08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

271. mál, rækjuveiðar við Húnaflóa

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er smámisskilningur uppi hjá ágætum þm. Vestf., Karvel Pálmasyni. Það er ekki rétt að áætlanir, sem gerðar voru um kaup lífeyrissjóða á skuldabréfum, hafi almennt ekki staðist og þær hafi almennt verið rangar. Það er misskilningur. Hið rétta er að þessar áætlanir hafa staðist í yfirgnæfandi flestum tilvikum. Það er aðeins í örfáum undantekningartilvikum að áætlanir hafa ekki staðist vegna þess að sjóðir hafa annaðhvort beint kaupum sínum til annarra aðila en tilgreindir voru í lánsfjáráætlun eða alls ekki keypt í þeim mæli sem gert var ráð fyrir. Eins og hér kom fram voru undantekningarnar tiltölulega mjög fáar. Mig minnir að ég læsi hér upp áðan að þær væru átta talsins, og sjóðirnir eru um 80, þannig að allur meginþorri þessara sjóða stendur ágætlega í sínu stykki og sumir kaupa jafnvel meira en þeim ber. En það eru örfáir sjóðir sem svíkjast undan. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sé einn í þeirra hópi. Að sjálfsögðu hefur hann staðið við sína kaupskyldu í samræmi við þær áætlanir sem gerðar hafa verið.