráð við hana haft. Fjvn. var send þessi tillaga frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og að vísu beðið um umsögn, en þetta á hæstv. ráðh. að gera samkv. lögum. Þá beini ég því til ráðh. að hann lesi sjálfur lögin betur. Samkv. lögum á hæstv. ráðh. að gera þetta í samráði við fjvn., en ekki senda henni þetta eins og hvert annað pappírsgagn og biðja um stimpil á það. Ég vísa því alfarið á bug að ég hafi hér verið að fordæma að áætlun til 5 ára sé gerð. Ég fordæmi það eingöngu og geri það enn, að slík áætlun skuli gerð og tvö kjördæmi skuli gersamlega útilokuð og fái ekki einn einasta eyri til framkvæmda úr þessum sjóði allan þennan tíma. Það er það sem hv. skrifari kallar nýlendustefnu, nýlendukúgun eins og ég held að hann hafi orðað það.

Ég held að ég hafi tekið það fram, að ég dreg ekkert í efa hina brýnu þörf hér á Reykjavíkursvæðinu fyrir uppbyggingu B-álmu Borgarspítalans. En þörfin er víðar brýn og það erum við að reyna að koma hæstv. ráðh. og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra í skilning um. Ég dreg mjög í efa að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra eða hæstv. ráðh. hafi til þess lagaheimild að taka ákveðna framkvæmda- eða byggingarþætti út úr lögunum og veita fjármagni til þeirra, en skilja aðra eftir, sem lögin beinlínis gera ráð fyrir tvímælalaust að eigi að fá fyrirgreiðslu. Það er alveg skýrt í lögunum sjálfum hvaða byggingar eða framkvæmdaþættir eiga rétt til fjárveitinga eða fyrirgreiðslu. Þar á meðal eru íbúðir. A.m.k. efa ég á þessari stundu fullkomlega að það sé til lagastafur fyrir því að hæstv. ráðh. eða sjóðsstjórn geti strikað út ákveðna framkvæmdaflokka sem lögin ótvírætt gera ráð fyrir að fái fyrirgreiðslu.

Ég get verið sammála hæstv. ráðh. um að framkvæmdir við B-álmuna gangi of seint, en við hvern skyldi nú fyrst og fremst vera að sakast þar? Hver ræður ferðinni, á að ráða ferðinni í þeim málum eða átti að ráða ferðinni undangengin þrjú ár? Er það ekki hæstv. ráðh. sjálfur sem höfuðið á tryggingakerfinu og heilbrigðisþjónustunni í landinu, sem bar skylda til þess að sjá þessum framkvæmdaþætti farborða? En ég get verið sammála honum um að honum hefur ekki tekist sem skyldi að sjá fyrir fjármagni til þess að hraða uppbyggingu þessa þáttar sjúkrakerfisins.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að frá Vestfjörðum hefðu ekki komið umsóknir um annað en íbúðir. Það er úf af fyrir sig rétt. En lögin heimila fullkomlega fyrirgreiðslu til íbúðabygginga.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði hér, að mér finnst það nokkuð skjóta skökku við, þegar hæstv. ráðh. er að biðla um samstöðu og samvinnu í þessu vissulega mikilvæga máli, að hann skyldi undirrita reglur um framkvæmd svona stórs mál í gær án þess einu sinni að tala við fjvn., sem á þó að segja eitthvað um málið.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagðist sjá víða mikla sóun fjármuna í þessum framkvæmdaþætti hér í Reykjavík. Ef svo er er nú efst í mínum huga spurning um hvort það sé mikil ástæða til þess að láta allt þetta fjármagn á þetta svæði til sóunar, ef ekki er hægt að koma í veg fyrir að slík sóun eigi sér stað. Ef þetta er rétt hjá hv. þm., að miklum fjármunum sé sóað við t.d. B-álmu Borgarspítalans, er fullkomin ástæða til þess að athuga það mál.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta, en ég vísa því á bug, hafi því verið til mín beint, að ég hati hér eitthvað sagt sem ekki er fullkomlega eðlilegt og ekki styðst við lögin sem slík. Hér er einvörðungu af minni hálfu verið að gagnrýna, að þegar peninga er aflað til ákveðinna framkvæmda með skattheimtu hjá öllum landsmönnum skuli hinir sömu fjármunir einvörðungu vera notaðir til uppbyggingar á tiltölulega afmörkuðum svæðum, skulum við segja, eða tiltölulega afmörkuð svæði skilin gersamlega eftir án þess að þau fái nokkra fyrirgreiðslu. Ég tala nú ekki um þegar ráðandi öfl leggja til að það verði gert fram í tímann svo að árum skiptir.