09.02.1983
Efri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér áðan mælti hv. þm. Stefán Jónsson, 4. þm. Norðurl. e., fyrir brtt. sem síðan var dregin til baka til 3. umr., en liggur nú fyrir hér skriflega, og ég vil leyfa mér að gera grein fyrir henni með örfáum orðum.

Það kom í ljós við nánari athugun að eðlilegt er að fella niður í núverandi 4. gr. frv. eins og það nú liggur fyrir eftir 2. umr. orðin „Getur ráðherra veitt undanþágu frá ákvæðum 3. gr. þegar sérstaklega stendur á.“ Eftir að 3. og 4. gr. frv. eins og það upphaflega var hafa verið sameinaðar er ákvæðið um að ekki sé heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni komið inn í 3. gr. Okkur þykir hins vegar óeðlilegt að fyrir hendi sé heimild til að veita undanþágu til þess að nota þjóðsönginn í viðskipta- eða auglýsingaskyni, en þannig má þetta skiljast og er raunar eins og þetta er nú. Þess vegna er hér fram komin brtt. sem hv. þm. Stefán Jónsson gerði grein fyrir hér áðan. Flm. eru auk hans 5. þm. Vesturl. og Þorv. Garðar Kristjánsson, hv. 4. þm. Vestf. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta: 4. gr. orðist svo:

„Nú rís ágreiningur um rétta notkun þjóðsöngsins og sker þá forsrh. úr.“

Það er alveg fullnægjandi að hafa þetta ákvæði eitt vegna þess að úrskurður forsrh. í þessu tilviki hlýtur að vera fullnægjandi og engin þörf á að hafa undanþáguákvæði frá ákvæðum 3. gr. E. t. v. mætti líta á það sem svo, að úrskurður forsrh. gæti falið í sér með nokkrum hætti undanþágur þegar um markað tilvik væri að ræða. Við leggjum sem sagt til að þessi breyting verði samþykkt, herra forseti.