03.02.1983
Neðri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég tel að með þeirri sjóðsstofnun sem hér er gert ráð fyrir sé farið inn á mjög varhugaverða braut. Mikil og bein niðurgreiðsla á olíu hvetur ekki sem skyldi til þess að menn leiti leiða til ítrasta sparnaðar á olíu. En margir hafa leitað leiða til þess, m. a. með nýjum veiðarfærum, t. d. tveggja báta trolli, sem lofar góðu í þessum efnum. Auk þess er mjög hætt við misnotkun þegar sama varan er seld á mismunandi verði. Ég tel að fara hefði mátt skárri leið að svipuðu marki og frv. er ætlað að ná. Hækkun olíugjalds eða einhver önnur kostnaðarþátttaka fram hjá skiptum hefði t. d. verið skömminni til skárri, en komið í sama stað niður gagnvart sjómönnum.

Þar eð þessar ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, eru beint tengdar ákvörðun um fiskverð frá síðustu áramótun er erfitt að bera fram meiri háttar brtt. án þess að eiga á hættu að ákvörðun fiskverðs sé þá í reynd úr gildi fallin með þeim afleiðingum að flotinn kunni að stöðvast.

Herra forseti. Ég vil undir engum kringumstæðum eiga það á hættu eða stuðla að því á nokkurn hátt að til stöðvunar flotans geti komið og mun því sitja hjá við atkvgr. um frv. þótt ég sé því efnislega andvígur. Ég mun greiða atkv. með brtt. meiri hl. sjútvn. á þskj. 279 og einnig brtt. hv. þm. Péturs Sigurðssonar o. fl. á þskj. 298.