03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

49. mál, framkvæmd skrefatalningarinnar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég skal nú ekkert lengja þessa umr. Það er erfitt að rökræða hér við samgrh. um einhverjar tilvitnanir sem hann grípur til úr grg. Pósts og síma án þess að hafa séð hana. Póst- og símamálastjóri, sem talar um rangfærslur í minni grg., hefur ekki haft svo mikið við að senda mér sína grg., en ég óska náttúrlega eftir því að hv. allshn. fái þessa grg. ásamt því sem ég hef beðið um, þ. e. rökstuðning Pósts og síma fyrir gjaldskrárhækkununum í nóv. s. l. og núna 1. febr. Við nokkrir alþm. bárum fram till. um að könnuð yrði afstaða símnotenda til tveggja valkosta, þ. e. hvort mæta ætti jöfnuninni með hækkun gjaldskrártaxta umframskrefa eða með skrefatalningunni, en reyndin er hins vegar sú, að við sitjum uppi með hvort tveggja, bæði hækkun gjaldskrártaxta til að mæta þessu og eins skrefatalninguna, vegna þess að annað verður ekki séð á bréfi Pósts og síma, þegar þarf að bæta tekjutap Pósts og síma vegna skrefatalningarinnar, sem hér kemur fram í grg., með hækkun á gjaldskrá.