02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

91. mál, hvalveiðibann

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Eins dauði er annars brauð. Þau sannindi hafa lengi verið vituð og við Íslendingar höfum drepið skepnur okkur til matar um aldir. Við höfum gert þetta af mannúðarástæðum til þess að halda lifi í þessari þjóð. Nú er um það að ræða hvort við ætlum að hætta hvalveiðum eða hvort við ætlum að standa á rétti okkar og mótmæla.

Ég vil byrja á að þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir fádæma góða ræðu hér í kvöld. Ég tel að hann hafi í ræðu sinni hrakið það mjög skilmerkilega sem þeir hafa viljað halda fram sem eru á móti því að mótmæla. — Og það er dálítið athyglisvert að þrír af fjórum stjórnmálaforingjum þessa lands hafa tekið þá ákvörðun að mótmæla, en einn verið á móti. Sú spurning hlýtur að vakna, hvort einn af stjórnmálaflokkum Íslands hafi valið sér svo miklu hæfari foringja en hinir eða svo miklu huglausari foringja en hinir.

Hv. 8. landsk. þm. hefur verið í viðbragðsstöðu í þessu máli alllengi. Við sem fylgdumst með hátterni viðkomandi þm. undanfarna daga getum með sanni sagt að hún hafi verið á ráslínunni, viðbúin ef merkið kæmi um að málið yrði tekið hér fyrir. Mig skal ekki undra þó að svo hafi verið. Í málflutningi hennar kom það fram, að hér væri verið að fjalla um framhald lífsins á jörðinni, hvorki meira né minna. Ég játa að ég hefði staðið í startholunum nóttina alla hefði ég búist við svo stórum tíðindum. En svona er hægt að æsa sig upp. Framhald lífsins á jörðinni, hvorki meira né minna, var á dagskrá og til atkvgr. Skyldi nokkurn mann undra þótt viðkomandi hafi búið sig undir málflutninginn hér í ræðustól og ákveðið að komast af? Nei, þetta er spauglaust.

Bandalag jafnaðarmanna er búið að álykta í þessu máli. Af mannúðarsjónarmiðum m. a. á að hætta hvalveiðum. Það er nú svo, að við lifum í heimi þar sem skortur er á matvælum og fólk er að deyja úr hungri.

Hver yrði afleiðingin ef allar hvalaafurðir heimsins væru teknar af þeim matarborðum? Skyldu ekki fleiri deyja úr hungri? Eru þetta mannúðarástæðurnar sem Bandalag jafnaðannanna er að berjast fyrir?

Hv. 1. þm. Vestf. — sá sem kjörinn var — er fjarverandi. Það verður aldrei á hann borið að hann skorti kjark. Svo hefur farið, að varamaður hefur lýst því yfir að hann þori ekki að taka áhættuna. Því vil ég koma sérstaklega á framfæri vegna aðdróttana frá 1. þm. Vesturt., svo að það fari ekki milli mála, að 1. þm. Vestf. skortir ekki kjark. En hann er fjarverandi og varamaður er í hans stað. En mig undraði þetta engu að síður. Og ég verð að segja eins og er, að mér leið ekki vel undir þeirri ræðu. Það var ömurlegt að hlusta á þá yfirlýsingu að hugleysið hefði tekið yfir og réði ferðinni, flóttinn einn væri það sem talið væri vit í. En þetta er tíðarandi þingsins. Það þykir fínt að hafa tapað kjarki í þessu máli. Það þykir það alfínasta í afstöðunni.

En menn skyldu ekki gleyma því, að við erum að fjalla um utanríkismál. Alþb. hefur lengi haft það á sinni stefnuskrá að herinn skyldi fara úr landi. Þegar komið hefur verið í ríkisstjórn hefur þetta ekki verið framkvæmt. Það hvarflaði að mér undir þessari umr. hvort þann veg færi, ef Alþb. hefði nú meiri hluta hér á þingi, að það þyrfti ekki nema eitt símskeyti frá Bandaríkjunum og þeir legðu það alveg á hilluna að láta herinn fara. Kjarkurinn væri ekki til staðar, en hagsmunirnir svo miklir. Það bendir allt til þess að svo sé, það hafi verið með hræsni og yfirdrepsskap sem þeir hafa safnað liði og fengið stuðning í kosningum á Íslandi út á þetta, kjarkurinn sé ekki til staðar. Þeir þora ekki, jafnvel þó að þeir hefðu meiri hlutann, að taka þessa afstöðu. Það er auma hjörðin, ef þetta er tilfellið.

Rockefeller var trúlega eitthvert mesta fjármálaséní Bandaríkjanna. Hann gaf á sínum tíma land undir byggingar Sameinuðu þjóðanna. Þá töldu flestir að nú hefði honum orðið á í messunni, nú vissi hann ekki lengur hvað hann væri að gera, nú væri hann farinn að gefa peninga. En hann vissi vissulega hvað hann var að gera. Hann átti allt landið í kring og það hækkaði það mikið í verði að hann stóð uppi miklu ríkari eftir en áður, þegar búið var að byggja. Og hvaða efnahagsmunir eru það sem Bandaríkjamenn eru að verja? Hv. 5. landsk. telur að það séu mannúðarsjónarmið? Hvenær tóku þau yfir? spyr ég. Hér er um falda fjármálapólitík að ræða. Verði allt hvalkjöt tekið af markaðnum hætta hinir efnuðu ekki að kaupa mat. Þeir munu einfaldlega kaupa annað kjöt. Og hvaða áhrif skyldi það hafa á útflutning Bandaríkjamanna til Japans, ef þeir gætu selt þangað kjúklinga og svínakjöt í stórum stíl? Hvaða áhrif skyldi það hafa á kornverðið? Hvaða áhrif skyldi það yfir höfuð hafa á landbúnaðarafkomu þeirra. Ætli það væri ekki sama staðan og hjá Rockefeller forðum? Þeir stæðu uppi með stórkostlegan gróða af tiltækinu.

Nei, við vitum öll að Bandaríkjamenn eru ekki að hugsa um mannúðarsjónarmið í þessum efnum. Ástæðan fyrir því að þm. þeirra hafa tekið þessa afstöðu er sú, að þeir sjá peninga í þessu, í viðskiptunum við Japan, sem í dag er búið að raska efnahagslegum styrkleika Bandaríkjanna.

Það sem veldur mér þó mestum áhyggjum í þessu máli er það, að við erum að taka ákvörðun um að hafa hvalina í eldi í landhelginni alveg án tillits til þess hvað þeir munu éta mikið í framtíðinni. Hvað ætli það sé mikið magn af fiski sem þessi stofn mun éta í fullri stærð? Hefur það verið reiknað út? Eru menn reiðubúnir að láta þann fisk af hendi? Ég hygg að í þessari stöðu hafi farið fyrir helst til mörgum eins og varamanni hv. 1. þm. Vestf.

Herra forseti. Ég hef gert mér grein fyrir því að umboð hvers alþm. til setu hér á þinginu er stutt í tímanlegum skilningi þessarar þjóðar. Það hlýtur að vera fyrsta spurning sem hann spyr sjálfan sig að: Afsalaði ég einhverjum landsréttindum eða veitti ég þeim þm. sem taka við umboð til að bera ábyrgð á öllum þeim málum sem mér var falið á sínum tíma að gæta? Ef við ekki mótmælum núna erum við að afsala okkur réttindum sem okkur var falið að gæta. Við erum að svipta alþm., sem sitja í þessum sal að nokkrum árum liðnum, ákvörðunarrétti um hvort Íslendingar veiði hval eða ekki. Við erum að svipta þá þeim ákvörðunarrétti. Ég gef ekkert fyrir draumsýn. Ég treysti mér ekki til þess að standa frammi fyrir komandi kynslóð og segja: Ég afsalaði þessum landsréttindum.